þriðjudagur, 15. júní 2004

Húrra fyrir Sjónvarpinu

Húrra fyrir Sjónvarpinu fyrir að henda boðflennunni Carlsberg út úr umgjörð Evrópukeppninnar í fótbolta. Hef oft verið að velta fyrir hvílíkum félagskap fótboltinn er hafnaður í! Bjór og hamborgarar, þvílík blanda og þvílík vitleysa. Og í hvaða samhengi setur þetta forvarnarstefnu íþróttahreyfingarinnar?

"Carlsberg hluti af leiknum" eru sennilega ein mestu öfugmæli seinni tíma. Leikmenn falla einfaldlega á lyfjaprófi þar sem ein meginforsenda leiksins er að menn séu ódrukknir. Praktíserandi fyllibyttur eru ekki bara slappir í boltanum heldur einnig afar lélegar fyrirmyndir ungu íþróttafólki. Á fjölskyldan að setjast saman fyrir framan sjónvarpið og drekka Carlsberg ? Er það hluti af leiknum ?

Íþróttahreyfingin nýtur gríðarlegar aðstoðar og velvildar samfélagsins. Bæjarfélög styrkja íþróttahreyfinguna með verulegum fjármunum í formi rekstrarstyrkja og til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum. Hreyfingin hefur því ríkum skyldum að gegna gagnvart samfélaginu sem m.a. felast í því að boða heilbrigðan lífstíl. Það er auðvitað ekki gert í samvinnu við bjórbransann nema síður sé. Það verður ekki bæði haldið eða sleppt í þessum efnum. Áfengisauglýsingar - forvarnir ? Eitthvað lætur undan að lokum og eflaust verður það trúverðugleikinn sjálfur.

"Hluti af leikum" er því að henda þessum boðflennum út og það virðist mér Ríkissjónvarpið hafa gert og fyrir því tek ég ofan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli