mánudagur, 21. nóvember 2011

Hermann Fannar Valgarðsson


Dagsins amstur verður afar fáfengilegt þegar að þær fréttir berast að ungur vinur manns hafi í blóma lífsins orðið bráðkvaddur.  Á slíkum stundum setur mann hljóðan og maður skilur lítt hin æðstu rök tilverunnar.   

Það fór ekki fram hjá neinum þegar að unglingurinn Hemmi  mætti á svæðið  ásamt góðum hópi, fremstur meðal jafningja.  Vettvangurinn  var félagmiðstöðin Vitinn í Hafnarfirði  um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Eins og hans var von og vísa var ekkert verið að tvínóna við hlutina og fyrr en varði  var komin mikil aksjón í starfið. Uppátæki  ungmennanna margvísleg og ávallt vörðuð óbilandi bjartsýni æskunnar sem lætur ekki einhver praktísk atriði trufla góða hugmynd.  Það var því margt brallað og stundum fannst starfmönnum nóg um.  En allt gekk þetta vel  og frábært að fylgjast með þessum ungmennum þroskast og dafna sem sjálfstæðir og virkir einstaklingar. 

Það lá beint við að Hemmi kæmi til starfa hjá ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráði  Hafnarfjarðar) þegar að hann hefði aldur til.  Það voru  í hans tilfelli óljós skil því erfitt var að greina hvenær hann hætti að vera unglingur og  varð starfsmaður.  Kannski  að hann hafi ekki heldur gert nein skil sjálfur á því. Þegar við hugsum til Hemma koma upp ótrúlegustu myndir í hugann eins og hæfileikakeppnin Höfrungur og Risapáskaeggjaunginn, aldrei lognmolla eða óleyst vandamál. Hemmi  hafði alla þá eiginleika  sem að góður starfsmaður í æskulýðsstarfi þarf að búa yfir, hann var ungu fólki góð fyrirmynd,  starfaði í anda sköpunar og frumkvæðis og ávallt jákvæður.  Hann vissi að mikilvægi starfsins liggur í því að leiða saman fólk, byggja upp virk samskipti  og gefa ungu fólki kost á að vinna saman undir merkjum lýðræðis að margvíslegum verkefnum.  Að gefa ungu fólki kost á því að öðlast félagslegan þroska og félagslega hæfni í gegnum hin ýmsu viðfangsefni . Með öðrum orðum að gefa ungu fólk kost á að menntast í víðtækasta skilning þess orðs.

Þessar góðu eigindir nýtust Hemma örugglega vel á öðrum vettvangi og í hans margvíslegu  verkefnum síðustu ára. Það er afar sárt að kveðja góðan vin sem yfirgefur okkur allt og fljótt. Mest er þó sorg Söru, sonar þeirra og nánustu skyldmenna. Um leið og við vottum þeim okkar dýpstu samúð þá þökkum við fyrir að hafa átt vináttu Hemma  í gegnum árin og góðar minningar um góðan dreng – blessuð sé minning hans.

Árni Guðmundsson fv. æskulýðs- og tómstundafulltrúi Hafnarfjaðrar
Geir Bjarnason  forvarnafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar

Engin ummæli:

Skrifa ummæli