fimmtudagur, 30. september 2004

Ekkert heilagt

Þegar að löggjafavaldið , framkvæmdavaldið og dómsvaldið er nánast allt komið á eina hendi þá eru auðvitað blikur á lofti í samfélaginu. Slík völd eru engum til góðs og allra síst þeim sem að þessu brölti standa. Það er heldur ekki til þess ætlast að mál skipist með þessum hætti. Þau "ríki" sem slíka "stjórnskipan" hafa eru yfirleitt nefnd einræðisríki og hafa ekki þótt til eftirbreyttni a.m.k. ekki hér á vesturlöndum.

Að veita einum ráðherra þau völd að ráða algerlega skipan hæstaréttardómara er ekki góð aðferð, eins og dæmin sanna.
Best væri auðvitað að það gerði þingið og til að öðlast setningu þá þyrftu a.m.k. 2/3 hlutar þings að samþykkja ráðninguna. Með því er hægt að hefja ráðningar í jafn mikilvægt embætti og starf hæstaréttardómara upp fyrir pólitískt karp og ekki síst grímulaust valdabrölt.

Það hefur verið mikil órói í íslensku samfélagi á umliðnum misserum. Hvert málið á fætur öðru hefur sett samfélagið á annan endann. Valdastjórnun í neikvæðasta skilning þess orðs hefur verið viðhöfð markvist. Það er ekkert heilagt í þessu valdabrölti, ekki einu sinni meginstoð hins lýðræðislega samfélags , þrískipting ríkisvaldsins.

Mál að linni og undarlegt að flokkur sem einu sinni auglýsti "fólk í fyrirrúmi" skuli láta hafa sig út í að styðja þessa vitleysu. Dýrðlegt að drottna - veit það ekki, en hitt veit ég að að "við og þið" samfélag er veruleiki og ef það var einhvern tímann eitthvað til sem kallaðist "landsföður" þá er það fyrir bí enda hlutverk sem fer illa saman við grímulausa hagsmunagæslu fámennrar valdaklíku.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli