mánudagur, 27. september 2004

Gott útspil hjá bæjarstjóra

Er sammála Lúðvík Geirssyni bæjarstjóra þegar hann segir í blaðaviðtali að ríkið verði að koma inn í kennaradeiluna með réttlátari tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Skólar eru nú einsetnir, en voru tví- eða þrísetnir á tímum ríkisforræðis. Bara þetta eitt hefur gert það að verkum að byggingakostnaður og umsýsla öll hefur aukist verulega. Sama má segja um gæði starfsins, færri nemendur eru í bekkjum en áður var sem þýðir að fjöldi kennara hefur aukist hlutfallslega. Auk þess má nefna að sérdeildarstarf hefur aukist verulega m.a. vegna samdráttar ríkisins í þeim efnum t.d. með fjársvelti stofnnanna eins og barna og unglingageðdeildarinnar -BUGL sem engan vegin getur þjónustað þann fjölda sem á þyrfti að halda.

Hágæða skólastarf verður einfaldlega ekki rekið fyrir þann "tómbóluprís" sem bæjarfélögin fengu í "meðlag" frá ríkinu og mjög efast ég um að fólki vilji fá skólanna í sama horf og var þegar að ríkið sá alfarið um þessi mál? Ríkið getur einfaldlega ekki vikist undan því að greiða sanngjarna hlutdeild í þeim auknu gæðum skólastarfsins sem átt hafa sér stað á síðustu árum.

Íslendingar vilja alvöru skólakerfi. Til þess að svo megi verða þá verður auðvitað að borga kennurum sómasamleg laun. Því fer hins vegar víðs fjarri að svo sé, enda kennarar hér á landi sama marki brenndir og launþegar almennt, eru alstaðar í lægstu viðmiðum ef borið er saman við hin s.k. samkeppnislönd okkar. Hin grjótharða íslenska láglaunapólitík blasir hvarvetna við.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli