laugardagur, 19. júní 2004

17. Júní, Löggan og verslunin 10 -11

17. júní, Löggan og verslunin 10 -11. Í ýmsu stendur maður í hlutverki framkvæmdastjóra 17. júní hátíðarhaldanna í Hafnarfirði. Flest allt af ánægjulegra taginu en því miður ekki alltaf. Það er að mörgu að hyggja og allt þarf þetta að stemma bæði í tíma og rúmi. Ég bý að gríðarlega dugmiklu samstarfsfólki og af þeim sökum hefur þetta gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig í gegnum árin.

Alltaf er samt eitthvað sem kemur upp og aldrei veit maður fyrirfram hvað það kann að vera. Í þeim tilfellum þá er það bara að bretta upp ermarnar og vinda sér í málið.

Árið í ár var engin undartekning. Þannig háttar til að Þjóðhátíðarnefnd gefur út sérstök (tjald)söluleyfi á hátíðarsvæðunum og eru leyfin einungis veit félagasamtökum sem liður í fjáröflun þeirra. Í ár fór kvöldskemmtunin fram á planinu við Hafnarborg og verslunarmiðstöðina Fjörð. Til þess að allt gengi nú vel fyrir sig ákvað nefndin með ærnum tilkostnaði að hafa sérstaka gæslu inni í verslunarmiðstöðinni enda vitað að veitingastaður og verslunin 10 - 11 væru með opið og að margt fólk yrði á svæðinu.

Nú brá hins vegar svo við að verslunin 10-11 kemur sér fyrir með sölubás á hátíðarsvæðinu í óleyfi og óþökk allra aðila. Þrátt fyrir vinsamleg tilmæli og ábendingar um að fjarlæga sölubásinn þá virti starfsfólk þær að vettugi. Þegar framkvæmdastjóri 10 - 11 tilkynnir undirrituðum (sem gefur út söluleyfi í umboði þjóðhátíðarnefndar) í símtali að verslunin hafi söluleyfi á svæðinu og muni ekki færa sig hvað sem tauti og rauli, þá var orðið fullljóst að það var einlægur ásetningur 10 -11 verslunarinnar á virða að vettugi allar reglur.

Þegar að svona var komið þá var auðvitað bara einn kostur í stöðunni sem var að kalla til Lögreglu. Lögreglan kannaði málið og frekar var það snautlegt að sjá starfsfólk 10 -11 taka saman sitt hafurtask og hafa sig á brott í lögreglufylgd fyrir framan nefið á fleiri þúsund manns? Hitt er einnig snautlegt í meira lagi að verslunarkeðjan skuli ætla að hafa fjáröflun af bláfátækum íþróttafélögum með þessum hætti?

1 ummæli: