Hið virta málgagn sjálfstæðismanna hér í bæ Hamar sendir mér tóninn í nýjasta blaði sínu. "Iðrast Árni" er hin virðulega fyrirsögn og best á því að byrja með því að staðfesta að svo er alls ekki. Tel að með sama áframhaldi þá hefði Hafnarfjörður orðið að risastórri tilraunastofu í einkavæðingu. Fólk vildi ekki frekari tilraunir enda féll þáverandi meirihluti?
Skoðanir undirritaðs hvað varðar einkavæðingu eru fólki vel kunnar og hafa ekkert breyst. Allmargar greinar hef ég ritað um þau mál, bæði um algerlega misheppnaða einkavæðingu hérlendis sem og erlendis. Á örugglega eftir að skrifa fleiri og fylgi þar sem endranær eigin sannfæringu og geri engan greinarmun á milli flokka í þeim efnum.
Hins vegar er það svo að blað sem veit ekki að komið er frábært menningar og kaffihús ungmenna í Mjósund 10, "Gamla bókasafnið", fyrir margt löngu og agnúast yfir því að svo sé ekki og það jafnvel þó að einn ritstjórnamanna sitji í forvarnarnefnd sem fer með stjórn hússins, þá verður að segjast eins og er að trúverðugleiki blaðsins dofnar verulega og jafnvel hverfur.
Sama á við skrif um hinn iðrandi Árna, grein sem höfundur treystir sér ekki til að rita nafn sitt undir? Greinin byggir á þeirri grundvallarskekkju að ræstingarfólk hafi verið félagsmenn í STH, en svo hefur aldrei verið. Af þeim sökum er starfsfólkinu því algerlega ókleift að yfirgefa félagið. Allir þeir sem vit hafa á uppbyggingu verkalýðshreyfingarinnar vita að ræstingafólk var áratugum saman í Verkakvennafélaginu Framtíðinni og síðustu ár í sameinuðu félagi undir nafni Verkamannafélagsins Hlífar
Formaður STH var fyrstur manna til að benda á hvað alvarlegu afleiðingar útboð á ræstingum bæjarins myndi hafa. Fjöldi fólks missti vinnuna og þeir sem ráðnir voru fengu mun lægra kaup fyrir mun meiri vinnu! Yfir þessu virtist öll bæjarstjórnin vera himinlifandi.
Það voru bara tveir menn sem létu að sér kveða í þessu máli í upphafi . Það var formaður STH og það var ágætur vinur hans , bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins Gissur Guðmundsson sem einn manna hafði upp andmæli gegn þessu í bæjarstjórn, 10 -1 í bæjarstjórn?
Formaður starfsmannafélags hefur kosningarrétt rétt eins og aðrir þegnar samfélagsins en þegar að kjaramál eru annars vegar þá eru auðvitað hagsmunir félagsmanna í fyrirrúmi. Á langri vegferð hefur formaðurinn þurft að fara inn alskyns erfið starfsmannamál og starfslokasamninga , einkum hefur þetta átt við þegar að stjórnaskipti verða. Í þeim efnum skiptir engu máli hið pólitíska litróf bæjarstjórnar eða viðkomandi einstaklinga, það á enginn STH og félagið lýtur í engu öðru en fremstu hagsmunum sinna félagsmanna hverju sinni.
Það skiptir þann sem þetta ritar engu hvort sjálfstæðismönnum sem stýra Hamri sé illa við formann STH , Starfsmannafélag Hafnarfjarðar eða bara verkalýðshreyfinguna í heild. Verkalýðhreyfingin hefur staðið vörð um mörg þau gildi og réttindi sem virðast þvælast fyrir pólitískum markmiðum íhaldsins um þessar mundir sem skýrir m.a. nafnlaus greinarskrif af þeim toga sem gaf að líta í Hamri .
"Stétt með stétt" - veit það ekki - er ekki hinn blákaldi pólitíski veruleiki orðin "stétt fyrir stétt" ?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli