þriðjudagur, 10. ágúst 2004

Af pæjum

Var á Pæjumótinu í fótbolta á Siglufirði um helgina með dóttur minni. 90 skvísur úr FH og annað eins frá Haukum á svæðinu. Allar sem ein Hafnarfirði til sóma. Gengið var svona upp og niður eins og gengur og gerist. Skipulagning heimamanna var frábær og í raun ótrúlegt hve allt gekk vel og snurðulaust fyrir sig, sérstaklega þegar að haft er í huga að spilarar voru sennilega um 1.600 talsins. Hef verið á ófáum mótum en set þetta án vafa í fyrsta sæti hvað varða skipulag og framkvæmd.

Annað mál og íhugunarvert þessu tengt er þáttur foreldra á slíkum mótum, sem alflestir og í mjög miklum meirihluta voru til sóma, en þó ekki allir. Fagna því umræðu sem verið hefur undanfarði um þátt þeirra á mótum og kannski ekki vanþörf á. Dæmi um slíkt var:

Framámaður eins félags stóð við markstöng liðs "andstæðinganna" í yngsta aldurflokki og sagði markmanni að láta boltann vera, sem og barnið gerði og úr því varð mark sem gerði út um leikinn? Og svo hitt þegar að fullorðnir einstaklingar hafa uppi afar niðrandi ummæli um dómara og einstaka leikmenn eða lið sem keppt er við. Algerlega óviðeigandi og ekki við hæfi. Sem betur fer er ekki mikið um þetta, en þó allt of mikið.

Legg því til að það verði einfaldlega bannað á mótum sem þessum að argast út í dómarann og lið andstæðinganna og einstaka leikmenn þess. Mætti jafnvel taka upp verðlaun fyrir prúðasta og uppbyggilegasta stuðningsmannaliðið.
Blessuð börnin verða að eiga góðar minningar frá svona mótum og þáttur foreldra og forráðamann þeirra er mikil ef svo á að verða. Tap og sigra er hægt að vinna með á uppbygglegan hátt en það verður ekki gert með ummæli eins og að " þessi eða hinn dómarinn sé fífl" eða að "þessi hlussa sé tuddi"?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli