mánudagur, 21. mars 2011

I left my heart in San Francisco

“Komdu þá endilega með á tónleika hjá okkur í kvöld, við munum spila á sjúkrahúsi hér í útjaðri borgarinnar” sagði Juhanni stjórnarmaður í UFN (Samtökum norrænna félagsmiðstöðva) við mig.  Ég var nýkomin til Helsinki og  hafði sagt honum að ég hefði ekkert sérstakt á prjónum þetta tiltekna fimmtudagskvöld. Samkvæmt venju var stjórnarfundur UFN á dagskrá kl 13.00 næsta dag.
Ekki slæmt að lenda á tónleikum hjá lúðrasveit samtaka Finnskra félagsmiðstöðva, hugsa ég með mér. Þetta er áhugamannasveit sem leikur víða og gjarnan á ýmsum stofnum.

Heldur var bandið dapurt, trommarinn átti í mesta basli með taktinn og það vantaði allt “grúv” í bandið. En samt sem áður voru áheyrendur allir sem einn himinlifandi og þegar að sveitin lék lagið “I left my heart in San Francisco”, gamlan “standard” sem vinsæll var á stríðsárunum, þá féllu víða tár. Veit sem var að það var ekki vegna tónlistarflutningsins.Var staddur á hersjúkrahúsi og í salnum voru 200 -300 manns – allt karlmenn frá aldrinum 65 + og upp úr, mismunandi mikið fatlaðir og áttu það allir sameignlegt að hafa verið sendir á vígvöllinn sem kornungir menn eða réttara sagt sem unglingar og hafa í raun aldrei komið heim eftir stríðið. Mér varð það skyndilega ljóst að tala fallinna segir ekkert þegar styrjaldarátök eru annars vegar. Hér (1997) rúmum 50 árum eftir stríðslok blasa en við hinar hörmulegu afleiðingar seinni heimsstyrjaldarinnar. Mér varð það einnig ljóst að hér voru sögur hinna óþekktu hermanna saman komnar og ekki síst þvílík firring og sóun stríðsátök eru. Hvað höfðu þessir menn eiginlega til saka unnið?

Enginn lýsir þessu tilgangsleysi betur en hinn stórkostlegi finnski rithöfundur Väinö Linna í bók sinni “Óþekkti hermaðurinn” sem fjallar um örlög hermanna í finnska vetrarstríðinu. Bókin ætti að vera öllum og sérstaklega ungu kynslóðinni skyldulesning.

Áhrifamestu tónleikar sem ég hef nokkru sinni farið á – varð ekki samur maður á eftir - erfitt en lærdómsríkt – varð þarna ljóst hvílíka gæfu við íslendingar búum við að hafa lent að sem mestu leyti utan þessa hildaleiks sem seinni heimstyrjöldin var. Verð Juhanni vini mínum ávallt þakklátur fyrir boðið.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli