mánudagur, 6. september 2004

Embættismenn eru líka fólk

Forseti Bæjarstjórnar Hafnarfjarðar
Hr. Gunnar Svavarsson


Á síðustu misserum hefur það a.m.k. í þrígang átt sér stað að vegið er að starfsheiðri og æru embættismanna bæjarins úr ræðustól bæjarstjórnar,viðkomandi hafa m.a. verið sérstaklega nafngreindir, lítið gert úr persónum þeirra, sérfræðikunnáttu sem og gerðum.

Í þeim efnum má nefna ummæli tiltekinna bæjarstjórnarmanna í garð fyrrverandi sviðstjóra fjölskyldu- og skólasviðs, ummæli um æskulýðs- og tómstundafulltrúa og nú síðast ummæli um sviðsstjóra atvinnu- og þróunarsviðs.

Félagið vil benda á þá einföldu staðreynd að viðkomandi embættismönnum er með öllu ókleyft að grípa til varna á þessum vettvangi og það er því engan vegin við hæfi að umræða um einstaka embættismenn eigi sér stað með þessum hætti, á opinberum fundi bæjarstjórnar og í beinni útvarpsútsendingu.

Ef bæjarstjórnarmenn telja sig eiga eitthvað sökótt við embættismenn þá er auðvitað eðlilegast að fara hina stjórnsýslulegu leið og koma á framfæri formlegri kvörtun við bæjarstjóra sem er æðsti yfirmaður hinnar hafnfirsku stjórnsýslu. Í þeim tilfellum á viðkomandi starfsmaður a.m.k. formlegan andmælarétt og aðkomu að málinu á jafnréttisgrundvelli.

Félagið bendir jafnframt á þá staðreynd að embættismenn bæjarins búa við almenn lýðréttindi eins og málsfrelsi. Allar tillögur og hugmyndir um takmörkun þess, eins og t.d. með einhverskonar yfirlestri á faglegum erindum embættismanna eru út úr korti.

Félagið væntir þess að málum linni, og að forseti bæjarstjórnar sjái til þess að mál af þessum toga fái umfjöllun á réttum vettvangi.

Virðingarfyllst,

Árni Guðmundsson
formaður STH

Engin ummæli:

Skrifa ummæli