mánudagur, 24. október 2005

Stór flokkur en lítið prófkjör !

Skil ekki að jafn stór og sterkur flokkur eins og Samfylkingin í Hafnarfirði viðhafi lokað prófkjör sem auk þess er keyrt í gegn á rúmum tveimur vikum? Veit ekki hvað liggur svona rosalega á að koma saman lista? Er einhver knýjandi nauðsyn? Nei því fer fjarri lagi og ekkert í stöðunni sem gefur tilefni til þessarar skyndilegu ofvirkni. Samfylkingin í Reykjavík mun t.d. viðhafa sitt prófjör í febrúar á næsta ári.

Flokkur sem er með meirihluta í bæjarstjórn sækir viðtækt umboð til almennra kjósenda í bæjarfélaginu. Sem sagt almennings sem eru ekki nema að litlu leyti félagar í flokknum og munu ekki ganga sérstaklega í hann til þess eins að taka þátt í prófkjöri nema í afar litlu mæli.

Eins og raunin var í síðasta prófkjöri Samfylkingarinnar, þar sem þátttaka var auðvitað allt of lítil. Fyrirkomulag var einnig að mörgu leyti undarlegt eins t.d. það að frambjóðendum stóð ekki til boða félagaskráin en máttu búa við það að líta hana augum á skrifstofutíma, eins einhverja skattskrá? Bara þessi sperra gerði það auðvitað að verkum að starfssamir flokksmenn höfðu allt annan aðgang að kjósendum en aðrir frambjóðendur. Fyrirkomulagið gerði fólki sem ekki starfaði innan flokksins afar erfitt fyrir og takmarkaði möguleika viðkomandi verulega. Var svona svipað eins að vera á veiðum án þess að vita hvar miðin eru. Ekki veiða menn mikið í slíkum ferðum, sem auðvitað varð raunin a.m.k. ef marka má persónulega reynslu undirritaðs.

Ef stór flokkur eins og Samfylkingin ætlar að nýta svona lokað kerfi eins og hér um ræðir þá er auðvitað bara betra að fara alla leið og stilla upp með gamla laginu.. Affarasælast hefði auðvitað verið að viðhafa án nokkurs kinnroða eða minnimáttarkendar opið prófkjör allra stuðningsmanna flokksins. Stór flokkur - fjölmennt opið prófkjör. Reyndist vel hér í eina tíð t.d. þegar ágætur vinur minn Guðmundur Árni náði vel á fjórða þúsund manns til þátttöku.

Núverandi prófkjörsfyrirkomulag er ekki vænlegt fyrir fólk úti í samfélaginu sem vinnur á öðrum vettvangi samfélagsins en hins pólitíska en gæti vel hugsað sér að taka þátt í slíkri vinnu. Forsendur eru því miður ekki þess eðlis að slík sé kleyft.

Til þess að svo verði þá þarf fólk sem gefur kost á sér að hafa sama byrjunarreit, svo er ekki – og þess vegna verður vettvangurinn fyrst og fremst vettvangur dugmikilla og virkra flokksmanna!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli