sunnudagur, 1. maí 2011

1. maí um land allt

Verð fjarri góðu gamni á 1. maí og tek því ekki þátt í hátíðarhöldunum að þessu sinni en læt mitt hins vegar ekki eftir liggja og birti hér ávarp frá 2004 sem ég, sem formaður STH og stjórnarmaður í BSRB, flutti á Grundarfirði og Ólafsvík árið 2004. Segið þið svo að verkalýðshreyfingin hafi ekki haft upp varnaðarorð gangvart því sem á eftir kom? Gleðilega hátíð með von um að með samtakamætti takist að vinna bug á því félagslega böli sem íslensk láglaunapólitík er.




1. maí ávarp flutt í Grundarfirði og í Ólafsvík árið 2004
Gleðilega hátíð

Verkalýðsbaráttan er
eins og sagan endalausa. Þegar að einum áfanga er náð þá blasir hinn næsti við. Verkefnin ótæmandi og stöðugt ný sem bætast við.

Ef litið er til lengri tíma þá er ljóst að margt hefur áunnist í baráttunni hér landi síðustu áratugina og ef við lítum til enn þá lengra tíma og allt að tímaum iðnbyltingarinnar í Englandi um miðja 18 du öldina, þar sem að líf kolanámuhestsins var meira virði en hins þrælkað barns. Hesturinn mun sterkari og bar mikið magn kola úr námunum og því verðmætari vinnukraftur. Börnin allt niður í 4 -5 ára gömul voru veikburða en þóttu hins vega afar nýtileg við að krafla kol úr þröngum útskotum í námunum. Þau entust illa, urðu lasburða, mörg létust, mörg flýðu og lögðust á vergang. Réttindi barna voru minni en vinnudýra og voru þau sett skör neðar. Breski rithöfundurinn Charles Dickens gerir þessum ömurlegu aðstæðum barna og verkafólks góð skil í bókum sínum.

Sem betur fer þá
hefur margt áunnist frá þessum ömurlegu tímum, það hafa margar orrustur unnist og mörgum árásum á kjör alþýðunnar hefur verið hrundið á bak aftur. Setning vökulaganna um 1920 á Íslandi var mikil áfangi og fjarri því sjálfgefin.

Í þessu samhengi það sjáum við greinileg að gríðarlega margt hefur áunnist. Við vitum einnig að það hefur ekkert komið upp í hendurnar á okkur baráttulaust. Fyrir hverri einustu breytingu hefur þurft að hafa fyrir. Þetta segir okkur og sýnir að verkalýðshreyfingin hefur gengt gríðarlega mikilvægu hlutverki og gerir enn og hreyfingin mun gegna mikilvægu hlutverki áfram.

Það er okkur því nauðsyn að styrkja innviði okkar með margvíslegum hætti. Við verðum að fá unga fólkið til liðs við okkur, við verður að fá hinn almenna félagsmann til að vera virkari og við þurfum að láta rödd okkar heyrast.

Það er engin tilviljun
að fyrir Alþingi liggi tillaga frá þingmanni úr stuttbuxnadeild íhaldsins um að afnema aðild fólks að verkalýðsfélögum. Járnfrúin hin breska sem féll af stalli með eftirminnilegum hætti, og skyldi samfélagið eftir í upplausn, barðist hatrammri baráttu gegn verklýðshreyfingunni bresku og með þeim hætti og árangri að en þann dag í dag hefur hún ekki borði sitt barr.

Það er því varhugavert og allrar varkárni vert að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað hér á landi. Verkalýðshreyfingin er litin hornauga og talinn standa í veginum - fyrir hverju spyrja menn? Svarið er augljóst ! Í veginum fyrir grímulausum eignatilfærslum í íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfinginn hefur leyft sér að hafa skoðanir á skiptingu þjóðarteknanna. Verkalýðshreyfingin hefur leyft sér að hafa skoðanir á einkavæðingu og að eignum samfélagsins séu færðar sérvöldum gæðingum
Verkalýðshreyfingin er ógn við þá grímulausu gróðahyggju þeirra afla sem nú ráða íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfingin hefur staðið vörð um velferðarkerfið. Verkalýðshreyfinginn er óþægileg því hún stendur í vegi fyrir markmiðum óheftrar gróðahyggju fámennra hópa samfélagsins og truflar þau margmið verulega. Sendisveinar þessara hagsmunaafla eru á Alþingi á stuttbuxunum einum saman og settir sérstaklega í það verkefni að ráðast að hreyfingunni með öllum tiltæknum ráðum.

Verkalýðhreyfingin er samfélagslega ábyrg
gerða sinna og um okkur er samt sem hægt að segja eins og fram kemur í ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá" Þjóðarsáttarsamningarnir eru það eldmeti sem núverandi góðæri og velferð byggir á. Við höfum hins vegar ekki fengið sanngjarnan hlut nema síður sé og þrátt fyrir einhverja mælanlega kaupmáttaraukningu almennings þá er hún í engu samræmi við þann ofurgróða sem bankar - og fjármálastofnannir sýna. Okurvextir , ofur þjónustugjöld, verðsamráð olíufélaganna, fákeppni á matvörumarkaði og hlutfallslega hátt vöruverð miðið við samkeppnislöndin gerir það að verkum að hlutdeild almennings í góðærinu er í engu samræmi við þær fórnir sem færðar hafa verið.
Hámarksávöxtun hlutbréfa, hámarksarðsemi,og skyndigróði er hið eina markmið margra fyrirtækja ,ýtrustu einkahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Afkomutölur fyrirtækja í landinu sýna svo ekki verður um villst að ráðrúm er til tekjuskiptingar með öðrum og sanngjarnari hætti en verið hefur.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki
að deila gæðum þó svo að stundum geti virst að svo séu þeirra meginmarkmið. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa sátt og samlyndi um helstu gildi og um leikreglur samfélagsins. Í dag fer því víðs fjarri að sátt og samlyndi ríki um skiptingu gæða í samfélaginu og í raun sjaldan verið eins mikil ójöfnuður og nú um þessar mundir. Stjórnvöld hafa ekki haft getu eða vilja til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til þess að sátt náist

Oft er deilt á hinn opinbera geira.
Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í flestum þeim tilfellum þar sem það á rétt á sér, þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlömb misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa með störfum sínum. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra.

Einkavæðing hefur hvergi leitt til
lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi sem kostað hefur ýmis samfélög gríðarlegar fjárhæðir, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Nýleg lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkarekinn einokun er sennilega versta og kostnaðarsamasta rekstraform fyrir samfélagið sem völ er á þegar að upp er staðið.

Verkalýðsbaráttan er sagan endalausa
sagði ég hér í upphafi. Orð að sönnu, hún þarf að styrkja innviði sína og hún þarf að láta rödd sína heyrast vel og víða og hin ýmsu verkalýðsfélög þurfa að mæla einum rómi. Það þarf að þétta fylkinguna og efla. Það þarf að hvetja unga fólkið til dáða og virkni innan hreyfingarinnar. Hin gömlu klassísku sannindi um að "sameinuð stöndum vér en sundruð föllum vér" er í fullu gildi. Leggjum á eitt til að svo megi verða og þá styrkjumst við og þá mun okkur farnast vel í hinum mörgu og erfiðum verkefnum framtíðarinnar

Engin ummæli:

Skrifa ummæli