föstudagur, 10. júní 2011

Háskólaumhverfið, sérhagsmunasamtök og lýðræðisleg umræða

Það voru fullkomin mistök að leggja niður Þjóðhagsstofnun á sínum tíma. Það var pólitísk ákvörðun byggð á forsendum frjálshyggjunnar. Þjóðhagsstofnun hafði  "orðið það á" að spá ekki því eilífðar sólskini  sem var í hugum forsvarsmanna frjálshyggjunnar og þá sérstaklega þv. forsætisráðherra og helstu ráðgjöfum hans. Við tóku greiningardeildir bankanna og "sérfræðingar" þeirra sem sáu tækifæri í öllu og alltaf var sama sólskinið í efnahagslífinu en því miður algerlega óháð því hvert hið raunverulega ástand var. Tengsl fjármálalífsins og akademíunnar var að einhverju leyti með þeim hætti að stuðningur viðskiptalífsins var "háður" góðum fréttum sbr. ummæli  framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja:

"Eftir fyrirlesturinn fékk Gylfi símtal frá Guðjóni Rúnarssyni, framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, sem kvartaði undan fyrirlestrinum. Á fundi þeirra nokkrum dögum síðar, þar sem var líka Þórólfur Matthíasson prófessor, tjáði Guðjón þeim Gylfa og Þórólfi að Samtök fjármálafyrirtækja mundu ekki aftur styrkja fyrirlestra á vegum Hagfræðideildar HÍ. Fyrir rannsóknarnefnd
Alþingis sagði Guðjón að ástæða þessa hefði verið sú að hann hefði fengið villandi upplýsingar um efni fyrirlestrarins. Hann hefði komið úr allt annarri átt en þeir áttu von á." ( Rannsóknarnefnd Alþingis VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 225-226)

Sumt segir sig sjálft  í bókstaflegir merkingu. Ekki verður hjá því komist að velta fyrir sér hlutverki háskólasamfélagsins og þá hvort það hafi að einhverju leiti breyst eftir hrunið?

Kvótafrumvarpið hrákasmíð
„Sérfræðingur við Lagastofnun HÍ gerir alvarlegar athugasemdir við nánast öll ákvæði frumvarpsins og leggur til að það verði fellt eða taki verulegum breytingum í meðferð þingsins. Hið svokallaða minna kvótafrumvarp sjávarútvegsráðherra á sér fáa líka í flokki óvandaðra lagafrumvarpa á sviði íslenskrar fiskveiðistjórnunar."

Þetta segir Helgi Áss Grétarsson sérfræðingur við Lagastofnun Háskóla Íslands í umsögn sinni um frumvarpið sem lögð var fram í dag. Hann gerir alvarlegar athugasemdir við nánast öll ákvæði frumvarpsins og leggur til að frumvarpið í heild verði fellt eða þá að það taki verulegum breytingum í meðförum þingsins. Landssamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, kostar stöðu sérfræðings til rannsókna í auðlindarétti við Lagastofnun Háskóla Íslands.“ (RUV 6/6 2011)

Lagastofnun og LÍÚ semja um 22,5 milljón króna styrk
„Landssamband íslenskra útvegsmanna og Lagastofnun Háskóla Íslands hafa skrifað undir samning um kostun starfs sérfræðings til rannsókna í auðlindarétti við Lagastofnun. Samningurinn tekur gildi þann 1. ágúst 2009 og kemur í stað fyrri þriggja ára samnings sömu aðila. LÍÚ greiðir Lagastofnun kr. 7,5 milljónir árlega vegna stöðunnar.
Markmið samningsins er að efla rannsóknir á sviði auðlindaréttar. Lagastofnun mun á grundvelli samningsins láta fara fram lögfræðilegar rannsóknir á reglum um fiskveiðistjórnun og réttarstöðu þátttakenda í fiskveiðistjórnunarkerfum. Helgi Áss Grétarsson lögfræðingur, sem hefur sinnt stöðu sérfræðings við þessar rannsóknir undanfarin ár, mun starfa áfram á grundvelli samningsins. Umsjónarmaður náms í auðlindarétti skal hafa faglegt eftirlit með rannsóknarverkefninu og framvindu þess. Samningurinn er óuppsegjanlegur á samningstímanum og hefur LÍÚ enga aðkomu að rannsókninni eða rannsóknarniðurstöðum frekar en samkvæmt fyrri samningi.
María Thejll, forstöðumaður Lagastofnunar, segir samninginn mjög mikilvægan fyrir stofnunina á tímum samdráttar og niðurskurðar...“ (Vefur HI.is)

Gestir óánægðir með ræðu prófessors
„Baulað var á Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, þegar hann hélt ávarp á hátíðardagskrá Sjómannadagsins á Granda í dag. Ragnar sagði að grafið hafi verið kerfisbundið undan framfarasókn í sjávarútvegi en nú hafi þessi ógn margfaldast. Ragnar sagði þau kvótafrumvörp sem nú hafa verið lögð fram kollvarpa gildandi kerfi fiskveiða, verði þau að lögum.
Nokkrir gestir létu óánægju sína með ræðu Ragnars í ljós með bauli.
Jón Bjarnason flutti einnig ræðu, þar sagði hann að Íslendingar myndi ekki láta fiskimiðin af hendi, hvorki til ríkjasambanda né fyrirtækja.“ (RUV 5/6 2011)

Beinn fjárhagslegur stuðningur
„Beinn fjárhagslegur stuðningur einstakra fyrirtækja við viðskiptadeildirnar leiddi oft á tíðum til sjálfsritskoðunar meðal nemenda og kennara skólanna. Ég man t.d. eftir einu atviki þar sem ég fjallaði um hegðun stjórnenda Eimskips á níunda áratug síðustu aldar til að útskýra það sem hagfræðin kallar
Umboðsvandann (principal agent problem). Umboðsvandinn felst í aðstæðum þar semhagsmunir margra smárra eigenda fyrirtækis og stjórnenda þess fara ekki saman. Einn nemandi minn klagaði mig fyrir að fjalla á neikvæðan hátt um Eimskip í kennslustofu sem kennd var við Eimskip. Þetta og önnur sambærileg atvik urðu til þess að ég var eindregið hvött til þess af stjórnendum skólans að fjalla á jákvæðan hátt um íslensk fyrirtæki. Í kjölfarið ákvað ég að draga mig út úr opinberri umræðu um málefni sem tengdust beint íslenskum fyrirtækjum. Ég vildi halda vinnunni.“
Lilja Mósesdóttir: „Viðskiptafræði á tímum útrásar.“ Erindi á málþingi Reykjavíkurakademíunnar í Háskólabíói 25. október 2008.
(VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 220)


Háskóli vettvangur sannleiksleitar (í boði Coca Cola ?)
"Ein meginforsenda þess að háskóli geti verið vettvangur sannleiksleitar er að hann búi við frjálslynt, lýðræðislegt umhverfi sem lætur sig til að mynda varða mannréttindi á borð við tjáningarfrelsi og aðrar forsendur upplýstrar skoðanamyndunar.
Að öðrum kosti er hætt við að fjari smám saman undan þeirri menningu sem háskólar eru sprottnir úr og þeir hafa stuðlað að. Í siðareglum Háskóla Íslands eru ákvæði um ábyrgð háskólamanna gagnvart samfélaginu þar sem þeir eru hvattir til þess að efla frjáls, málefnaleg og gagnrýnin skoðanaskipti og minntir á ábyrgð sína sem háskólaborgarar." (Rannsóknarskýrsla Alþingis - VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 220)

"Háskólar hafa því ekki farið varhluta af svonefndri viðskiptavæðingu samfélagsins og hafa áhyggjur manna aukist af áhrifum þess á háskólastarf, meðal annars vegna þess að siðfræði vísinda og siðferði í viðskiptum fer illa saman.(936) Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að háskólakennarar þiggi ekki aðeins í vaxandi mæli styrki frá fyrirtækjum til að fjármagna rannsóknir sínar, heldur séu þeir og háskólarnir einnig iðulega sjálfir hluthafar í fyrirtækjunum eða fjárhagslega tengdir þeim með öðrum hætti.(937) Færð hafa verið rök fyrir því að þetta dragi úr heiðarleika fræðimanna, þrengi sjóndeildarhring þeirra og val á viðfangsefnum rannsókna.(938)  Hætta á hagsmunaárekstrum stóreykst vitanlega samfara þessari þróun. Sem dæmi má nefna eftirfarandi: „Michael MacCarthy, einn af ritstjórum breska læknavísindatímaritsins The Lancet, heldur því fram að slík tengsl séu orðin svo algeng að „oft sé erfitt að finna nokkurn mann sem ekki hefur fjárhagslegra hagsmuna að gæta“ til að ritrýna fyrir tímaritið greinar um lyf eða læknismeðferð.“(939) Það er mikilvæg spurning hvernig tryggja megi sjálfstæði háskólanna gagnvart auknum fjárhagslegum hagsmunum. Hugsjónir háskólastarfsins eru í húfi"
936. Press, Eyal, og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja.“ Magnús D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000, bls. 7. Jennifer Washburn hefur skrifað bókina University, Inc.: The Corporate Corruption of Higher Education (Basic Books 2005) þar sem hún færir rök fyrir því að viðskiptavæðing bandarískra háskóla hafi grafið undan akademískum gildum. 
937. Press, Eyal, og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja.“ Magnús D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000, bls. 7. 938. Sjá t.d. Monibot, George: „Guard Dogs of Perception: The Corporate Takeover of Science.“ Science and Engineering Ethics 9 (2003), bls. 49–57. 
939. Press, Eyal, og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja.“ Magnús D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000, bls. 7–8.

"Vísindastarf lýtur bæði þekkingarfræðilegum og siðfræðilegum viðmiðum sem eru forsendur þess að fræðimenn gæti hlutlægni.(963) Háskólar hafa notið mikils trausts í samfélaginu og ætla má að það stafi ekki síst af því að fólk telji að háskólamenn leitist við í málflutningi sínum að hafa það sem sannara reynist og stenst röklega skoðun. Þessi hugsjón vísindastarfs er samofin hugmyndinni um háskóla sem griðland hugsunar sem er frjáls undan afskiptum afla sem vilja ráðskast með rannsóknir fræðimanna og niðurstöður þeirra. Þetta tengist kröfunni um hlutleysi vísinda um verðmæti, en hana má orða þannig að hún kveði á um frelsi til að fylgja fræðilegum rökum og efla vísindaleg verðmæti og frelsi undan afskiptum afla sem reyna að sveigja menn af þeirri leið í nafni verðmæta sem koma vísindum ekki við.(964) Hugsjónin er sú að fræðimönnum beri einungis að lúta staðreyndum og fræðilegum rökum og halla ekki réttu máli vegna annarra hagsmuna sem þeir kunna að hafa eða vegna þrýstings utanaðkomandi afla. Í viðleitni sinni til þess að hafa þessa hugsjón í hávegum er mikilvægt að vísindasamfélagið sé á varðbergi gagnvart því hvernig fræðin kunna að vera misnotuð til að þjóna sérhagsmunum í samfélaginu." (Rannsóknarskýrsla Alþingis - VIÐAUKI 1 – SIÐFERÐI OG STARFSHÆTTIR Í TENGSLUM VIÐ FALL BANKANNA 2008, bls 220)

Almenningur í landinu ,sem seint flokkast undir þrælskipulögð hagsmunasamtök,  á ekki fúlgur fjár til þess að kosta rannsóknir í sína þágu. Er það hlutverk vísindasamfélagsins að hlaupa á eftir þeim aðilum sem hafa yfir fjármagni að ráða ? Og er hægt að gera ráð fyrir því að í þeim tilfellum séu vísindamenn óháðir? Eiga kostaðar fræðilegar úttektir að vera grunnur lýðræðislegrar umræðu í samfélaginu? Á  hugtakið vanhæfi ekki við í íslensku háskólasamfélagi. Þarf  háskólasamfélagið ekki að hefja sig upp yfir allan vafa? Held að það hljóti að vera krafa samtímans og ekki síst í ljósi þeirra hremminga sem íslenskt þjóðfélag hefur átt í síðustu ár.  

fimmtudagur, 26. maí 2011

Klúðraði sennilega flugstjórastarfi hjá Icelandair

Fligth simulator er skemmtilegt forrit – sem krónískur flugdellukarl sannreyndi ég það enn frekar um daginn. Var „farþegi“ (en hafði í nógu að snúast) í flugi FI 212 til Köben þann 11/5 2011 en flaug sömu leið í „simmanum“ í Pc vélinni minni, í samtíma að vísu ótengdur netinu sem gerði það að verkum að raunveður var ekki í boði. Eins varð ég að taka mitt flugtak eftir að við vorum komin í loftið og lenda áður en fyrsta freyja tilkynnir að „öll notkun rafeindatækja um borð sé nú bönnuð“.

Sæmundur Stefánsson flugstjóri tilkynnti í upphafi ferðar að Gylfi Ernst Gíslason copilot myndi sjá um flugið að mestu leyti enda nauðsynlegt að þjálfa flugmenn með markvissum hætti. Á sama tíma er ég að koma mér upp mínum eigin flugstjórnarklefa í sætaröð 26 A. Er ánægður með þessar nýju innréttingar í Flugleiðavélunum, gott pláss og ekki er afþreyingarkerfið síðra, ekki síst fyrir „flugmann“ eins og mig sem get stillt inn á flugleiðsögukerfi vélarinnar. Sætið við hliðina á mér var laust þannig að ég nýtti tvo skjái undir flugleiðsögn.

Coarinn er góður flugmaður  því þrátt fyrir gott veður þá voru samfelld dökk bólstraský frá jörðu í ca 4 -5.000 fet  og fullt af  smá cummum austur af Keflavík. Í bólstraskýjum er oft mikil kvika og cummarnir  eru óvinir okkar „flugmanna“. Coarinn velur að fara bratt upp í flugtakinu og yfir þetta sem tekst með ágætum, farþegar sitja eins og heima í stofu hjá sér og njóta flugsins. Í ca 6.500 fetum slekkur Gylfi á „sætisólaskiltinu“ sem er full snemmt fyrir minn smekk en allt í fínu þar sem hann fór aldrei inn í neina kviku. Ég þurfti ekkert að hafa áhyggjur af þessu þar sem að veðrið í simmanum mínum var fínt, ég kom mér bara í hæð hægt og rólega og á hagkvæmari máta en kollegar mínir hjá Icelandair þeir Sæmundur kapteinn og Gylfi copilot, slekk á sætisólaskiltinu í 10.000 fetum.

Hitt er svo annað mál að Gylfi tók mig í nefið í farfluginu sem hann flaug í 39.000 fetum og tókst að nýta meðvind sem mér stóð reyndar ekki til boða þrátt fyrir að hafa verið í sömu hæð! Þannig að í rauntíma var ég á eftir þó svo að ég viðurkenni það ekki nema nauðbeygður. Sparnaður minn í flugtaki við bestu skilyrði vó ekkert á móts við meðvindinn sem Gylfi nýtt sér 100% í farfluginu. Ground speed kerfið lýgur ekki, ekki heldur leiðsögukerfið sem maður hefur í fyrir framan sig og ekki heldur simminn. Játaði mig sigraðan og það þrátt fyrir mjög afgerandi flugáætlun mína sem fólst í beinni línu frá Keflavík til Kaupmannahafnar og enga króka.

Þegar að hér er komið sögu þá erum „við báðir“ staddir á svipuðum slóðum rétt undan ströndum Noregs. Ég tel að ég eigi inni smá pásu áður en ég fer að undirbúa aðflug og lendingu. Stilli simmann á aukin hraða. En það verður að segjast eins og er að hin ágæta afþreyingarþjónusta um borð hjá Icelandair sem og hlýlegt viðmót flugliða gerði það að verkum að árvekni mín var ekki með sama hætti og coarans. Þjónusta Hrafnhildar Proppé yfirfreyju og hennar fólks gerði það að verkum að ég sem pilot in command (í simmanum) fékk engan frið fyrir þjónustunni, jafnvel ekki í mínum eigin cockpit, þurfti því að þiggja ýmsar góðgerðir (eða þannig) sem almennum flugfarþegum er boðið upp á, sem var “allt í lagi“ nema hvað!

Í öllum þessum vellystingum ranka ég skyndilega við mér, ég er sem sagt í 39.000 fetum og sé út undan mér Helsingborg í Sverige sem er ekki gott. Eru auðvitað hrein mistök þ.e.a.s. ef maður ætlar að lenda í Köben sem er í ca 35- 40 km fjarlægð. Góðu fréttirnar þær að flugtíminn var ágætur en lengra náði það ekki! En ég hugsa með mér maður verður að halda áætlun, farþegar eru að fara í tengiflug og fleira og ekki síst hugsa um stundvísina. Ákveð því að bremsa snarlega og taka eins fáa hringi og kleyft er og koma mér inn á Kastrup. Sló af, setti spolerana í 100% og dekkin niður til að draga enn frekar úr hraða. Stollaði að vísu fljótlega og lækkaði flugið eins og hver annar flygill. Fékk tilkynningar af og til um að þetta væri ekki sem best fyrir vélina og stefnuviðvörun þar sem hvorki mér (simmflugstjóranum) né farþegum var ljóst um tíma hvert vélin stefndi. Ég var ekkert að ráðfæra mig við flugumsjón CHP eða ónáða þá á nokkurn hátt.


Hafði reyndar áhyggjur af flugi fyrir neðan mig til að byrja með en trafkík var mikil eins og oft er við Kaupmannahöfn.  Í  ca 16 -17.000   fetum beini ég nefinu niður, gef hraustlega  í og tek til við að „fljúga“ að nýju. Frú Proppé, ef hún væri af mínum rafræna heimi, hefði á þessu stigi málsins komið til mín og sagt að þetta aðflug væri, mér sem (simm) flugstjóra til skammar  sem og íslenskri flugsögu, ég yrði örugglega rekinn þ.e.a.s. ef mér tækist að komast síðasta spölinn klakklaust. Hún myndi láta vin minn Þorgeir Haralds yfirflugstjóra vita af þessu flugi þ.e.a.s. ef ég sæi ekki sóma minn í því að gera það sjálfur.  Get tekið undir hvert orð yfirfreyjunnar. Ég sænsk menntaður vandamálafræðingurinn var komin í mál sem ég réð ekkert við. Tiltölulega einfalt mál, áætlun Icelandair til Köben í tómu klúðri!  Ég geri mér jafnframt grein fyrir því á þessum tímapunkti að ég myndi ekki einu sinni vilja vera farþegi hjá sjálfum mér. En hvað með það eftir þessa hræðilegu lækkun eða „aðflug“ er ég komin í 6.000 fet skammt austur af Malmö. Ég sigli í átt að Kastrup lækka flugið enn frekar og kem mér í lokastefnu á braut 22/04 en er of hraður og aðeins of hár – kem inn á ca 175 flýg töluvert inn á braut, sem er ekki gott, bremsa í botn bæði á  hjólum og mótorum.  Hræðilegu flugi lokið.

Sem betur fer er ég í raunheimum staddur norður af Árósum. Gylfi er aðeins byrjaður að lækka sig og tilkynnir okkur að hann áætli lendingu í Köben eftir ca 25 mín. Landskrona handan Eyrarsundsins blasir fljótlega við og skömmu seinna Malmö. Gylfi tekur fína beygju til vesturs og „smyr“ braut 22/04 með miklum ágætum og af stakri fagmennsku. Frábærri flugferð lokið. Ég þakka Sæmundi og Gylfa „kollegum mínum“ fyrir farsælt flug og segi þeim farir mínar ekki sléttar og rek í stuttum máli raunir mínar í hinum rafrænum flughermiheimum í þessu sama flugi. Játa mig sigraðan og tel frama mínum innan flugsins lokið en fæ ekkert nema fyllsta skilning frá Sæmundi flugstjóra sem telur einsýnt að ég þurfi að æfa mig  meira og ekki síst að sýna 100% árvekni alla ferðina. Þakka kollega mínum góð ráð og kveð með virktum.

Fín reisa í öruggum höndum þeirra Sæmundar og Gylfa. Alger óþarfi fyrir einhverja back side drivers eins  mig (simmulator captiain) að vera að rembast,  maður á bara slaka á og njóta þess að vera í öruggum höndum . Sæmundur, Gylfi, Hildur og þeirra fólk sér um þetta allt saman.  Tek mér far með Icelandair að öllu leyti næst og læt þjónustuna og þægindin um borð trufla mig ...verulega.

laugardagur, 14. maí 2011

Hekla grunsamleg

Ég veit ekkert um jarðfræði en ég sé drottingu íslenskra fjalla Hekluna úr sveitinni minni í Landsveitinni. Sem ljósmyndaáhugamaður hef ég tekið fjölda mynda af fjallinu. Í fyrra fannst mér ýmislegt grunsamlegt m.a. hve suðurhlíðar fjallsins voru snjóléttar. Spáði gosi í Heklu sem ekki varð en hins vegar fór allt í gang í nágrenninu? Var á ferð um daginn og tók þessa mynd af Heklu úr Flugleiðavél í ca 30.000 fetum. Eins og lesendur síðurnar sjá þá eru suðurhlíðar Heklu óvenju snjóléttar. Þori ekkert að leggja út frá þessu, er sænskmenntaður vandamálafræðingur sem veit ekkert um jarðfræði ... en sem grunar ýmislegt

sunnudagur, 1. maí 2011

1. maí um land allt

Verð fjarri góðu gamni á 1. maí og tek því ekki þátt í hátíðarhöldunum að þessu sinni en læt mitt hins vegar ekki eftir liggja og birti hér ávarp frá 2004 sem ég, sem formaður STH og stjórnarmaður í BSRB, flutti á Grundarfirði og Ólafsvík árið 2004. Segið þið svo að verkalýðshreyfingin hafi ekki haft upp varnaðarorð gangvart því sem á eftir kom? Gleðilega hátíð með von um að með samtakamætti takist að vinna bug á því félagslega böli sem íslensk láglaunapólitík er.




1. maí ávarp flutt í Grundarfirði og í Ólafsvík árið 2004
Gleðilega hátíð

Verkalýðsbaráttan er
eins og sagan endalausa. Þegar að einum áfanga er náð þá blasir hinn næsti við. Verkefnin ótæmandi og stöðugt ný sem bætast við.

Ef litið er til lengri tíma þá er ljóst að margt hefur áunnist í baráttunni hér landi síðustu áratugina og ef við lítum til enn þá lengra tíma og allt að tímaum iðnbyltingarinnar í Englandi um miðja 18 du öldina, þar sem að líf kolanámuhestsins var meira virði en hins þrælkað barns. Hesturinn mun sterkari og bar mikið magn kola úr námunum og því verðmætari vinnukraftur. Börnin allt niður í 4 -5 ára gömul voru veikburða en þóttu hins vega afar nýtileg við að krafla kol úr þröngum útskotum í námunum. Þau entust illa, urðu lasburða, mörg létust, mörg flýðu og lögðust á vergang. Réttindi barna voru minni en vinnudýra og voru þau sett skör neðar. Breski rithöfundurinn Charles Dickens gerir þessum ömurlegu aðstæðum barna og verkafólks góð skil í bókum sínum.

Sem betur fer þá
hefur margt áunnist frá þessum ömurlegu tímum, það hafa margar orrustur unnist og mörgum árásum á kjör alþýðunnar hefur verið hrundið á bak aftur. Setning vökulaganna um 1920 á Íslandi var mikil áfangi og fjarri því sjálfgefin.

Í þessu samhengi það sjáum við greinileg að gríðarlega margt hefur áunnist. Við vitum einnig að það hefur ekkert komið upp í hendurnar á okkur baráttulaust. Fyrir hverri einustu breytingu hefur þurft að hafa fyrir. Þetta segir okkur og sýnir að verkalýðshreyfingin hefur gengt gríðarlega mikilvægu hlutverki og gerir enn og hreyfingin mun gegna mikilvægu hlutverki áfram.

Það er okkur því nauðsyn að styrkja innviði okkar með margvíslegum hætti. Við verðum að fá unga fólkið til liðs við okkur, við verður að fá hinn almenna félagsmann til að vera virkari og við þurfum að láta rödd okkar heyrast.

Það er engin tilviljun
að fyrir Alþingi liggi tillaga frá þingmanni úr stuttbuxnadeild íhaldsins um að afnema aðild fólks að verkalýðsfélögum. Járnfrúin hin breska sem féll af stalli með eftirminnilegum hætti, og skyldi samfélagið eftir í upplausn, barðist hatrammri baráttu gegn verklýðshreyfingunni bresku og með þeim hætti og árangri að en þann dag í dag hefur hún ekki borði sitt barr.

Það er því varhugavert og allrar varkárni vert að fylgjast með þeirri þróun sem á sér stað hér á landi. Verkalýðshreyfingin er litin hornauga og talinn standa í veginum - fyrir hverju spyrja menn? Svarið er augljóst ! Í veginum fyrir grímulausum eignatilfærslum í íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfinginn hefur leyft sér að hafa skoðanir á skiptingu þjóðarteknanna. Verkalýðshreyfingin hefur leyft sér að hafa skoðanir á einkavæðingu og að eignum samfélagsins séu færðar sérvöldum gæðingum
Verkalýðshreyfingin er ógn við þá grímulausu gróðahyggju þeirra afla sem nú ráða íslensku samfélagi. Verkalýðshreyfingin hefur staðið vörð um velferðarkerfið. Verkalýðshreyfinginn er óþægileg því hún stendur í vegi fyrir markmiðum óheftrar gróðahyggju fámennra hópa samfélagsins og truflar þau margmið verulega. Sendisveinar þessara hagsmunaafla eru á Alþingi á stuttbuxunum einum saman og settir sérstaklega í það verkefni að ráðast að hreyfingunni með öllum tiltæknum ráðum.

Verkalýðhreyfingin er samfélagslega ábyrg
gerða sinna og um okkur er samt sem hægt að segja eins og fram kemur í ljóði Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi að "fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá" Þjóðarsáttarsamningarnir eru það eldmeti sem núverandi góðæri og velferð byggir á. Við höfum hins vegar ekki fengið sanngjarnan hlut nema síður sé og þrátt fyrir einhverja mælanlega kaupmáttaraukningu almennings þá er hún í engu samræmi við þann ofurgróða sem bankar - og fjármálastofnannir sýna. Okurvextir , ofur þjónustugjöld, verðsamráð olíufélaganna, fákeppni á matvörumarkaði og hlutfallslega hátt vöruverð miðið við samkeppnislöndin gerir það að verkum að hlutdeild almennings í góðærinu er í engu samræmi við þær fórnir sem færðar hafa verið.
Hámarksávöxtun hlutbréfa, hámarksarðsemi,og skyndigróði er hið eina markmið margra fyrirtækja ,ýtrustu einkahagsmunir hafðir að leiðarljósi. Afkomutölur fyrirtækja í landinu sýna svo ekki verður um villst að ráðrúm er til tekjuskiptingar með öðrum og sanngjarnari hætti en verið hefur.

Hlutverk stjórnmálamanna er ekki
að deila gæðum þó svo að stundum geti virst að svo séu þeirra meginmarkmið. Hlutverk stjórnmálamanna er að skapa sátt og samlyndi um helstu gildi og um leikreglur samfélagsins. Í dag fer því víðs fjarri að sátt og samlyndi ríki um skiptingu gæða í samfélaginu og í raun sjaldan verið eins mikil ójöfnuður og nú um þessar mundir. Stjórnvöld hafa ekki haft getu eða vilja til þeirra breytinga sem nauðsynlegar eru til þess að sátt náist

Oft er deilt á hinn opinbera geira.
Oftast að ófyrirsynju en stundum með réttu. Dæmin sanna þó að í flestum þeim tilfellum þar sem það á rétt á sér, þá eru hin opinberu fyrirtæki fyrst og fremst fórnarlömb misvitra stjórnmálamanna og eða umboðsmanna þeirra. Opinberir starfsmenn sinna afar mikilvægum og verðmætum störfum , svo verðmætum að hagsmunahópar ýmsir eru reiðubúnir til að seilast ansi lagt í að komst yfir þau verðamæti sem hinir s.k. opinberu starfsmenn skapa með störfum sínum. Einkavæðing í anda nýfrjálshyggju eru grímulaus tilflutningur verðmæta samfélagsins til fárra útvaldra.

Einkavæðing hefur hvergi leitt til
lækkandi gjaldskrá til almennings. Og þrátt fyrir viðvörunarbjöllur hringi víða um veröldina varðandi afar og algerlega misheppnað ráðgerðir af þessu tagi sem kostað hefur ýmis samfélög gríðarlegar fjárhæðir, þá er í engu slegið af hér á landi og fremur gefið í en slakað á. Nýleg lög um Vatnsveitur sem og frumvarp til nýrra raforkulaga gefa tóninn um áframhaldandi óráðsíu í þessa veru. Grundvallarspurningu eins og t.d. hvað samkeppni Vatnsveitur muni eiga í og við hverja er ósvarað en nokkuð ljóst að um einkarekna einokun verður að ræða. Einkarekinn einokun er sennilega versta og kostnaðarsamasta rekstraform fyrir samfélagið sem völ er á þegar að upp er staðið.

Verkalýðsbaráttan er sagan endalausa
sagði ég hér í upphafi. Orð að sönnu, hún þarf að styrkja innviði sína og hún þarf að láta rödd sína heyrast vel og víða og hin ýmsu verkalýðsfélög þurfa að mæla einum rómi. Það þarf að þétta fylkinguna og efla. Það þarf að hvetja unga fólkið til dáða og virkni innan hreyfingarinnar. Hin gömlu klassísku sannindi um að "sameinuð stöndum vér en sundruð föllum vér" er í fullu gildi. Leggjum á eitt til að svo megi verða og þá styrkjumst við og þá mun okkur farnast vel í hinum mörgu og erfiðum verkefnum framtíðarinnar

fimmtudagur, 28. apríl 2011

Hve lágkúruleg getur hin pólitíska umræða orðið - eru engin mörk?

Umræður stjórnmálamanna margra hverra eru fjarri því lausnamiðaðar - snúast um einhverjar "pólitískar keilur" að mati viðkomandi en hljóma í eyrum flestra annarra sem rakalausar dylgjur, dónaskapur og ærumeiðingar.
Dæmi um slíkt er meðfylgjandi frétt í Fréttablaðinu 28/4 2011 .  "Málflutningur" sem er engum boðlegur og sýnir í hnotskurn hvers vegna stjórnmálmenn njóta takmarkaðs trausts. Tek heils hugar undir með Nóbelsskáldinu sem sagði með réttu "er ekki komin tími til þess að lyfta umræðunni á hærra plan. Vandinn er vissulega ærin en "umræða" af þessum toga gerir bara illt verra.

sunnudagur, 17. apríl 2011

Í upphafi skyldi endinn skoða

Samfélag dagsins í dag og sífellt flóknari samfélagsgerð kallar á sérhæfingu og ekki síst hvað varðar uppeldismál. Frístundaheimili eru einn angi hinna nýju viðfangsefna samtímans hérlendis. Að vísu tiltölulega seint fram komin hér á landi miðað við Norðurlöndin til dæmis. Á þeim vettvangi lýtur starfsemin sérstöku fagumhverfi (fritidspedagogik) og hefur um margra áratuga skeið þróast sem starfsemi er lýtur allt öðrum forsendum en hefðbundið skólastarf.
Á Íslandi kallaðist þessi starfsemi, víða til að byrja með, „lengd viðvera“ sem sagði allt sem segja þarf um faglega stöðu starfseminnar og innihald a.m.k. í upphafi. Sá sem þetta ritar vann að úttekt á stöðu þessara starfsemi í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum sem þáverandi yfirmaður æskulýðs- og tómstundarmála hjá bæjarfélaginu. Þar kom m.a. fram að starfsemin sem þar var nefnd „heilsdagsskóli“ var fyrst og fremst samheiti en ekki hugtak eins og t.d . félagsmiðstöð eða skóli.

Starfsemin var eins ólík og staðirnir voru margir og mótuðust fyrst og fremst af viðkomandi starfmönnum sem ekki voru gerðar neinar sérstakar kröfur til hvað varðar menntun eða reynslu á þessum vettvangi. Þetta var sá raunveruleiki sem blasti við ekki bara í Hafnarfirði heldur víða um land. Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði hafa nú ákveðið, eftir tilraunatímabil, að færa starfsemi „heilsdagsskóla“ að öllu leyti undir ÍTH (Íþrótta- og tómstundanefnd Hafnarfjarðar) sem er gæfuspor alveg eins og það var afar skynsamlegt á sínum tíma hjá borgaryfirvöldum að færa frístundaheimilin undir ÍTR (Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur). Starfsemi sem var í kjölfarið tekin til gagngerrar endurskoðunar frá A- Ö. Innra starf, starfsaðferðir, fagmennska, starfsskrá, endurmenntun og menntun starfsfólks o.fl. Með öðrum orðum starfsemin öðlaðist innhald og sundurlausu samheiti var breytt í hugtakið frístundaheimili. Starfsemi frístundaheimilanna var faglega samræmd og rekin í sama anda hvar sem var í borginni, út frá bestu manna þekkingu hverju sinn og af fagmennsku sem einkennir allt starf ÍTR. Árangurinn hefur verið góður enda foreldrasamfélagið afar sátt ef marka má þær kannanir sem gerðar hafa verið um slíkt og sama á við um starfsfólk frístundaheimilanna en sömu kannanir sýna mikla starfsánægju þess. Sem sagt vaxandi starfsemi sem byggir á fagmennsku og hefur allar forsendur til þess að verða enn betri fá hún frið til þess.

Í þessu ljósi eru þær breytingar illskiljanlegar sem borgaryfirvöld áforma um að færa forræði starfseminnar að einhverju leyti aftur yfir til skólanna og jafnvel með því fororði að skólastjórar séu yfirmenn alls þess starfs sem fram fer innan skólanna? Fyrir slíkt fá viðkomandi allnokkrar aukagreiðslu sbr. kjarasamninga, þó svo að viðkomandi komi ekkert að starfinu að öðru leyti. Og svo hitt að kennarar komi í auknum mæli inn í starfið? sbr. skýrslu starfshópsins. Við Menntavísindasvið HÍ fer fram afbragðsgóð kennaramenntun eins og skólar landsins hafa ekki farið varhluta af. Þar fer reyndar einnig fram afar fjölþætt menntun á sviði uppeldismála m.a. í heildstæðu BA og M.Ed námi í Tómstunda- og félagsmálafræði og úr þeim ranni kemur fagfólk og sérfræðingar á sviði frístundaheimilanna. Sérþekking kennara er ekki á þessu sviði enda tómstunda- og félagsmálafræði ekki hluti af kennaranámi. Tómstunda- og félagsmálafræðingar eru ekki mikið í stærðfræðikennslunni enda lítið lært formlega til þeirra verka og margir sem hefðu efasemdir um ágæti slíks fyrirkomulags. Sama á auðvitað við um kennara sem starfa á öðrum vettvangi en sínum.

Það liggur ekkert annað fyrir en að starfsemi frístundaheimila á vegum ÍTR sé afar vel viðunandi og í því ljósi er erfitt að átta sig á hvað tilgang breytingar af þeim toga sem fram koma í skýrslu starfshóps á vegum borgarinnar þjóna. Það liggur fyrir hvernig starfseminni var háttað áður en ÍTR var falin umsjá hennar. Grundvallarspurningin er því sú hvort einhverjar þær gagngeru breytingar hafi átt sér stað í skólakerfinu síðustu ár sem gera það að verkum og réttlæti breytingar af þeim toga sem tíundaðar eru í skýrslu starfshópsins. Ég get ekki séð það og finn því hvergi stað í skýrslunni. Í hana vantar allar forsendur, faglegt mat á starfseminni og ekki síst hverju væntanlegar breytingar eiga að skila umfram það sem nú er? Ég skora á borgaryfirvöld að draga þessar hugmyndir til baka en vinda sér þess í stað að styðja við og byggja upp þessa afar mikilvægu starfsemi í fullri sátt við fagumhverfið og útfrá þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er að finna. Í upphafi skyldi endinn skoða.

Árni Guðmundsson M.Ed . sérfræðingur í æskulýðsmálum – starfsmaður á Tómstunda- og félagsmálafræðabraut MVS

mánudagur, 11. apríl 2011

Allir eiga sér sitt eigið Icesave

Icesave málið er „lang besta deila“ sem skotið hefur upp kollinum í Íslensku samfélagi um áratugaskeið. Deilan býður upp á eins marga fleti og hverjum og einum sýnist. Hugmyndir og tilfinningar verða í hita leiksins að staðreyndum sem verða grunnur að umræðum sem leiða til einhverra þeirra ályktanna sem smella passa við skoðanir og eða tilfinningar viðkomandi þá stundina og skipti í engu hvora hliðina menn studdu.

Þannig gátu pólitískir hugmyndasmiðir hrunsins stillt sér upp við hlið fórnarlamba hrunsins og mælt einum rómi mót því að samþykkja Icesave þó svo að á allt öðrum forsendum hafi verið. Annars vegar hinn eindregni vilji að koma ríkisstjórninni frá og komast til valda með hvað ráðum sem hægt er og hins vegar venjulegt fólk sem er stútfullt af réttmætri reið vegna hræðilegra aðstæðna í kjölfar hrunsins. Venjulegt fólk og flokkshestar í grímubúningum og allt þar að milli, allir eiga sitt eigið Icesave. Dæmi um gæðin í deilunni er þegar að forsetinn í baráttu við heimskapítalismann er orðin ein helsta fyrirmynd hugmyndasmiðs nýfrjálshyggjunnar hér á landi. Samsinnungar hvor af sínum pólitíska kanti. Það er af sem áður var – sama ferð sitt hvor tilgangurinn ? Allir eiga sitt eigið Icesave sem sameinar hið ólíklegast fólk og sundrar öðru.

mánudagur, 4. apríl 2011

Músiktilraunir og Íslenska óperan

Þá er velheppnuðum Músiktilraunum lokið. Umgjörðin sem fyrr frábær í alla staði og afar viðeignandi að hafa lokakvöldið í Íslensku óperunni. Sem endranær tóku þátt fjöldi efnilegra listamanna, fjölbreytt tónlist, frábær flutningur og sköpunargleðinn í fyrirrúmi. En eitt árið í glæsilegri 30 ára sögu Músiktilraunanna sem eru sannkallaður stökkpallur fyrir ungt tónlistarfólk eins og dæmin sanna, nánast allir fremstu tónlistarmenn þjóðarinnar hafa einhverja snertingu við Músíktilraunir í upphafi á sínum ferli.
Það eru margir sem hafa lagt hönd á plóginn til þess að gera þennan menningarviðburð að veruleika. Fyrir utan listfólkið og starfsmenn Hins Hússins (HH)  er framlag fólks eins og Markúsar Guðmundssonar framkvæmdastjóra  HH, Ásu Hauksdóttir deildastjóra  menningarmála í HH, Hauks Harðarsonar tæknigúrús HH, Óla Palla á Rás tvö og Árna Matthíassonar blaðamanns á Morgunblaðinu algerlega ómetanlegt. Allt hefur þetta fólk hvert á sínum sínum vettvangi stuðlað að velheppnuðum Músiktilraunum ár eftir ár og unnið að því af miklum metnaði og meira eða minna í sjálfboðavinnu.

föstudagur, 1. apríl 2011

Ferlegt að missa gott fólk

Jakob F. Þorsteinsson og eiginkona hans Vanda Sig. samstarfsfólk mitt við Tómstunda- og félagsmálafræðibrautina við MVS HÍ eru að flytjast af landi brott. Er auðvitað ekki gott en skiljanlegt eins og ástandið er hérlendis.
 Kobbi hefur fengið fína stöðu við Inverness College UHI sem er hluti af   University of the Higlands and Islands  háskólanum  en þar var hann m.a. við nám  þegar hann vann að afar vandaðri M.A ritgerð sinni um útinám. Kobbi er okkar fremsti sérfræðingur í öllu sem viðvíkur informal education og outdoor learnig and leisure og mun stýra þeirri deild háskólans í Inverness.

Það er auðvitað ekki einfalt að flytjast á milli landa en svo heppilega vill til að Vanda sem stundar doktorsnám við HÍ getur einfaldlega unnið að því verkefni frá Skotlandi,. Hitt svo annað mál að Vanda mun sennilega taka að sér þjálfun  Innverness City Ladies Fotball Club en liðinu hefur gengið afar illa í skosku kvennadeildinni, eru í næst neðsta sæti og verulega farið að hitna undir núverandi þjálfara, sem vægast sagt er afar umdeildur. Ég óska þeim velfarnaðar í mikilvægum störfum en ljóst að það verður skarð fyrir skildi í deildinni okkar næstu misserin.

mánudagur, 28. mars 2011

Í hroðalegri kreppunni birtist bjargvætturinn Dr. Christopher Johnson

Fékk meðfylgjandi bréf frá Dr. Christopher Johnson - velti því fyrir mér hvort Arionbanki, Glitnir, Landsbankinn  eða jafnvel Byr hefðu ekki  áhuga á viðskiptum við doktorinn. Ég sjálfur  á fullt í  fangi við að vísa frá mér afrískum ekkjum sem allar eiga fúlgur fjár eftir menn sína, oftast herforingja, sem ýmist voru skotnir og eða myrtir með hinum ólíklegustu aðferðum í hinum ýmsu ríkjum Afríku. Þessar elskur æskja bara smá viðviks af minni hálfu er varðar vesen í regluverki bankanna í viðkomandi landi og umbun ekki í nokkrum takt við vinnuframlag mitt, ein vildi t.d greiða mér 800.000 pund og önnur 1,200,000 $ sem mér fannst reyndar verulega vel gert og þannig að jafnvel skilanefndafólk mynd roðna.  Ég skil reyndar ekki hvernig og hvað það er í fari mínu sem gerir það að verkum að ég einn fárra Evrópubúa geisla þessum ótrúlega þokka langt út fyrir Schengensvæðið. En hvað með það Dr Christopher Johnson verður að leita annað - ég er einfaldur ríkisstarfsmaður, persónugervingur hinnar íslensku láglaunastefnu og skili ekki þessar stærðir sem doktorinn er að vinna með - sennilega verðug verkefnin fyrir 2007 týpuna af bankamönnum! Einhverjir af þeim dunda sér áfram í bönkunum - Hér er bréfið:

"Halló vinur.
Ég er Dr Christopher Johnson. Deildarstjóri Bókhald endurskoðunar á Suisse inneign banka, One Cabot Square, London E14 4QJ London, hérna í Englandi. Ég er að skrifa þér um viðskipti tillögu sem verða gríðarlega gagnast bæði af okkur. Í deildinni minni, sem framkvæmdastjóri London Regional Office, uppgötvaði ég Summa £ 16,5 milljónir (Sextán milljónir og fimm hundruð þúsund pund Sterling) á reikning sem tilheyrir einu af erlendum viðskiptavinum okkar Late Viðskipti Mogul Mr Moises Saba Masri Milljarðamæringur, Gyðingur frá Mexíkó sem var fórnarlamb þyrla hrun 10 Jan, 2010, drepa hann og fjölskyldu hans. Saba var 46 ára gamall. Einnig í chopper á þeim tíma sem hrun var konan hans, sonur þeirra Avraham (Albert) og dóttur-hans í lögum. Flugmaðurinn var líka dauður.
 
Val á að hafa samband þú vaknar úr landfræðilegum eðli þar sem þú býrð, einkum vegna næmi viðskiptin og trúnað hér. Nú bankinn okkar hefur verið að bíða eftir einhverju aðstandendur að koma upp fyrir kröfunni en enginn hefur gert það. Ég persónulega hef verið misheppnaður í að finna ættingja, leita Ég samþykki þitt til að kynna þér sem aðstandendur / Will Styrkþegi til hins látna svo að ágóði af þessum reikningi metin á 16,5 milljón pund hægt er að greiða þér.
 
Þetta verður ráðstafað eða deilt í þessi hlutföll, 60% í mig og 40% til þín. Ég hef tryggt öll nauðsynleg lagaleg skjöl sem hægt er að nota til að styðja þessa fullyrðingu að við erum að gera. Allt sem ég þarf að fylla í nöfn þeirra gagna og lögleiða það í dómi hér til að sanna að þú sem lögbundin styrkþega. Allt sem ég þarf núna er heiðarleg Co-your rekstri, trúnað og traust til að gera okkur kleift að sjá þessi viðskipti í gegnum. Ég tryggja þér að þetta mun vera framkvæmd undir lögbundin fyrirkomulag sem mun vernda þig frá hvaða brot á lögum.

Vinsamlegast gefa mér eftirfarandi, eins og við höfum 7 daga til að keyra það í gegnum. Þetta er mjög áríðandi PLEASE.

1. Fullt nafn:
2. Bein Mobile Number þín:
3. Netfang þitt:
4. Occupation:
5. Aldur:
6. Kyn:
7. Þjóðerni:
 
Að hafa farið í gegnum methodical leit, ákvað ég að hafa samband við þig og vona að þú finnur þessa tillögu áhugavert. Vinsamlegast á staðfestingu af þessu bréfi og gefa til kynna áhuga þinn ég mun veita þér meiri upplýsingar.
Endeavour að láta mig vita ákvörðun þína heldur en að halda mig bíða.

Þakka þér í aðdraganda hagstæð svarið.

Kveðjur,

Dr Christopher Johnson."

föstudagur, 25. mars 2011

Frístundaheimilin og fagmennska

Birti hér umsögn Félags fagfólks í frítímaþjónustu um skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila hjá Reykjavíkurborg. Sem endranær þegar að FFF á í hlut þá fer hér fagleg og vönduð umsögn um brýnt málefni.

Félag fagfólks í frítímaþjónustu (FFF) hefur í ályktun mótmælt hugmyndum starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar grunnskóla og frístundaheimila. Hér verða dregin fram þau álitamál sem snúa að frítímaþjónustu í þessu samhengi og félaginu þykir mikilvægt að tekin verði afstaða til áður en endanleg ákvörðun er tekin um hvort af sameiningu verður.

Fagleg álitamál
Á sínum tíma þótti faglegur ávinningur af því að flytja heilsdagsskóla grunnskólanna frá Menntasviði til Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar (ÍTR) og stofna frístundaheimili. Á árunum 2002 til 2004 var unnið að því að skilja að starf skólans og frítímans. Megin ástæða innleiðingarinnar var gífurleg ánægja foreldra auk sýnilegs faglegs ávinnings með tilraunaverkefni sem var unnið á vegum frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti frá árinu 2000. Markmiðið var að efla starf frístundaheimilanna með þeirri hugmyndafræði sem fagstarf á vettvangi frítímans byggir á. Einnig var leitað til fyrirmynda frá öðrum Norðurlöndum til stuðnings við uppbyggingu starfsins. Í Starfsskrá Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur kemur fram skýr sýn varðandi þau gildi sem liggja til grundvallar starfi frístundaheimila en áhersla er lögð á vinna með lykilfærni í frítímanum sem er samskiptafærni, félagsfærni, sjálfsmynd, virkni og þátttaka. Í starfsskránni er einnig gerð grein fyrir þeim leiðum og vinnuaðferðum sem unnið er eftir í starfi frístundaheimila.
Frístundaheimilin eru hluti af starfsemi frístundamiðstöðva sem starfræktar eru í hverjum borgarhluta Reykjavíkurborgar. Í frístundamiðstöðvum er markvisst unnið að því að efla starf frístundaheimilanna og styðja við fagvitund starfsmanna. Þar skapast vettvangur til að deila góðum hugmyndum, þróa og efla innra starf frístundaheimila í samstarfi við aðra sem starfa á sama vettvangi.
Í apríl 2010 var haldin ráðstefna um starfshætti frístundaheimila á vegum Samtaka áhugafólks um skólaþróun, Menntavísindasviðs HÍ, Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimila og skóla. Heiti ráðstefnunnar var “Gæði eða geymsla” og þar kom m.a. fram umræða um mikilvægi þess að ræða saman um hugmyndafræði og áherslur í frístundastarfi barna og skapa vettvang til framþróunar á starfinu. Fjallað var um ráðstefnuna í vefriti Félags fagfólks í frítímaþjónustu í apríl 2010
(Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Þóra Melsted, apríl 2010). Það má kannski segja að heiti ráðstefnunnar kristallist í þeim mikla mun sem hefur verið á gæðum þess starfs sem börnum er boðið upp á í framhaldi af skóladegi. Þetta heiti ráðstefnunnar “Gæði eða geymsla” beinir einnig sjónum að mikilvægi þess að standa vörð um öflugt fagstarf á þessum vettvangi.
Menning frístunda- og skólastarfs er ólík þrátt fyrir að hagsmunir barna séu það sem ræður för hjá báðum þessum aðilum. Kolbrún Þ. Pálsdóttir (2009) fjallar í grein í Uppeldi og menntun um frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn í reykvísku skólastarfi. Þar koma meðal annars fram áhyggjur vegna þess að hugmyndafræði frístunda fái “lítið svigrúm til að eflast og dafna í eðlilegu samspili við hugmyndafræði kennslufræða” og hún segir jafnframt að enn sé starfsemi frístundaheimila “hornreka innan skólakerfisins”. Hugmyndafræði frístunda hefur átt erfitt uppdráttar innan skólakerfisins og það má telja harla ólíklegt að hún nái að festa sig enn frekar í sessi ef af sameiningu frístundaheimila og skóla verður. Eflaust má í einhverjum tilvikum auka samstarf á milli skóla og frístundaheimila og/eða haga því á annan hátt en verið hefur en menning þessara stofnana er ólík og nálgun fagstéttana einnig og það ber að virða.
Niðurstöður norrænna rannsókna sem gerðar hafa verið á samstarfi skóla og frístundaheimila benda til þess að það er menning skólans sem verður ráðandi í samstarfinu og lítil sem engin fagþróun á sér stað á vettvangi frístundaheimilanna (Torstenson & Johansson, 2000). Samkvæmt sænskri rannsókn Hansen (1999) þá kemur fram að þverfaglegt samstarf ólíkra fagstétta geti hindrað faglega þróun þeirra sem starfa á vettvangi frítímans vegna vöntunar á stuðningi innan síns fags.
Innan Háskóla Íslands er námsbraut í félags- og tómstundafræðum sem menntar fólk í þeim fræðum sem unnið er með á vettvangi frítímans. Um er að ræða tiltölulega nýja námsleið á Íslandi þó að mun lengri hefð sé fyrir slíku námi á hinum Norðurlöndunum. Umræða um sameiningu skóla og frístundaheimila hefur komið mjög illa við þann hóp fólks sem hefur sérmenntað sig til að starfa á vettvangi frítímans. Þessi nýja fagstétt þarfnast stuðnings til að ná þroska og miðað við fyrrnefndar rannsóknir þá mun sameiningarhugmyndin að öllum líkindum ekki fela í sér slíkan stuðning.

Fjárhagsleg álitamál
Raunverulegur sparnaður við þessar sameiningarhugmyndir er mjög óljós þar sem allar nánari útfærslur varðandi utanumhald og stjórnun frístundastarfsins eftir sameiningu koma hvergi fram. Því er engan veginn hægt að átta sig á hvar stjórnun frístundastarfsins mun eiga heima innan skólanna. FFF hefur áhyggjur af því að raunverulegur sparnaður verðienginn og raunverulegur kostnaður við rekstur frístundaheimila verði óljós innan fjárhagsramma skólanna ef af sameiningu verður
Miðað við aukið umfang starfs frístundaheimila undanfarin ár hlýtur utanumhald frístundastarfsins að fela í sér aukna vinnu innan skólanna ef af sameiningu verður sem þýðir aukið álag á stjórnendur og/eða ráðningar nýrra stjórnenda. Þegar upp verður staðið gætu þessar breytingar þannig þýtt kostnaðaraukningu innan hvers einasta skóla í stað þess að kostnaðurinn við utanumhald og rekstur liggi miðlægt hjá einni frístundamiðstöð í viðkomandi borgarhluta.
FFF hefur áhyggjur af því að sameining grunnskóla og frístundaheimila muni leiða af sér launalækkun yfirmanna í frístundaheimilum en að laun skólastjórnenda muni að sama skapi hækka.
Áætlað er að breytingarnar spari í launakostnaði um 28,6 milljóna króna á ársgrundvelli þegar innleiðingin hefur átt sér stað í borginni allri. Ekki virðist gert ráð fyrir launahækkunum sem mögulega yrðu hjá skólastjórnendum vegna þess að starfsemi frístundaheimila færist inn í skólana heldur einungis lægri launakostnaður hjá ÍTR. Í skýrslunni er talað um að hagræðing „vegna breytinga á frístundastarfi vegna tillagna í grunnskóla“ muni skila 39,9 milljónum í sparnað á ársgrundvelli. Þessi hagræðing virðast byggja á því að hægt verði að nýta húsnæði skólanna betur í kjölfar sameiningar skóla og hefur þannig lítið með það að gera hvort frístundaheimilum verður stýrt af Menntasviði eða ÍTR.
Fjárhagslegur ávinningur breytinganna er því óverulegur og líklegt að hægt væri að mæta hagræðingunni án þess að fara út í skipulagsbreytingar. Í góðu samstarfi við starfsfólk væri hægt að leita þeirra leiða til sparnaðar sem síður valda raski á beinu starfi með börnum í frístundaheimilum.

Lokaorð
Enn er mörgum spurningum ósvarað. FFF hefur meðal annars áhyggjur af því að skóladagurinn lengist á kostnað faglegs frístundastarfs og skilin þarna á milli verði óljós. Hvernig verður stjórnun frístundastarfsins háttað innan grunnskólanna og hvað verður um sumarstarf frístundaheimilanna? Grunnhugmyndafræði breytingarstjórnunar er samráð. Samkvæmt skýrslunni var lögð áhersla á samráð við hagsmunaðila; foreldra, forsjáraðila, stjórnendur og starfsfólk leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. FFF fagnar samráði en félagið hefði gjarnan viljað koma fyrr að málum. Sá tími sem gefinn er til að vinna umsögn um skýrsluna er allt of stuttur og félagið lýsir einnig áhyggjum yfir því litla samráði sem virðist hafa verið við fagaðila á vettvangi.
Við lestur skýrslunnar er mjög óljóst hver faglegur ávinningur á að vera af sameiningu grunnskóla og frístundaheimila og sparnaðurinn sem af því hlýst er óverulegur. Að mati stjórnar FFF verður sameining grunnskóla og frístundaheimila á kostnað faglegs frístundastarfs.

Reykjavík 21. mars 2011
F.h. stjórnar Félags fagfólks í frítímaþjónustu
Elísabet Pétursdóttir,
formaður

Heimildaskrá:
Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur. (án árs).Starfsskrá skrifstofu tómstundamála - ÍTR. Reykjavík:
Sigrún Sveinbjörnsdóttir og Þóra Melsted. (Apríl, 2010). Gæði eða geymsla? Vefffritið. Sótt 21. mars 2011 af http://www.fagfelag.is/files/uploads/12tbl4arg.pdf 
Kolbrún Þ. Pálsdóttir. (2009). Frístundaheimili fyrir 6-9 ára börn í reykvísku skólastarfi. Uppeldi og menntun. 18. árgangur, 1. hefti. 
Torstenson & Johansson. (2000). Fritidshemmet i forskning och förändring, en kunskapsöversikt. Kalmar: Skolverket. 
Hansen, Monica. (1999). Yrkeskulturer i möte. Läraren, fritidspedagogen och samverkan. Yrkeskulturer i möte. Läraren, fritidspedagogen och samverkan. Göteborg Studies in Educational Sciences 131 Acta Universitatis Gothoburgensis.

mánudagur, 21. mars 2011

I left my heart in San Francisco

“Komdu þá endilega með á tónleika hjá okkur í kvöld, við munum spila á sjúkrahúsi hér í útjaðri borgarinnar” sagði Juhanni stjórnarmaður í UFN (Samtökum norrænna félagsmiðstöðva) við mig.  Ég var nýkomin til Helsinki og  hafði sagt honum að ég hefði ekkert sérstakt á prjónum þetta tiltekna fimmtudagskvöld. Samkvæmt venju var stjórnarfundur UFN á dagskrá kl 13.00 næsta dag.
Ekki slæmt að lenda á tónleikum hjá lúðrasveit samtaka Finnskra félagsmiðstöðva, hugsa ég með mér. Þetta er áhugamannasveit sem leikur víða og gjarnan á ýmsum stofnum.

Heldur var bandið dapurt, trommarinn átti í mesta basli með taktinn og það vantaði allt “grúv” í bandið. En samt sem áður voru áheyrendur allir sem einn himinlifandi og þegar að sveitin lék lagið “I left my heart in San Francisco”, gamlan “standard” sem vinsæll var á stríðsárunum, þá féllu víða tár. Veit sem var að það var ekki vegna tónlistarflutningsins.



Var staddur á hersjúkrahúsi og í salnum voru 200 -300 manns – allt karlmenn frá aldrinum 65 + og upp úr, mismunandi mikið fatlaðir og áttu það allir sameignlegt að hafa verið sendir á vígvöllinn sem kornungir menn eða réttara sagt sem unglingar og hafa í raun aldrei komið heim eftir stríðið. Mér varð það skyndilega ljóst að tala fallinna segir ekkert þegar styrjaldarátök eru annars vegar. Hér (1997) rúmum 50 árum eftir stríðslok blasa en við hinar hörmulegu afleiðingar seinni heimsstyrjaldarinnar. Mér varð það einnig ljóst að hér voru sögur hinna óþekktu hermanna saman komnar og ekki síst þvílík firring og sóun stríðsátök eru. Hvað höfðu þessir menn eiginlega til saka unnið?

Enginn lýsir þessu tilgangsleysi betur en hinn stórkostlegi finnski rithöfundur Väinö Linna í bók sinni “Óþekkti hermaðurinn” sem fjallar um örlög hermanna í finnska vetrarstríðinu. Bókin ætti að vera öllum og sérstaklega ungu kynslóðinni skyldulesning.

Áhrifamestu tónleikar sem ég hef nokkru sinni farið á – varð ekki samur maður á eftir - erfitt en lærdómsríkt – varð þarna ljóst hvílíka gæfu við íslendingar búum við að hafa lent að sem mestu leyti utan þessa hildaleiks sem seinni heimstyrjöldin var. Verð Juhanni vini mínum ávallt þakklátur fyrir boðið.

mánudagur, 14. mars 2011

Góð ljósmynd segir meira en þúsund orð

DV hefur á að skipa mörgum afbragðs ljósmyndurum . Þessi mynd er dæmi um það. Þarf ekki BYKÓ að setja ? merki á skiltið? Verðsamráð. Myndin segir meira en þúsund orð og verður "létt grín" í ljósi rannsóknar samkeppniseftirlitsins á fyrirtækinu..

sunnudagur, 6. mars 2011

Vel heppnuð Samféshátíð

Það er ekki á hverjum degi sem að 4.400 ungmenni á aldrinum 13- 16 ára víðsvegar af landinu koma saman og hvað þá tvo daga í röð. Sú var raunin því föstudaginn 4. mars var dansleikur í höllinni og laugardaginn 5. mars var Söngvakeppni Samfés haldin á sama stað.

Allt gekk þetta eins og í sögu, vel heppnaður dansleikur og ekki síðri söngvakeppni. Dómnefndinni hefur örugglega verið nokkur vandi á höndum enda af nægu að taka, atriði almennt mjög vönduð og góð. Félagsmiðstöðin Hólmasel í Seljahverfinu bar sigur úr bítum. Lagið  Mín eina ást, söng Teitur Gissurarson ásamt félögum sínum, Reyni, Karen Ósk Ólafsdóttur og Karin Sveinsdóttur. Lagið er erlent, Shining light eftir Ash,. og má heyra hér

mánudagur, 14. febrúar 2011

Breytingar breytinganna vegna - hvar er hinn faglegi ávinningur?

Vegna umræðu um sameiningu grunnskóla og frístundaheimila hefur stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu sent fjölmiðlum eftirfarandi tilkynningu sem ég tek heils hugar undir:

Stjórn Félags fagfólks í frítímaþjónustu er sammála orðum formanns Skólastjórnarfélags Íslands í kvöldfréttum RÚV sunnudaginn 13. febrúar (http://fagfelag.us1.list-manage.com/track/click?u=76dae38c03aa292b1bef24366&id=08f7e46498&e=7a310bf524 um að það skili litlum sparnaði að sameina frístundaheimili og grunnskóla í Reykjavík. Stjórnin getur hinsvegar ekki verið sammála orðum hennar um að það sé faglegur ávinningur af sameiningunni. Á sínum tíma þótti faglegur ávinningur af því að flytja heilsdagsskóla grunnskólanna frá skólunum til Íþrótta- og tómstundasviðs og stofna frístundaheimili. Það er því erfitt að sjá hvernig það getur orðið faglegur ávinningur af því að fara til baka í sama horfið?

Það þótti faglegur ávinningur að skilja að starf skólans og frítímans en sú innleiðing átti sér stað frá 2002 til 2004. Megin ástæða innleiðingarinnar var gífurleg ánægja foreldra auk sýnilegs faglegs ávinnings með það tilraunaverkefni sem unnið var á vegum frístundamiðstöðvarinnar Miðbergs í Breiðholti á árunum 2000 til 2002. Markmiðið var að efla starf frístundaheimilanna með þeirri hugmyndafræði sem fagstarf á vettvangi frítímans byggir á. Einnig var leitað til fyrirmynda frá öðrum Norðurlöndum til stuðnings við uppbyggingu starfsins. Frístundaheimilin eru hluti af starfsemi frístundamiðstöðvanna sem starfræktar eru í hverjum borgarhluta Reykjavíkurborgar. Í frístundamiðstöðvunum er markvisst unnið að því að efla starf frístundaheimilanna og styðja við fagvitund starfsmanna. Með því að færa frístundaheimilin yfir til skólanna væri í raun verið að segja að ekki sé pólitískur vilji fyrir því að unnið sé með börn sérstaklega á vettvangi frítímans heldur sé meiri hagur í því að samnýta starfsfólk skólanna óháð því hver fagvitund þeirra sé á starfi með börnum í frítímaþjónustu. Að lokum má nefna að menning frístundastarfs og skóla er ólík og ekki að ástæðulausu að starfandi er deild innan Háskóla Íslands sem byggir á að mennta fólk í þeim fræðum sem notuð eru á vettvangi frítímans.


þriðjudagur, 1. febrúar 2011

Sönn menningarverðmæti

Músíktilraunir Tónabæjar og Hins hússins eru mikil menningarverðmæti. Þegar að maður kíkir á listann yfir hljómsveitir sem hafa unnið keppnina frá upphafi þá sér maður hvílík menningarfabrikka keppnin er. Allt frá „sítt að aftan“ Greifarnir yfir í harðkjarnarokk hljómsveitarinnar Mínus og allt þar á milli. Músíktilraunir eru frábær vettvangur sem hefur hvatt mörg bönd til dáða og ekki síst komið efnilegu ungu tónlistarfólki á framfæri. Keppnin hefst í mars og ef að líkum lætur verður þar margt efnilegra banda.

Listi yfir hljómsveitir sem hafa sigrað í Músíktilraunum frá upphafi.

1982 – Dron, 1983 – Dúkkulísurnar, 1984 - Keppni féll niður vegna verkfalls kennara, 1985 – Gipsy, 1986 – Greifarnir, 1987 – Stuðkompaníið, 1988 – Jójó, 1989 – Laglausir, 1990 - Nabblastrengir (Umbilical cords), 1991 - Infusoria (Sororicide), 1992 - Kolrassa Krókríðandi (Bellatrix), 1993 – Yukatan, 1994 – Maus, 1995 - Botnleðja (Silt), 1996 – Stjörnukisi, 1997 - Soðin Fiðla, 1998 – Stæner, 1999 – Mínus, 2000 - XXX Rottweiler hundar, 2001 – Andlát, 2002 – Búdrýgindi, 2003 – Dáðadrengir, 2004 – Mammút, 2005 – Jakobínarína, 2006 - The Foreign Monkeys , 2007 - Shogun. 2008 - Agent Fresco
2009 - Bróðir Svartúlfs. 2010 - Of Mosters and Men

þriðjudagur, 25. janúar 2011

Glórulaus sérhagsmunapólitík


Heldur er það sorglegt að fylgjast með kjaraviðræðum þessa daganna. Og lægst rís þetta með ótrúlega ósmekklegum málflutning framkvæmdastjóra SA sem er í einhverju pólitísku handlangi fyrir tiltölulega fámenna sérhagsmunaklíku sem oftast er nefnd LÍÚ. Það er einstaklega óviðeigandi af hálfu SA að stilla málum upp með þeim hætti að ekki verið samið nema gengið verði frá hinu afar umdeilda og ósanngjarna fiskveiðikerfi áður og þá væntanlega í samræmi við ýtrustu sérhagsmuni LÍÚ.

Við svona rugli er aðeins eitt svar
og það er að vísa deilunni umsvifalaust til sáttasemjara. Íslensk láglaunapólitík er félagslegt böl sem er ekki síst tilkomin vegna sérhagmuna í íslensku samfélagi eins og þeirra sem formaður SA talar fyrir og ætlast greinilega til að festir verði í sessi sbr. grímulausar hótannir í garð launafólks. Var lengi í þessum bransa og mann sannast sagna ekki eftir eins ósmekklegum málflutning og SA viðhefur þessi dægrin.

laugardagur, 22. janúar 2011

Wonderful Copenhagen

Hef starfa minna vegna verið mikið á ferðinni í gegnum árin. Sérstaklega þegar að ég gegndi formennsku í Samtökum norrænna félagsmiðstöðva. Og oft lá leiðin í gegnum Kaupmannahöfn hina ókrýndu höfuðborg Norðurlanda og ekki síst fyrrum höfuðborg okkar Íslendinga. Borgin er stórborg í mörgu tilliti s.s. menningarlegu, þó svo að hún teljist ekki stór miðað við mannfjölda.

Þegar að ég er í Kaupmannahöfn þá gisti ég nær undantekningarlaust á Saga Hótel sem er ódýrt 2 stjörnu hótel við Colbjörnsgötu sem er í næsta nágrenni við Hovedbanegården. Hótelið er fjölskyldufyrirtæki. Það var fyrir einskæra tilviljum að ég komst í samband við þetta hótel en Danska Samfés, Ungdomsringen, bjó við sérkjör fyrir sitt fólk, kjör sem ég gekk inn í fyrir margt löngu og hafa staðið mér til boða alla tíð síðan. Hótelið lætur lítið yfir sér, er laust við allan lúxus, er þrifalegt og býður upp á ágætis herbergi með fínum rúmum, góðri hreinlætisaðstöðu og lipurri þjónustu. Ég hef ávallt reynt að halda ferðakostnaði í lágmarki hvort sem ég ferðast á eigin vegum eða annarra en í þeirri viðleitni minni er hótelkostnaður oft Þrándur í götu og fátt finnst mér verra en að eyða umtalsverðum upphæðum í slíkt.

Í Kaupamannahöfn skiptir engu máli hvaða dagur er því öll kvöld ársins er hægt að finna góða tónleika nánast fyrirvaralaust í miðborginni og víðar ef því er að skipta. Fyrir okkur sem höfum gaman af blues og jazz þá er Blúsklúbburinn Mojo (www.mojo.dk) i Løngangsstræde (rétt við Strikið) alltaf með eitthvað skemmtilegt í gangi og sama má segja um Jazzhouse ( www.jazzhouse.dk ) á Niels Hemmingsens Gade sem einnig liggur við Strikið. Þar að auki er fjöldi annarra staða í miðborginni sem bjóða upp á lifandi tónlist. Það þarf ekki að gera annað en taka góðan göngutúr um miðbæinn og nánast tryggt að fólk finnur eitthvað við sitt hæfi.