sunnudagur, 17. apríl 2011

Í upphafi skyldi endinn skoða

Samfélag dagsins í dag og sífellt flóknari samfélagsgerð kallar á sérhæfingu og ekki síst hvað varðar uppeldismál. Frístundaheimili eru einn angi hinna nýju viðfangsefna samtímans hérlendis. Að vísu tiltölulega seint fram komin hér á landi miðað við Norðurlöndin til dæmis. Á þeim vettvangi lýtur starfsemin sérstöku fagumhverfi (fritidspedagogik) og hefur um margra áratuga skeið þróast sem starfsemi er lýtur allt öðrum forsendum en hefðbundið skólastarf.
Á Íslandi kallaðist þessi starfsemi, víða til að byrja með, „lengd viðvera“ sem sagði allt sem segja þarf um faglega stöðu starfseminnar og innihald a.m.k. í upphafi. Sá sem þetta ritar vann að úttekt á stöðu þessara starfsemi í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum sem þáverandi yfirmaður æskulýðs- og tómstundarmála hjá bæjarfélaginu. Þar kom m.a. fram að starfsemin sem þar var nefnd „heilsdagsskóli“ var fyrst og fremst samheiti en ekki hugtak eins og t.d . félagsmiðstöð eða skóli.

Starfsemin var eins ólík og staðirnir voru margir og mótuðust fyrst og fremst af viðkomandi starfmönnum sem ekki voru gerðar neinar sérstakar kröfur til hvað varðar menntun eða reynslu á þessum vettvangi. Þetta var sá raunveruleiki sem blasti við ekki bara í Hafnarfirði heldur víða um land. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa nú ákveðið, eftir tilraunatímabil, að færa starfsemi „heilsdagsskóla“ að öllu leyti undir ÍTH (Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar) sem er gæfuspor alveg eins og það var afar skynsamlegt á sínum tíma hjá borgaryfirvöldum að færa frístundaheimilin undir ÍTR (Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur). Starfsemi sem var í kjölfarið tekin til gagngerrar endurskoðunar frá A- Ö. Innra starf, starfsaðferðir, fagmennska, starfsskrá, endurmenntun og menntun starfsfólks o.fl. Með öðrum orðum starfsemin öðlaðist innhald og sundurlausu samheiti var breytt í hugtakið frístundaheimili. Starfsemi frístundaheimilanna var faglega samræmd og rekin í sama anda hvar sem var í borginni, út frá bestu manna þekkingu hverju sinn og af fagmennsku sem einkennir allt starf ÍTR. Árangurinn hefur verið góður enda foreldrasamfélagið afar sátt ef marka má þær kannanir sem gerðar hafa verið um slíkt og sama á við um starfsfólk frístundaheimilanna en sömu kannanir sýna mikla starfsánægju þess. Sem sagt vaxandi starfsemi sem byggir á fagmennsku og hefur allar forsendur til þess að verða enn betri fá hún frið til þess.

Í þessu ljósi eru þær breytingar illskiljanlegar sem borgaryfirvöld áforma um að færa forræði starfseminnar að einhverju leyti aftur yfir til skólanna og jafnvel með því fororði að skólastjórar séu yfirmenn alls þess starfs sem fram fer innan skólanna? Fyrir slíkt fá viðkomandi allnokkrar aukagreiðslu sbr. kjarasamninga, þó svo að viðkomandi komi ekkert að starfinu að öðru leyti. Og svo hitt að kennarar komi í auknum mæli inn í starfið? sbr. skýrslu starfshópsins. Við Menntavísindasvið HÍ fer fram afbragðsgóð kennaramenntun eins og skólar landsins hafa ekki farið varhluta af. Þar fer reyndar einnig fram afar fjölþætt menntun á sviði uppeldismála m.a. í heildstæðu BA og M.Ed námi í Tómstunda- og félagsmálafræði og úr þeim ranni kemur fagfólk og sérfræðingar á sviði frístundaheimilanna. Sérþekking kennara er ekki á þessu sviði enda tómstunda- og félagsmálafræði ekki hluti af kennaranámi. Tómstunda- og félagsmálafræðingar eru ekki mikið í stærðfræðikennslunni enda lítið lært formlega til þeirra verka og margir sem hefðu efasemdir um ágæti slíks fyrirkomulags. Sama á auðvitað við um kennara sem starfa á öðrum vettvangi en sínum.

Það liggur ekkert annað fyrir en að starfsemi frístundaheimila á vegum ÍTR sé afar vel viðunandi og í því ljósi er erfitt að átta sig á hvað tilgang breytingar af þeim toga sem fram koma í skýrslu starfshóps á vegum borgarinnar þjóna. Það liggur fyrir hvernig starfseminni var háttað áður en ÍTR var falin umsjá hennar. Grundvallarspurningin er því sú hvort einhverjar þær gagngeru breytingar hafi átt sér stað í skólakerfinu síðustu ár sem gera það að verkum og réttlæti breytingar af þeim toga sem tíundaðar eru í skýrslu starfshópsins. Ég get ekki séð það og finn því hvergi stað í skýrslunni. Í hana vantar allar forsendur, faglegt mat á starfseminni og ekki síst hverju væntanlegar breytingar eiga að skila umfram það sem nú er? Ég skora á borgaryfirvöld að draga þessar hugmyndir til baka en vinda sér þess í stað að styðja við og byggja upp þessa afar mikilvægu starfsemi í fullri sátt við fagumhverfið og útfrá þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Árni Guðmundsson M.Ed . sérfræðingur í æskulýðsmálum – starfsmaður á Tómstunda- og félagsmálafræðabraut MVS

1 ummæli:

  1. Kristín Dýrfjörð18 apríl, 2011 10:33

    Að mestu sammála en í sögulegu samhengi gleymir þú skóladagheimilunum sem áttu einmitt sögu og starfsaðferðir sem var hent til hliðar þegar "heilsdagsskólinn" var búinn til. Skóladagheimilin voru rekin af metnaði og fagmennski flest hver undir handleiðslu leikskólakennar sem sérhæfðu sig í þeim vinnubrögðum. Ég er pínu hrædd við sporin.Þau voru vissulega aðallega fyrir tiltekin þjóðfélagshóp en vinnubrögðin og hugmyndafræðin stóð sjálfstæð. Það var vont hversu lítið var hirt um að halda í þá þekkingu þegar þau liðu undir lok.

    SvaraEyða