föstudagur, 11. júlí 2003

Fæðingarorlofsmál

Fæðingarorlofsmál
Átti fund með nokkrum félagsmönnum í morgun. Þar var farið yfir greinargerð bæjarlögmanns og starfsmannastjóra um hið s.k fæðingarorlofsmál. Ekki er annað í spilunum á þessu stigi en að stefna Hafnafjarðarbæ til greiðslu fæðingarorlofs á tilteknum mismun milli lágra dagvinnulauna og fastrar eftirvinnu. Með tilkomu hins nýja fæðingarorlofssjóðs eru vandamál af þessum toga úr sögunni enda greitt af heildarlaunum. Hæstiréttur dæmdi ríkið til að greiða af fastri yfirvinnu. Hví skyldi það ekki eiga við í Hafnarfirði, bærinn er jú hluti af hinu íslenska lýðveldi

Ræddi við bæjarstjóra
Átti samtal við bæjarstjóra í morgun. Við ræðum reyndar oft saman og viðræður okkar eru yfirleitt bæði gagnlegar og hreinskiptar. Ekki þurfa menn endilega að vera sammála en orð eins og gagnkvæmur skilningur á sennilega vel við í þessum efnum. Á umliðnum vikum höfum við auðvitað rætt um mál málanna skipulagsbreytingarnar og ýmislegt þeim tengt. Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir þá hefur undirritaður haft uppi nokkurn pirring varðandi upplýsingaflæði milli aðila í þessu máli. Hins vegar væri það alrangt af mér að halda því fram að félaginu væru ekki ljós helstu efnisatriði málsins. Hins vegar er afar nauðsynlegt að félaginu berist öll gögn í máli eins og þessu, bæði fljótt og vel. Félagið þarf að bregðast við ótal fyrirspurnum félagsmanna , kanna ýmis réttindamál o.fl. Sem sagt hafa sem nákvæmastar upplýsingar hverju sinni. Það er öllum aðilum til hagsbóta, bæjaryfirvöldum, starfsmannafélaginu og starfsmönnum. Ég hef hins vegar engar áhyggjur af því að þessi mál valdi vandkvæðum á næstu misserum.

Áhyggjur
Það veldur mér hins vegar nokkrum áhyggjum að flökkusögur af ýmsum toga lifa sjálfstæðu lífi í kerfinu og valda bæði usla og óþægindum. Einfaldasta ráðið í þeim efnum er að óska staðfestingar t.d. starfsmannastjóra á slíku. Orka og einbeiting þarf að vera 100 % á raunverulegum atburðum en ekki á einhverjum sögum sem eiga allt sitt undir kvendi eins og Gróu á Leiti. Slíkt er einfaldlega ekki hægt að elta uppi og þjónar ekki neinum tilgangi frekar en hver annar vindmylluslagur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli