miðvikudagur, 30. nóvember 2011

Þetta vekur mig til umhugsunar !

Það vakti athygli fyrir nokkru þegar að ógæfumaður  var dæmdur til fangelsisvistar eftir að hann varð uppvís að því að stela nokkrum bjórum í ríkinu. Að vísu  átti hann einhver önnur afbrot af svipuðum toga óuppgerð en var eðli málsins settur í steininn. Lögbrot er lögbrot og umfangið sem slíkt skiptir ekki máli – eða hvað? Lögbrot sem slíkt er nákvæmlega sama hvort það er stórt eða lítið. Í siðuðu samfélagi skiptir ekki máli hvort menn stela einu súkkulaðistykki eða 100 allt eru þetta glæpir.

Þetta vekur  mig til umhugsunar um ákveðið misræmi hvað varðar önnur lögbrot t..d. eins og brot á 20. gr áfengislaga um bann við áfengisauglýsingum. Í þeim efnum hafa “vettlingatök” verið viðhöfð.  Þó  að dómum fjölgi þá er það umhugsunarvert í  Hæstaréttardómi  þar sem ritstjóri Mannlífs var dæmdur til sektar þá skilar einn dómari séráliti þess efnis að þar sem brot séu svo mörg að hinn seki  ætti ekki gjalda þess að vera einn kærður. Jafnræði fælist í því að þessi eini ætti að sleppa? í stað þess þá væntanlega að vinda sér í kæra þá sem lögbrot hafa framið.   Þess má geta að ritstjórinn sakfelldi  lagði fram sér til “málsbóta” fjórar möppur er innihéldu 999 áfengisauglýsingar sem ekki hefðu verið kærðar?

Þetta vekur mig til umhugsunar um hve gríðarlegt virðingarleysi viðkomandi aðilar sýna lögum landsins. Áfengisframleiðendum og innflytjendum áfengis flestum hverjum  virðist vera algerlega sama um  lög landsins sniðganga þau,  brjóta og sýna af sér markvissan og einlægan brotavilja. Dómar þ.e.a.s. fyrir utan það að einn og annar forstjórinn eða ritstjóri lendir á sakaskrá, eru svo vægir að greiðsla sektar er aðeins brotabrot af auglýsingakostnaði  og dómar miðað við fjölda  brota eru allt of fáir.

Þetta vekur mig til umhugsunar um  20. grein áfengislaga sem fyrst og fremst er sett fram sem liður í vernd barna og ungmenna. Það er skynsamlegt enda áfengi engin venjuleg “matavara” . Íslendingar drekka ekki rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum eins og er óskhyggja einhverra þingmanna sem vilja leyfa sölu á  áfengi í stórmörkuðum, en eins og kunnugt er þá er verulegur fjöldi starfsmanna unglingar og í einhverjum tilfellum allt niður í  12 ára börn!  Áfengi er viðkvæm vara eins og t.d. lyf og tóbak og lýtur því að sjálfsögðu öðrum lögmálum en vörur almennt.  Börn og unglingar eiga því lagalega og ótvíræðan rétt á því að vera laus við þennan einhliða áróður sem  áfengisauglýsingar eru.  Bann við áfengisauglýsingum er ekki  skerðing á tjáningarfrelsi eins einhverjir brennivínsbransans menn  hafa haldið fram. Samkvæmt skýrum niðurstöðum Hæstaréttar  um það atriði þá er um keyptan einhliða áróður að ræða sem ekkert á skylt við tjáningarfrelsi. Hitt er svo annað mál að það er teljandi á fingrum annarar handar þau tilefni sem fulltrúar áfengisbransans hafa tekið þátt í almennum tjáskiptum – t.d. í fjölmiðlum eða öðum opinberum vettvangi. Því þora menn ekki og kjósa að höndla í samræmi við eigin skoðanir um “tjáningarfrelsi” þ.e. með fleiri áfengisauglýsingum.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hve lágt menn leggjast í þessum málum. Ég sagði eitt sinn á fræðslufundi í ónefndu foreldrafélagi að það væru engin mörk og nefndi það að sennilega myndu menn auglýsa bjór á fæðingardeildinni ef menn kæmust upp með það.  Var þá að ýja að því hvernig áfengisbransinn beinir auglýsingum markvisst að börnum og unglingum. Fékk skömm í hattinn fyrir þessi ummæli en viti menn ekki löngu síðar barst mér myndband þar sem hinir dönsku “Gunni og Felix” léku í bjórauglýsingu.  Nær fæðingardeildinni verður vart komist.

Þetta vekur mig til umhugsunar um þá lágkúru þegar að settar voru áfengisauglýsingar inn á bloggsíður barna; eða þegar að Ölgerð Egils Skallagrímssonar lét koma fyrir áfengisauglýsingum í strætóskýlum á stór Reykjavíkursvæðinu í aðdraganda grunnskólaprófa og að stjórn Strætó b.s. skyldi sýna sínum helstu kúnnum, börnum og unglingum slíka vanvirðu; eða þegar að íþróttafélag gerir fullann Lunda  með bjór í hönd að einkennismerki útihátíðar; eða þegar RÚV birti áfengisauglýsingum í kjölfar þess að forseti Íslands  veitti íslensku forvarnarverðlaunin og eins í kjölfar þess þegar að liðsmönnum íslenska handknattleikslandsliðsins voru veittar orður; eða þegar börn eru notuð í áfengisauglýsingar eins og fyrirtækið Vífilfell gerir; eða þegar að útvarpstöðvar sem ætlaðar eru börnum og unglingum útvarpa áfengisauglýsingum; eða þegar að auglýst að ekki sé hægt að horfa á enska boltann nema verða ölvaður; eða þegar að áfengisbransinn segist vera hluti af íþróttaleikum; eða  þegar ungt fólk eignast ekki vini fyrr en það hefur drukkið 12 bjóra.? Svona mætti lengi telja og ljóst að virðing fyrir réttindum barna og unglinga er engin.

