laugardagur, 27. september 2008

Dagskinnunni hefur borist bréf ...

... frá einum virtasta knattspyrnudómara landsins og stuðningsmanni Leifturs í Ólafsfirði

Sæll
Velkominn í klúbb áhanganda neðrideilda enskrar knattspyrnu.
Eins og alþjóð veit hef ég haldið með Schunthorp United í 20 ár eða u.þ.b. og aldrei látið deigan síga í þeim efnum. Þetta eru efnilegir klúbbar sem verða kannski aldrei "stórir" en hvað um það, ekkert verri en þessir stóru enda kemur stór hluti leikmanna stóru klúbbana frá þessum uppeldisstöðvum fótboltans.
Læt hér fylgja með slóðina á heimasíðu Schunthorp http://www.scunthorpe-united.premiumtv.co.uk/page/Home
Bestu kveður, go

Guðbjörn Arngrímsson
Sorry að við skildum vinna svona stórt þann 6. sept.

Ágæti vinur
Mínir menn Brighton & Hove Albion oftast kallaðir Mávarnir tóku Man City í nefið í bikarnum unnu 5- 2 eftir vítaspyrnukeppni. Þess vegna fyrirgefur maður mönnum tapið á móti Schunthorp og ekki síst 1- 0 tapið á móti Walshall um daginn þar sem mínir menn voru tveimur mönnum fleiri nánast allan leikinn!

Mávarnir spila að mínu mati sannfærandi kick and run bolta eins og hann gerist bestur og þegar að best lætur í tæklingunum þá má setja niður jarðepli í förin án mikillar fyrirhafnar. Sem sagt afar áferðarfalleg knattspyrna þar sem ekki er sjálfgefið að betra liðið vinni eins og dæmin sanna. Megi Schunthorp ganga vel en þó með þeim fyrirvara að þeir skyggi ekki á Mávana. Bestu kveðjur norður yfir heiðar.

mánudagur, 22. september 2008

Brighton & Hove Albion

Nú hafa veður skipast með þeim hætti að ég hef gerst áhangandi hins léttleikandi enska knattspyrnuliðs Brighton & Hove Albion. Er reyndar Everton maður en viðurkenni fúslega að ég er nokkuð súr út í þá þar sem vinur minn, einn efnilegast leikmaður landsins um þessar mundir, Bjarni Þór Viðarsson fékk takmarkaða möguleika á því að spila með klúbbnum þann tíma sem var þar á mála?. Hitt er svo annað mál að Mávarnir eins og BHA er gjarnan nefnt á tungu þarlendra er í fyrstu deildinni og nokkuð vandfarin vegferð í úrvalsdeildina – ég mun því ekki lenda í neinni teljandi krísu vegan innbyrðis leikja þessara tveggja turna í enskri knattspyrnu –a.m.k. ekki fyrst um sinn –segi því bara den tid den sorg - Sett tilvísun á heimasíðu Mávanna hér til vinstri.

föstudagur, 5. september 2008

Hluti af leiknum auglýsir ...

... brennivínsbransinn og árangurinn lætur ekki á sér standa. Við fáum fótboltaleiki sem ekki eru við hæfi, hvorki barna né fullorðinna, leikmanna eða íþróttahreyfingarinnar. Sjá: Til vandræða horfði vegna ölvunar á knattspyrnuleik.

„Bestur með boltanum“ hvílíkur hroki og öfugmæli – Sýnum hug okkar í verki sniðgöngum auglýstar áfengistegundir.

miðvikudagur, 3. september 2008

"Pólitísk eftirlaun"

Skrifaði eftirfarandi pistill 12. október 2007 þegar að fyrsti meirihlutinn í Reykjavík féll. Hafði ekki ímyndunarafl til þessa að sjá fyrir allt það sem á eftir kom. Sé þó að hugsanlega var ég sannspár varðandi fv borgarstjóra þó svo að hann fari ekki alla leið til Brussel. Hann þarf sennilega ekki að leita lengra en á Háaleitisbrautina til þess að komast á "pólitísk eftirlaun" – er sennilega betra en að kúldrast fjarri sínu fólki í Evrópska kansellíinu suður í Belgíu.

"Og síðan fer...

...fyrrverandi borgarstjóri á „pólitísk eftirlaun” sem munu felast í þægilegu starfi í Brussel eða á sambærilegum vettvangi. Munu sennilega ekki líða nema 8 - 12 mánuður þar til „eftirlaunin” verða frágengin og okkar maður mun auðvitað þykja happafengur í hverju því samhengi sem um verður að ræða – Er ekki tilveran einföld eftir allt saman."

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Einstaklega óviðeigandi

Það var með eindæmum að eftir skemmtilega Kastljósútsendingu frá Bessastöðum í gærkvöldi þar sem okkar bestu synir og fyrirmyndir æsku þessa lands voru heiðraðir, þá hafi RÚV fundist það viðeigandi að birta langa og ákaflega asnalega áfengisauglýsingu í kjölfarið?

Er reyndar ekki í fyrsta sinn sem RUV fer langt yfir strikið og verður sér til skammar í þessum efnum. Marga rekur minni til þess þegar að forseti Íslands veitti í Íslensku forvarnarverðlaunin fyrir nokkrum árum þá var birt enn ein áfengisauglýsingin og viðhöfninni ,forsetanum og fólkinu í landinu með því sýndur fádæma dónaskapur.

Ég er þeirra skoðunar að RÚV eigi alfarið að fara út af auglýsingamarkaðnum. Ekki vegna viðskipta- og samkeppnissjónarmiða eins og flestir samsinnungar mínir í þessum efnum nefna sem helstu rök. Málið er það að þessu flaggskipi íslenskrar menningar RÚV er ekki treystandi til þess að höndla með þessi mál samkvæmt lögum, almennu siðferði og eða með þeim hætti sem þessari stofnun er samboðið. Meðan að svo er og ef ekki verður alger stefnubreyting þá á RÚV ekkert erindi á auglýsingamarkaðinn.

Hvet alla þá sem þetta lesa til þess að sýna hug sinn í verki og sniðganga auglýstar áfengistegundir.

miðvikudagur, 20. ágúst 2008

Starfsmaður í þjálfun ...

... er sennilega sá texti sem þarf að grafa í borgarstjórakeðjuna sem ótt og títt skiptir um axlir og svo ekki sé minnst á merkingu á skrifstofu en þar gætið staðið: Borgarstjóri + nafn viðkomandi og þar undir starfsmaður í þjálfun.

Starfsmannavelta í æðsta embætti ráðhússins er að verða eins og hjá MacDonalds. Uppgrip fyrir hinn ágæta myndhöggvara Helga Gíslason sem mun hafa verkefni mörg ár fram í tímann við gerð brjóstmynda af fyrverandi borgarstjórum og svo eru auðvitað ærin verkefni fyrir skiltagerðarfólk og alla þá er framleiða kynningarefni fyrir Reykjavíkurborg því auðvitað breytist allt nefndarkerfið. Vertíð í nafnspjöldum? - er ekki hægt að líma yfir þau gömlu? ... eða bara setja sama titil á þau öll "Borgarfulltrúi í þjálfun"

fimmtudagur, 14. ágúst 2008

Ó borg mín borg ...

Hið frábæra lag Hauks Morteins verður að sjálfsögðu á efnisskránni hjá Rokkbandinu Plús sem kemur fram á Dönskum dögum í Stykkishólmi um helgina. Lagið útsett í hörku blús sem endurspeglar ástandið um þessar mundir í fjölmennasta úthverfi Hafnarfjarðar sem oftast er nefnt Reykjavíkurborg , en tveir þriðju hljómsveitarmeðlima eru búsettir í þessari ólgusömu byggð.

Það kemur „Dagur“ eftir þetta kjörtímabil en sá ágæti drengur sýnir þá miklu pólitísku kænsku að ónáða ekki andstæðingana þegar þeir eru á fullu í klúðrinu. Kjörþokki margra borgarfulltrúanna er rokin út í veður og vind í þessum atgangi öllum. Harmleikur sem minnir mann mest á annað gott lag „Þrjú hjól undir bílnum og ennþá skröltir hann þó“ Sennilega ekki vitlaust að setja það í prógrammið hjá hinu annars alls ópólitíska gleðibands, rokkhljómsveitarinnar Plús – hver veit?

laugardagur, 2. ágúst 2008

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum

Fréttatilkynning

Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum opnuðu heimasíðu þann 1. ágúst, slóðin er www.foreldrasamtok.is . Síðan er unnin í hugbúnaðarkerfinu Vefni 1.0 sem Fannar Freyr Gunnarson vefhönnuður á heiðurinn af. Síðan mun á næstum vikum og mánuðum aukast að efni og umfangi. Á síðunni gefur að lít margskonar fróðleik s.s greinar, fréttir, dóma og fleira tengt þessu brýna málefni.

Á heimasíðunni er einnig aðgengilegt kæruform þar sem hægt er að senda inn rafrænt, á mjög einfaldan hátt, kærur vegna brota á banni viðáfengisauglýsingum . Foreldrasamtökin hvetja fólk eindregið til þess að notfæra sér þennan möguleika og tilkynna með þessum einfalda hætti um öll brot sem viðkomandi verður vitni að. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sem þau eiga lögum samkvæmt rétt á að vera laus við. Á meðan að lögin eru ekki virt þá hvetja foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum alla þá fjölmörgu sem bera hag barna og unglinga fyrir brjósti sér að liggja ekki á liði sínu.

mánudagur, 14. júlí 2008

Það segir fátt af einum - Hvar er Hannes ?

Það segir fátt af einum, þessa dagana, þegar að ríkustu fátæklingar í heimi fara að ókyrrast út af bágbornu efnahagsástandi. Hvar er Hannes? spyrja menn í síversnandi kreppunni og velta fyrir sér hver sé hin fræðilega útskýring Hólmsteins Gissurarsonar á þessum vandræðagangi í spilverki nýfrjálshyggjunnar bæði hérlendis og erlendis.

Ekki er nú beint hægt að heimafæra vandræðaganginn upp á gamla Sovétið eða kommunistaliðið. Sumir segja að hugmyndakerfið sé fullkomin “stéttaskilvinda” en aðrir að nú sé þar komið í Matadorinu að allar bestu göturnar séu komnar á fárra manna hendur og nú sjái fyrir lok leiksins. Rót vandans liggi mest megnis í þessu?

Hvað veit maður – Hannes þegir og við hinir ríku fátæklingar vitum ekki af þeim sökum í hvorn fótinn við eigum að stíga í. Erum við eins og tilraunastofa frjálshyggjunnar í Chile eða erum við eins nýfrjálshyggjan í Nýja Sjálandi? Hvað segir Thatcher? Hannes þögnin er æpandi - hefur frjálshyggjan engin svör?

fimmtudagur, 10. júlí 2008

HK gerir mistök

Gunnar Guðmundsson fv þjálfari HK er drengur góður sem og afbragðs þjálfari. Held að það hafi verið mikil mistök hjá stjórn HK á láta hann taka pokann sinn. Félagið hefur búið við þröngan kost og fjárhagsströgl um langt skeið. Þjálfaraskipti kosta sitt og ef til eru aurar í það þá veltir maður fyrir sér hvort ekki hefði verið nær að nýta þá fjármuni í að styrkja liðið. Félaginu mun reynast erfitt að ráða þjálfara upp á þau býtti sem Gunnar bjó við og vann vel úr sbr. gengi liðsins síðustu ár.

Held því að stjórn HK hafi gert grundvallarmistök með uppsögn Gunnars. Var að mín mati óþarfi , verkefnið sem fyrir lá og liggur er fólgið í því að styrkja leikmannahópinn. En svo er nú fótboltinn - í hita leiksins er oft mikið um feil sendingar (og þessi sending stjórnar HK lenti langt upp í stúku!).

laugardagur, 5. júlí 2008

Öll brot kærð! - af krókódílatárum

Vissi ekki að Hagkaup hefði vínveitingaleyfi? Vínkynning og smökkun í Hagkaupum?Verslunarstjóri Hagkaupa fer á kostum í viðtali í Fréttablaðinu í dag, kvartandi yfir því að í hvert sinn sem talað er um að selja brennivín í búðum þá fari "lobbýistavélarnar" í gang. Verslunarstjórinn á þá sennilega við fólkið í landinu, sem nota bene er á móti áfengisauglýsingum og að áfengi sé selt í matvörubúðum.

Sorgleg og hrokafull ummæli í ljósi þess að sá bransi sem hann tilheyrir og þjónar hefur ausið hundruðum milljóna í ólöglegar áfengisauglýsingar, keyptar umfjallanir og kjánaskap eins vínsmökkun í Hagkaupum o.fl í þeim dúr. Allt athæfi sem ganga þvert á vilja almennings en allt í þeim tilgangi að þjóna ítrustu viðskiptahagsmunum.

Hagkaup hefur hvorki vínveitinga - eða áfengissöluleyfi og því er óskhyggja verslunarstjórans um að fólk kaupi rauðvín með kjötbollunum á miðvikudögum fyrst og fremst draumsýn. Legg til að Hagkaup höndli réttu megin við lög í landinu, þrátt fyrir "lobbýistaliðið". Ég á ekki von á öðru en að Hagkaup fái á sig kæru vegna "kynningarinnar" - öll brot kærð stendur í mörgum verslunum - á það ekki líka við um áfengislagabrot?

laugardagur, 28. júní 2008

Stjórn RÚV - opið bréf

Stjórn RÚV ohf
Hr. formaður Ómar Benediktsson

Að kveldi hins 18. Júní s.l strax eftir 22 fréttirnar í ríkissjónvarpinu birtust, nánast venju samkvæmt áfengisauglýsingar. Hin fyrri var um Víking bjór. Orðfæri , orðabeygingar , málfræði og allt í auglýsingunni með þeim hætt að augljóst var að þar var um áfengisauglýsingu að ræða. Orðið léttöl sem birtist í lok auglýsingarinnar er hvorki í samræmi við texta eða myndmál auglýsingarinnar. Einnig vaknar óhjákvæmilega upp sú spurning hvort miðstöð málverndar í landinu, Ríkisútvarpið, telji við hæfi að birta auglýsingar sem innhalda eins illa unnin texta og hér um ræðir - "Hann léttöl /ið ... sem er bruggaður" ?

Hin auglýsingin var um Thule bjór og í þeirri auglýsingu var ekki gerð nein tilraun til þess að draga dul á hvað verið var að auglýsa.

Útvarpsþátturinn Poppland á Rás 2 hefur undanfarnar vikur verið undirlagður í áfengisauglýsingum eins og svo oft áður. Slík hefur síbyljan verið að það hefur á stundum vart mátt greina hvort dagskráin sé í boði og kostuð af áfengisframleiðandanum Tuborg (Ölgerðar Egils Skallgrímsonar) eða hvort um starfsemi að vegum RÚV sé að ræða.

Það eru foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum mikil vonbrigði að RÚV skuli með kerfisbundnum birtingum áfengisauglýsinga virða réttindi barna og unglinga í landinu að vettugi og brjóta á lögvörðum rétti þeirra til þess að vera laus við áfengisáróður sbr lög þar um. Samtökin skora hér með á stjórn RÚV ohf að stöðva allar þessar beinu og óbeinu áfengisauglýsingar sem allar eiga það sannmerkt að vera ólöglegar og langt fyrir neðan virðingu fyrirtækisins. Telji fyrirtækið minsta vafa hvað varðar "lögmæti" þessara áfengisauglýsinga þá ber því hlutverki sínu samkvæmt að láta börn og unglinga í landinu njóta þess vafa.

f.h Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum
Virðingarfyllst,
Árni Guðmundsson, formaður

Afrit:
Menntamálaráðherra
Lögreglustjórinn í Reykjavík
Stjórn RÚV ohf

föstudagur, 20. júní 2008

Björgvin G Sigurðsson ...

...viðskiptaráherra hefur að mínu mati staðið sig einna best ráðherra í núverandi ríkisstjórn. Það voru margir undrandi yfir því að skipta upp Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu í tvö ráðuneyti. Reyndist hins vegar hið besta mál og hefðbundnum málefnum viðskiptaráðuneytisins vel sinnt auk þess sem í fyrsta sinn höfum við ráðherra neytendamála en á þeim vettvangi finnst mér Björgvin hafa komið afar sterkur inn og markað ráðuneytinu nýja vídd. Störf ráðherrans gegn okurgjöldum bankakerfisins, og önnur skyld mál, sýna í verki hvert stefnir og því ber að fagna.

laugardagur, 14. júní 2008

Af sértækri greindarskerðingu?

Åbrå dómurinn sænski gekk út að það að skyni bornir menn auglýstu ekki nokkrar léttöls flöskur mánuðum saman, sem síðan var ekki lögð nokkur áhersla á að koma á markað að öðru leiti og voru nánast ófáanlegar. Merkingar á léttölinu voru í öllum megin atriðum algerlega eins og á bjórframleiðslu fyrirtækisins. Gjörðir fyrirtækisins og forstjórans sem ábyrgðarmanns voru því túlkaðar sem útúrsnúningar á lögum þar í landi um bann við áfengisauglýsingum og viðkomandi dæmdur samkvæmt því.

Hinn kosturinn í málinu var utan seilingar dómskerfisins sem hefði verið að meta forstjórann sænska nautheimskan og illa kunnandi enda kostnaður við auglýsingar á léttölinu illfánalega stjarnfræðilega langt yfir ágóða af sölu þess. Ekki man ég nákvæmar tölur en ljóst var að auglýsingakostnaður þessara örfáu flaska nam marghundraðföldu útsöluverði.

Hér á landi falla forstjórar umvörpum í sömu gryfju. Forstjórarnir "merkja" vörur sínar eins og gert var í Ráðstjórnarríkjunum hér í eina tíð og sennilega mun verr. Fyrirtæki sem að öllu jöfnu gera í vörumerkingum skýran greinarmun á sykrlausum gosdrykkjum og sykruðum setja áfengið í nákvæmlega eins umbúðir og léttölið. Með þeirri einu undantekningu að í efnisinnihaldi stendur 5,0% í stað 2,25% en með svo litlu letri að helst er að nýta stækkunargler til þess eins að sjá hvers eðlis varan er.

Hvað þetta varðar þá vona ég að dómskerfið taki á þessu og ekki síst í þágu þeirra sem þetta stunda. Þangað til verða viðkomandi taldir verulega vankunnandi, neytendafjandsamlegir eða jafnvel tregir til hugans . Dómskerfið er sem betur fer byrjað að taka á þessu eins og meðfylgjandi dómur fjallar um að hluta. Útúrsnúningar sem byggja á þeirri grunnforsendu að menn geri sér upp sértæka greindarskerðingu í þeim eina tilgangi að snúa út úr löggjöf um bann við áfengisauglýsingum er eitthvað sem ekki er boðlegt en dæmi um hve lágt menn eru til í leggjast í þágu ítrustu viðskiptahagsmuna.

Íslenskur "léttölsauglýsandi" fór svona út samskiptum sínum við dómskerfið íslenska:

“Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 5. janúar 2007. Kvaðst ákærði hafa verið ritstjóri tímaritsins Fótboltasumarið 2006 er það hafi verið gefið út. Væri ákærði þeirrar skoðunar að ekki væru um ólöglegar áfengisauglýsingar að ræða í tímaritinu. Um væri að ræða auglýsingar á léttöli sem selt væri í verslunum á Íslandi. Í auglýsingunum kæmi skýrt fram að um áfengislausan bjór væri að ræða. Að því er auglýsingar á XXXXXX varðaði bar ákærði að auglýsingarnar hefðu komið frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Markaðsstjóri Ölgerðarinnar, Valgarð Sörensen, hafi verið í sambandi við ákærða með auglýsingarnar. Ekki kvaðst ákærði vita hvaðan texti á auglýsingarnar væri kominn. Þá kvaðst ákærði ekki vita hver hefði séð um uppsetningu og hönnun á auglýsingunum. Greitt hafi verið fyrir auglýsingarnar af hálfu Ölgerðarinnar. Ekki kvaðst ákærði reiðubúinn að gefa upp hve mikið hafi verið greitt. Ekki kvaðst ákærði viss um hvort XXXXXX væri seldur sem óáfengur bjór í verslunum á Íslandi, þó svo hann héldi að svo væri. Að því er varðaði auglýsingar á YYYYY bjór bar ákærði að einstaklingur á vegum Vínkaupa ehf. hafi sent ákærða auglýsingu fyrir bjórinn. Auglýsingin hafi verið tilbúin eins og hún hafi birst í blaðinu. Fulltrúar blaðsins hafi verið í sambandi við Gunnlaug Pál Pálsson sölustjóra hjá Vínkaupum ehf. Sá texti er birst hafi, hafi komið frá Vínkaupum ehf. en verið bætt inn á auglýsinguna. Greitt hafi verið fyrir auglýsinguna, en ekki kvaðst ákærði reiðubúinn að upplýsa hve mikið greitt hafi verið fyrir hana. Ákærði kvaðst telja að unnt væri að fá óáfengan YYYYY bjór í verslunum á Íslandi, án þess þó að hann þyrði að fullyrða það. Tilgangur með þessum auglýsingum hafi verið að kynna viðkomandi vörur og knattspyrnuleiki. Sem ritstjóri og ábyrgðarmaður tímaritsins bæri ákærði ábyrgð á birtingu auglýsinganna. Hafi þær átt að skapa jákvæða kynningu á léttöli greindra vörumerkja. Þær hafi verið bornar undir ákærða til samþykkis fyrir birtingu.” Sjá nánar http://domstolar.is/domaleit/nanar/?ID=S200800463&Domur=2&type=1&Serial=1&Words=

Minnir mann óneitanlega á senu úr Kardimommubænum þegar að Jesper reynir að telja Bastían bæjarfógta trú um að brauðið sem hann rændi hafi sjálft farið í vasa hans!


sunnudagur, 8. júní 2008

Hið Íslenska vændi

Lýtur greinilega öðrum lögmálum en alls staðar annars staðar í heiminum ef marka má dóm Héraðsdóms Reykjavíkur nýverið yfir forsvarsmönnum tímaritsins Mannlífs.
Samkvæmt honum þá verður ekki annað talið en að starfsemi þessarar búllu sem oftast er nefnd Goldfinger sé i sann kristnum anda, eiginlega sunnudagsskólastarfsemi. Er því einni staður sinnar tegundar í heiminum.
Sennilegt er að blaðamanni hafi ekki tekist að leggja fram “þinglýstum þrælasamning” og dómurinn því ekki talið orð dansmeyjanna í skjóli blaðamanns sannfærandi.
Sorglegt því auðvitað er þessi íslenski bransi í engu öðruvísi en annars staðar. Fjallaði um þessi mál á dagskinnuni fyrir nokkrum misserum undir tiltlinum “Listdans og taugaáföll” sem hér fylgir með:

Listdans og taugaáföll
Var svo heppnin/óheppnin að á námsárum mínum (hinum fyrri) í Svíþjóð í upphafi níunda áratugarins, að fá tækifæri til þess að kynna mér ítarlega hið hollenska félagsmálakerfi og aðstæður þeirra sem minna mega sín í því þjóðfélagi. Þar í landi eru "listdansstaðir" víða. "Starfsfólkið" þar eru hvorki "háskólastúdínur" eða stúlkur sem vilja næla sér tímabundið í ríflegar aukatekjur.

Hollenski bransinn sem er ekkert öðruvísi en annars staðar og gengur á dópi. Sá sem er þræll fíkniefna á ekkert val og gerir hvað sem er fyrir næsta skammt. Í Hollandi fá um 95 % "listdönsurunum" taugáfall í "vinnunni" árlega. Ungar stúlkur á niðurleið er samnefndari yfir vegferð þessa fólks sem lendir í þessum ömurlegum aðstæðum. Frá "fylgdarþjónustu" í ræsið er því miður hinn bitri veruleiki.

Hér á landi eru þeir sem fyrir þessari starfsemi standa, að eigin sögn , lagðir einelti og sæta pólitískum ofsóknum? Málið er hins vegar að bransinn á Íslandi sker sig ekkert úr nema síður sé og hin "hörmulega" (í öllum skilningi þess orðs) "listdansstarfsemi" er ekki rekin á neinum öðrum forsendum en annarsstaðar, forsendum mannlegra auðmýkingar og niðurlægingar.

Það er undarlegt að hinir sönnu að gerendur í málinu kaupendur mannlegrar niðurlægingar(vændis)skuli ávallt sleppa. Skil ekki hvers vegna siðað samfélag eins og við viljum gjarnan að Ísland sé, hafi ekki tekist að koma lögum yfir þetta athæfi. Glæpamaðurinn sleppur en fórnalambið dæmt. Undarlegheit í meira lagi.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Góður stuðningur

Hin nýstofnuðu Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa fundið fyrir gríðarlegum meðbyr í samfélaginu en þau fengu á dögunum styrkveitingu frá IOGT að andvirði 400.000 króna. Að baki styrknum standa IOGT og samstarfssamtök en hann var veittur við hátíðlega athöfn 31. maí 2008. Gunnar Þorláksson, formaður greindi við athöfnina að 200.000 krónur væru frá IOGT og þá 200.000 krónur frá hinum bandalögum. María Jónsdóttir og Ösp Árnadóttir stjórnarmenn í Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum veittu styrknum viðtöku. IOGT á Íslandi eru bindindissamtök innan alþjóðasamtaka IOGT en sameiginlegt markmið IOGT-deilda er að stuðla að: hamingjuríkara, frjálsara og innihaldsríkara lífi. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum eru einungis mánaðargömul en styrknum verður varið í að setja upp öfluga heimasíðu. Hægt er að skrá sig í samtökin í netfangið addigum@simnet.is . Stjórn Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum, er þakklát fyrir stuðninginn og þá hvatningu sem samtökin fá frá IOGT.

þriðjudagur, 3. júní 2008

Flott 100 ára afmæli

Náði reyndar bara sunnudeginum sem var í alla staði flottur. Veðurguðirnir, sem oft eru flóknir og erfiðir samskiptum sínum við okkur sem staðið höfum í svona stórræðum, voru í sólskinsskapi þó svo að Kári hafi haft sig verulega í frammi seinni part sunnudagsins. Það er mikil vinna og mörg handtökin á bak við stóratburð af þessum toga og því ekki alltaf sjálfgefið að allt gangi upp. Skipuleggjendur og framkvæmdaaðilar stóðu sig með sóma. En hvað með það óska samsveitungum mínum í fegursta bæ landsins til hamingjum með 100 ára afmæli bæjarins.

miðvikudagur, 28. maí 2008

Af banka og meintri einsemd vestanhafs


Er sem sagt staddur á námskeiði í Kanada í Nýja Skotalandi eða Nova Scotia eins og þarlendir nefna svæði upp á frönsku þó svo að nokkuð víst sé að Skotar þeir sem hér námu land í eina tíð hafi ekki kunnað frönsku.

Er í hópi góðs fólks af mínu þjóðerni en eins oft þá er ekki úr vegi að rölta um svæðið að lokinni dagskrá dagsins. Oft er það nú svo að blessuð heimþráin gerir vart við sig þó svo maður sé umvafin löndum sínum.

Og viti menn þegar mæða einsog heimþrá sækir á landann þá er bankinn, eins furðulega og það lætur ,sem oftast er ekki vinur manns, aldrei langt undan og sem við lölluðum um miðbæ Halifax þá birtist eins og vin í auðninni Landsbankaútibú að vísu lítið, svona eins og blessaður Pylsuvagninn í Tryggvagötu, stór í sinni þrátt fyrir fáa fermetra. Þægileg tilfinning í þessari kollektívu einsemd og heimþrá að sjá bankann, slökkti nefnilega algerlega á heimþránni, fór nefnilega að hugsa um þjónustugjöldin og vaxtaokrið. Falleg borg Halifax.

mánudagur, 26. maí 2008

Unglingar eru líka fólk

Mikil hiti hefur verið í umræðunni um brettapalla við Víðistaðatún hér í Hafnarfirði . Því miður hafa mál þróast að neikvæða lund og margt sem þar kemur til. Þannig háttar til að hafnfirskir unglingar hafa búið við algert aðstöðuleysi til margra ára. Hafnfirskir brettaunglingar hafa því árum saman þurft að sækja í önnur bæjarfélög til að stunda sitt áhugamál. Þegar að málið kemst loks á dagskrá og unga fólkinu er tilkynnt af hálfu bæjaryfirvalda að nú eigi loksins að gera gangskör í brettamálum og byggja eigi upp veglega aðstöðu þá varð almenn ánægja meðal unglinganna sem sáu loks gamlan draum rætast.

Skömmu eftir þetta birtist umfjöllum í Fjaraðpóstinum (FP) um mótmæli íbúa við Víðistaðtún og frá sjónhorni unglingaanna voru það feikileg vonbrigði og sem túlkuð voru á þann veg að nú ætluð einhverjir íbúar að eyðileggja þetta mál. Margir unglinganna urðu mjög reiðir og einhverjir fóru því miður langt yfir strikið í þeim efnum.

Hitt er svo annað mál sem er ekki gott að í umfjöllum um þetta mál á opinberum vettvangi ber því miður í ýmsum tilfellum á miklum fordómum gangvart ungu fólki. Þegar að umfjöllun er orðin í þessum dúr: “...Flóðlýsing og músík! Stór Reykjavíkursvæðið + erlendir gestir! Það verður nóg að gera við að hringja í lögregluna...” (FP. 15.maí 2008) þá er mál að linni. Brettafólk þarf ekki neina sérstaka gjörgæsluvöktun frekar en aðrir hópar fólks. Brettafólk eru ekki óargardýr fremur en aðrir unglingar. Stundum er eins og við sem eldri erum höfum gleymt okkar eigin æsku. Viðbrögð af þessu toga leysa ekkert en eykur frekar vandann ef eitthvað er. Unglingar eins og annað fólk á rétt á fordómalausri umfjöllun

Ekki þekki ég hina stjórnsýslulegu leið málsins og hvort einhverjir hnökrar voru í því ferli en hvað það varðar þá er ekki við unglingana að sakast ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í þeim efnum. Víðistaðatúnið er góður kostur undir garð af þessum toga spurning er því sú hvort ekki sé hægt að færa garðinn innan þess ramma t.d. í nágrenni við skátaheimilið, ef það mætti vera til þess að leysa málið. Sorglegast af öllu er ef málið fer aftur á byrjunarreit. Það eiga a hafnfirskir unglingar ekki skilið og í raun meinlegt að okkar ágæta bæjarfélaga hafi ekkert að bjóða unglingunum annað en að fara með brettin sín í annað bæjarfélag?