mánudagur, 28. júlí 2003

Bojkott

Bojkott
Var svo heppinn að fá tækifæri til að læra í Svíþjóð á sínum tíma. Lærði mikið af Svíum. Mér varð t.d. á að kaupa mér Coca cola er við samstúdentarnir fórum út að snæða hádegisverð saman á mínum fyrstu skóladögum. Fann fyrir fálæti en áttaði mig ekki á því hvað olli fyrr en einn félagi minn benti mér kurteisislega á að maður keypti ekki vörur frá þessu fyrirtæki þar sem að það væri bendlað við hvarf á verkalýðsleiðtoga í einum af verksmiðjum fyrirtækisins í suður Ameríku. Neysla á kók fór niður í 5% af venjulegri sölu í Svíþjóð, fólk sýndi hug sinn í verki. Á tímum aðskilnaðarstefnu í suður Afríku þótti ekki tilhlýðilegt að kaupa vörur þaðan og svona mætti lengi telja.

Við sem viðskiptavinir og neytendur eigum ekki að versla við fyrirtæki sem misbjóða okkur með viðskiptasiðferði á lægsta plani, eða á annan hátt . Þetta kann hins vegar að vera erfitt í samfélagi kerfisbundinnar einokunar eins og við sjáum dæmi hérlendis um þessar mundir.

Einhver hafði uppi þau skynsamlegu ráð að versla aðeins það nauðsynlegast t.d. með því að kaupa enga smávöru hjá olíufélögunum, eingöngu bensín og ekkert aukalega og snúa viðskiptum sínum til annarra fyrirtækja svo skjótt sem auðið verður. Að SNIÐGANGA er okkar sterkasta vopn - notum það þegar okkur þurfa þykir - látum ekki valta yfir okkur endalaust.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli