miðvikudagur, 5. janúar 2005

Af klámhundi

Munaði mjóu skal ég segja ykkur, hélt að ég yrði rekinn. Vann einn vetur við dagskrágerð á gömlu Gufunni, sennilega árið 1979, hélt úti unglingaþætti einu sinni í viku.

Ekki fór nú mikið fyrir kynferðisfræðslu á þessum árum og því tilvalið að taka þau mál til umfjöllunar, enda staða mála þannig að náttúrfræðikennarar höfðu eina síðu í kennslubókinni, sér til halds og trausts í þessum efnum, um „æxlun manna", síðu sem margir hlupu yfir.
Mér fannst því tilvalið að fá að nýta fræðsluefni um kynferðismál sem unglingar í Fellahelli voru að nota í klúbbastarfinu í félagsmiðstöðinni.

Hófst nú lesturinn og ekki voru menn að láta latnesk heiti ýmissa líkamsparta trufla lesturinn. Orðin tippi og píka flugu um öldur ljósvakans þetta mánudagskvöld sem mæltist vægast sagt afar illa fyrir hjá þeim áheyrendum sem eldri voru , sem voru fjölmargir og hringdu í umvörpum í síma ríkisútvarpsins og kvörtuð sáran yfir þessum klámkjafti.

Blés nú ekki byrlega hjá okkar manni þar sem að hið hæstvirta útvarpsráð tók málið til umfjöllunar og ákvað samhljóða í snarhasti að sérmenntaður maður og þá ekkert minna en verulega langskólagengin doktor í læknavísindum yrði fengin til verksins í þeim tilgangi að klára seinni hluta umfjöllunarinnar, enda fyrirliggjandi loforð frá klámkjaftinum að halda áfram í næsta þætti þessari pornografisku umfjöllun, eins og einn eldri hlustenda orðaði svo snyrtilega

Doktorinn hóf lestur einn mikinn sem engin skyldi en að sögn lærðra manna í engu betri en í fyrri þættinum og gríðarlegt porno í öllu máli hans. Hins vegar skyldi ekki nokkur maður, eins og áður sagði, upp né niður í þessu „latínutali" og það sem merkilegast var að eldra fólkið var ánægt en blessuðum unglingunum fannst þetta bara leiðinlegt og sendu okkur bréf um hvers vegna við héldum ekki áfram fræðslunni frá fyrri þætti og hvers vegna við létum „ Karlinn" vera að lesa alla þessa útlensku?

Nú er öldin önnur, ungt fólk og krakkar kunna sennilega jafn mikla anatomíu og blessaður doktorinn okkar forðum, Mörgum leiðist þetta hreinlega, innri og ytri þetta og hitt...

Sem leiðir hugann að því að kannski er þessi fræðsla okkar á villigötum. Lífærrafræði neðan nafla er öllum löngu kunn. Eru ekki einhver önnur atriði sem þarf að fjalla um , þarf ekki nýja nálgun?

Hiklaust segi ég. Siðferði kynlífs og þau gildi sem ráða í nánum mannlegum samskiptum. Finnst stundum eins og ungt fólk sé ráðvillt og viti ekki sitt hlutverk. Fari jafnvel út í hluti sem þeim líkar ekki af því að þau halda að þetta eigi að vera svona, það séu bara þau sjálf sem eitthvað er að. Þetta skapar mikla vanlíðan hjá mörgu ungu fólk og ekki síst óöryggi þeirra um sitt kynhlutverk og sínar tilfinningar. Þetta segir manni að fræðslan er ekki nægileg og ekki miðuð við þær þarfir sem fræðslan þarf að uppfylla í samfélagi nútímans.

Það þarf því að bretta upp ermarnar í þessum efnum - megum ekki lenda í því að „sleppa þessari blaðsíðu" úr fræðslunni eins og átti sér stað með „æxlun mannsins" í gamla daga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli