miðvikudagur, 28. janúar 2009

Hefur einhver verið í ...

...brúðkaupi þar sem skyndilega, í miðri veislunni, einhver gestanna rýkur upp á sviði, tekur hljóðnemann og æpir yfir samkvæmið “ ég elska þig Gunna” og í sama mund í hinum enda salarins brestur kona í grát og segir “ ég elska þig líka Þorlákur”. Þetta verður til þess að Þorlákur hleypur ( hægt og svífandi !) þvert yfir salinn beint í útbreiddan faðm Gunnu ... og þau kyssast innilega ... og viti menn brúðhjónin, presturinn, ættingjar, og aðrir gestir mynda hálfhring um parið, fella tár, klappa og gleðjast innilega yfir örlögum Þorláks og Gunnu sem nú hafa greinilega loks náð saman. Hljómsveitin leikur gleðisöng Þorláki og Gunnu til heiðurs ...!

Aulahrollur hríslast um mann og hugsun um hve ótrúlegt rugl er borið á borð fyrir ungt fólk í formi margra amerískra bíómynda, sem leiðir hugan að því hve nauðsynlegt er að hlú að okkar eigin menningu. Ef ekkert verður að gert í þeim efnum þá munum við sennilega fyrr en varir fá töluvert af “æpandi pörum” í brúðkaupum annara. Amerísk "hágæða" væmni? Ekki beinlínis sú menning sem íslendingar vilja kenna sig við eða hvað?

Menningarverðmæti er það bara frasi í hátíðarræðum stjórnmálamanna?

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Það er um að gera ...

...að eyða dýrmætum tíma þingisins til þessa að vinna að því hörðum höndum að koma brennivíni í matvörubúðir. Skil ekkert í skrílnum að láta svona fyrir utan Alþingishúsið, þingið verður að fá frið og ráðrúm til þess að koma helsta stefnumáli stuttbuxnadeildar íhaldsins í framkvæmd.

Það er ekkert betra fyrir “unga” þingmenn en það að geta keypt sér í matvörubúðinni eina tvær rauðvínsflöskur á degi eins og þessum til þess að dreypa á með þriðjudags kjötbollunum og ekki er nú verra að fá sér örlítið koníak með kaffinu á eftir.

Það er í mörgu að mæðast hjá formanni menntamálanefndar og formanni heilbrigðisnefndar Alþingis sem bæði hafa þá djúpu pólitísku sannfæringum að þetta, að koma auglýstu áfengi í matvörubúðir, séu hin brýnu málefni íslensks samfélags í dag.

Í hverslags félagskap er Samfylkingin eiginlega í ?- Eigum við ekki að fara að kjósa?

föstudagur, 16. janúar 2009

“Við” skuldum 3.225.000 kílómetra af þúsundköllum

Ég er sem sagt búin að vera velta fyrir mér skuldum íslenska ríkisins. 2.150 milljarðar (2.150.000.000.000) segir fjármálaráðherra? Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessa tölu og get ekki komið henni í almennilegt samhengi. Bregð því hér á það ráð að koma þessu í sjónrænt samhengi sem oft er kostur þegar að abstrakt stærðir eins og peningar og hagfræði eru til umfjöllunar. Ég hef lengst af verði opinberstarfsmaður og því fórnarlamb hinnar íslensku láglaunastefnu. Ég skil þúsundkalla og jafn vel nokkra í hóp en ekki marga, veskið er ekki stórt og launin sjaldnast neitt til að hrópa húrra yfir.

Mér reiknast til að ef við leggjum þúsundkall við þúsundkall þá nemi skuldirnar vegalengdinni 3.255.000 kílómetrum. Þjóðvegur 1 er ca 1.400 kílómetrar en hann má leggja einfaldri röð þúsund kalla u.þ.b. 2.325 sinnum eða rúmlega 81 skipti í kring um jörðina, eða tæplega 10 sinnum til tunglsins. Að keyra meðfram þúsundköllunum miðað við góð skilyrði t.d. á 80 km hraða tekur ca 2 ár og fjóra mánuði ef keyrt er allan sólarhringinn. Miðað við vinnutímatilskipun EB þá má reikna með rúmlega 10 ára törn ( rúmlega fjórðung starfsævinnar) í verkið.

Ef við fletjum þúsundkallana út þá er flæmið 2.257.500 ferkílómetrar eða rúmlega 22 falt flatarmál landsins eða 2/3 hluta Indlands. Ef við deilum höfðatölu í “flatamál skulda” lagðir í þúsund köllum þá hefur hver Íslendingur ca 7.500 fermetra út af fyrir sig sem hlýtur að vera heimsmet.

Sé það á þessu að skuldirnar eru efnahaglegt stórvirki á hryðjuverkasviðinu a.m.k. gangvart íslenskum almenningi , örugglega heimsmet og “einstakt afrek” og í raun “einhverskonar snilld” sem felst í því hvering fáum einstaklingum hefur tekist að klúðra jafnmiklu og rækilega á jafn skömmum tíma og sem bitar á jafnmörgum og nú er raunin ...og svo eru menn hissa á því að einhverju ungmenninu hitni í hamsi - Það eru ekki margir sem sitja uppi með 7.500 fermetra af þúsundköllum í skuld algerlega að ósekju – menn hafa fengið að kjaftinn fyrir minna – ekki satt?

mánudagur, 12. janúar 2009

"Ég er ekki sekur...

...fyrr en það er búið að dæma mig" er túlkun margra íslenskra “ofur”athafnamanna á orðatiltækinu að menn séu saklausir uns sekt er sönnuð. Á þessu tvennu er grundvallarmunur. Því miður eru fjölmörg dæmi úr íslensku viðskiptalífi þessi misserin sem sýna “varnartilburði” af fyrrgreindum toga. Málið auðvitað öllu verra ef menn hafa trúað því og talið þetta vera einhvern anga sk. “viðskiptasiðferðis” (ef það er yfir höfuð til). Það er ekki með nokkru móti hægt að byggja upp siðað samfélag á þessum forsendum.

fimmtudagur, 8. janúar 2009

Það er mikil bjartsýni að halda...

...að draga muni úr mótmælum á næstunni. Því fer því miður sífellt fjölgandi fólkinu sem hefur mun meiri “frítíma” en það kærir sig um eða hefur á nokkurn hátt óskað eftir. Við slíkar aðstæður er sennilega fátt eins hressandi fyrir bæði líkama og sál en að mótmæla. Og ekki bætir úr skák þegar að sama liðið og ber ábyrgðina á ruglinu í íslensku samfélagi situr í einni eða annari mynd í sömu stólum. Einhverjir tindátar úr hersingunni farnir en í megin atriðum allt óbreytt. Skýrslur ekki birtar og fjöldi manns virðist helst vera í óðaönn við að “búa til” fortíð sem ekki var.

Meðan að svo er og ef engin tekur raunverulega ábyrgð þá munu mótmæli aukast enda kjöraðstæður fyrir slíkt. Það er einföldun að telja mótmæli þessa daganna léttvæg. Venjulegt fólk sem hefur unnið hörðum höndum í gegnum árin í hinu íslenska láglaunaumhverfi til þess eins að hafa í sig og á, er allt í einu orðið ofaukið í íslensku samfélagi og hefur ekkert aðhafst sem réttlætir slíkt. Því mun fylgja gríðarleg reiði og ef slík reiði brýst út þá leysast úr læðingi kraftar sem engin ræður við. Það er alvarlegt ef ráðmenn þjóðarinnar, hinir kjörnu fulltrúar almennings, skapa kjöraðstæður fyrir slíkt með ráðleysi, flumbrugangi og ógegnsæi í aðgerðum sínum varðandi rannsókn á hruni hins íslenska hagkerfis.