Þetta vekur mig til umhugsunar um það að áfengisauglýsingar virka. Hagsmunaaðilar hafa haldið hinu gagnstæða fram og nefnt í því samhengi að ekki sé hægt að finna fylgni milli auglýsinga og aukinnar drykkju t.d. ungmenna. Þetta er útúrsnúningur og ætla sér að nýta rannsóknaraðferð sem einungis er nýtt á tilraunstofum í lokuðu eða tilbúnu umhverfi  eins t.d.  við lyfjarannsóknir virka einfaldlega ekki sem mælitæki hvorki hvað varðar áfengisauglýsingar eða annað í þeim dúr. Slíkt er ekki hægt að mæla í margþættu samfélagi þar sem að óteljandi atriði hafa áhrif sem ekki er hægt að einangra sem gera það að verkum að ekki fæst marktæk fylgni. Þetta vita allir sem fást við rannsóknir.  Grundvallar spurningin er því sú ef auglýsingar virka ekki hvers vegna er þá verið að auglýsa?   Auglýsingar virka og því til sönnunar má nefna að Bandaríkjamenn gerðu könnun sem fólst í því að rannsaka ungmenni sem lent höfðu í áfengis- og vímuefnaneyslu og þar kom greinilega í ljós að gagnvart þessum hópi höfðu áfengisauglýsingar haft veruleg áhrif. ( Journal of Public Health Policy (2005) 26, 296-311)

Þetta vekur mig til umhugsunar  um alla þá vinnu sem foreldrasamfélagið og allir þeir aðilar sem vinna með börnum og unglingum hafa lagt á sig í forvarnaskyni. Á sjöunda og áttunda áratug síðust aldar voru skólaskemmtanir  í unglingadeildum fjarri því að vera áfengislausar og í einhverjum tilfellum þurfti afskipti lögreglu vegna ölvunar. Sem betur fer heyrir þetta fortíðinni til og með sífellt betri samstarfi foreldra með tilkomu  foreldrafélagana og síðar víðtæku samstarfi þeirra aðila sem vinna með börnum og unglingum  breytist ástandið hægt og sígandi til hins betra.  Markmið foreldrasamfélagsins um vímuefnalausan grunnskóla  er raunhæft og með samstilltu átaki allrar þeirra sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti það hefur margt áunnist þrátt fyrir gegndarlausan áfengisáróður sem beint hefur verið sérstaklega að börnum og unglingum. Sá sem þetta ritar veit að árangur hefði án alls efna verið betri ef áfengisbransinn léti börn og unglinga einfaldlega  í friði. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga  sem þau eiga lögvarðann rétt til þess að vera laus við og ganga þvert á öll uppeldismarkmið  foreldrasamfélagsins .

Þetta vekur mig til umhugsunar um  siðferði eða viðskiptasiðferði. Þegar að grjótharðir viðskiptahagsmunir einir ráða algerlega för án nokkurs tillits til laga eða almenns siðferðis vaknar sú áleitna spurning hvort slíkt eigi ekki við alla aðra starfsþætti viðkomandi fyrirtækis? Getur verið að sá hroki sem viðkomandi  fyritæki sýnir  réttindum barna og unglinga sé fyrirtækið í hnotskurn?

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvort ekki sé óviðeigandi að eiga viðskipti við slík fyrirtæki. Er forsvaranlegt að eiga í viðskiptum við fyrirtæki sem ota áfengi á börnum manns? Að mati þess sem þetta ritar er engin spurning um að sniðganga auglýstar áfengistegundir. Myndir þú versla við kaupamann sem ýtti tóbaki að börnunum þínum. Held ekki – og því auðvitað sjálfgefið að slíkt gildi einnig við þá aðila sem ota áfengi að börnum og unglingum.

Þetta vekur mig til umhugsunar um hvers vegna við all margir foreldrar og fólk sem ber velferð æskunnar fyrir brjósti stofnuðum  Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum (www.foreldrasamtok.is ). Í meira lagi undarlegt að stofna hafi þurft sérstök samtök í þeim eina tilgangi að freista þess til að farið sé að lögum? Er sennilega einstætt i hinum vestræna heimi og  í raun sorglegt dæmi um lágt viðskiptasiðferði og virðingarleysi gagnvart börnum og unglingum . Bendi fólki á síðu samtakanna  (www.foreldrasamtok.is )þar sem koma má á  framfæri  með rafrænum hætti ábendingum um brot á lögum um bann við áfengisauglýsingum.

Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir – sýnum ábyrgð og tilkynnum um brot.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli