sunnudagur, 1. maí 2005

1. maí og blessað vatnið okkar

Okkar ágæti formaður BSRB Ögmundur Jónasson hélt ræðu dagsins hjá okkur Hafnfirðingum á 1. maí. Ögmundi mæltist afar vel sem endranær. Fín ábending um hin sönnu gildi og markmið samfélagsins. Sennilega ein besta og kjarnyrtasta ræða sem hér hefur verið flutt á 1. maí. Ánægjulegt að fá formann BSRB til okkar á þessum degi. Ræða Ögmundar sem er hin besta lesning er HÉR

Eitt af því sem Ögmundur ræddi um var vatnið og einkavæðing þess. Björn nokkur Ingi varaþingmaður Framsóknar setur málið í samhengi eins og þeim flokki er einum lagið og segir á heimasíðu sinni:

“Ögmundur Jónasson hefur einnig verið óþreytandi á þingi við að gagnrýna öll áform um breytingu á rekstrarformi vatnsveitna í landinu. Engu má breyta í þeim efnum, ekki einu sinni færa til nútímahorfs, því það stríðir að mati Ögmundar gegn almannahagsmunum. Undir þetta hafa svo félagar Ögmundar að sjálfsögðu tekið undir á þingi og í fjölmiðlum.

Og hvað gerðist svo í vikunni? Jú, mjög óvænt tók stjórn BSRB upp á því að ræða um málefna vatnsveitna á fundi sínum, enda augljós tenging fyrir verkalýðsfélög og í raun undarlegt að ekki skuli fleiri hafa ályktað um þessi mál.”


og seinna í sömu grein segir Björn:

“Það er naumast hvaða tengingar Vinstri grænir hafa inn í BSRB, sérstaklega stjórnina! Það getur ekki verið að Ögmundur, þingflokksformaður VG, sé að blanda sínum málum inn í störf sín sem formaður BSRB. Það getur bara ekki verið.
Á meðan launþegar hafa svona forystu, sem heldur sig við aðalatriðin og er ekki sí og æ að blanda sér í pólitísk deilumál, eru þeir í góðum málum...”



Birni til fróðleiks má benda að á heimasíðu Starfsmannafélags Hafnarfjarðar hefur verið um langa hríð tengill þar sem m.a má nálgast skýrslu um hina afar misheppnuð einkavæðingu Vatnsveitunnar í Grenoble. Ráðagerð sem kostað almenning stórfé. Þar er einnig bent á úttektir sem Háskólinn í Greenwich hefur gert á einkavæðingu víðsvegar í veröldinni.

Að BSRB sé að ganga einhver sérstakra erinda formannsins eða Vinstri grænna er auðvitað jafn mikil della og slagorð Framsóknarflokksins sem búið var til á auglýsingastofu hér um árið og hljóðaði: “Fólk í fyrirrúmi”

Einkavæðing og afleiðingar hennar snertir launafólki í þessu landi svo sannarlega og þessar kerfisbundu eignatilfærslur frá samfélaginu til útvalinna góðvina ríkistjórnarflokkanna sem Björn og hans félagar baksa við dag og nótt eru allra síst í þágu almennings.

Einkavæðing og hin neikvæðu áhrif hennar hafa því um langt skeið verið til umræðu innan verkalýðshreyfingarinnar bæði hérlendis og erlends. Á því hefur verið full þörf og hvað okkur BSRB félaga varðar þá höfum við verið svo heppin að eiga formann sem hefur tekið þessi mál upp og staðið að opinberri umræðu sem svo sannarlega hefur ekki verið vanþörf á.

Umræðan um einkavæðingu vatns er fjarri því ný, þó svo að varaþingmanninum komi hún í opna skjöldu. Undrum varaþingmannsins er sérkennileg og ekkert annað í stöðunni en það eitt að hvetja hann til þess að fylgjast betur með umræðunni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli