miðvikudagur, 10. janúar 2007

Kalt eða skítkalt

Meintar alþýðuhetjur, sem að eigin sögn hafa kýlt niður vöruverð í landinu okkur smælingjunum til hagsbóta, segja fátt þessa daganna. Ástæður augljósar hæsta vöruverð hérlendis í Evrópu og þó víðar væri leitað, 62% yfir meðalverði í EB/ES löndum segir Mogginn. Er góðmennskan og bjargræðið fólgið í því að vera bara 62% yfir velsæmismörkum en ekki 110% eins og „vondu karlarnir” sem öllu réðu áður myndu örugglega hafa gert?

Málið er einfalt verslunin leggur eins mikið á vörur eins og hún kemst upp með hverju sinni. Verslun í landinu er nánast öll komin á eina hendi og fákeppni leiðir til þess að íslenskar „lágvöruverðsverslanir" bera síður en svo nafn með rentu. Fullkomin öfugmæli eins fram kemur í þeirri verðlagskönnun sem vitnað er til þessa daganna. Hvers vegna er verðlag í Bónus í Þórhöfn í Færeyjum mun lægra en í Bónus í Hafnarfirði? Eru markaðsaðstæður á þessari litlu, torsóttu og fámennu eyju Færeyjum þess eðlis að slíkt sé mögulegt?

Það þýðir ekkert að bjóða manni upp á endalausar langlokur um hið hryllilega landbúnaðarkerfi sem allt skemmir? Alþýðuhetjur sem og aðrir í sétt kaupmanna og heildsala í þessu landi( sem reyndar oft er sami mannskapurinn) þurfa að kunna sér hóf í verðlagningu í stað þess að efna til endalausra málfundaæfinga um að hátt vöruverð sé með öllu öðrum að kenna en þeim sjálfum. Ísland hefur ekki einkaleyfi á tollum og reglugerðum, þær eru alstaðar eins og blessaður búfénaðurinn og allt það regluverk sem honum fylgir.

Er tími pöntunarfélaganna að renna upp – aftur? Veit það ekki – velti því hins vegar fyrir mér hve langt og lengi þessi okurstefna hefur gengið. Kalt eða skítkalt – sennilega allir orðnir dofnir af langvarandi kulda og trekk, þekkja ekki lengur yl og hvað þá hita.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli