sunnudagur, 11. desember 2005

Verkin tala

Er auðvitað raunin þegar að laun eru annarsvegar. Stefna launanefndar sveitarfelaga er klár láglaunastefna sem ekki hefur tekið nokkurt viðmið af ríkjandi góðæri. Viðbrögð nokkurra bæjarstjóra vegna kjarasamninga Reykjavíkurborgar vekja furðu og viðbrögð frá samtökum atvinnulífsins og ekki sist varaformanns fjárlaganefndar Alþingis eru sorgleg. Málflutningur gagnvart borgarstjóra, úr þeim ranni, þessa daganna er með eindæmum og þeim hætti að það jaðrar við einelti.

Átti þjóðarsáttin og þær fórnir sem verkalýðshreyfingin færði í þeim efnum og sá ávinningur er þessar fórnir skópu einungis að fara til fárra útvaldra í samfélaginu? Eru það þessi gildi sem vinnuveitendur hanga á eins og hundar á roði?

Fólk þarf ekki nema að kíkja í launaumslagið sitt til þess að upplifa grjótharða láglaunastefnu. Orð breyta engu þar um því verkin tala. Að slá skjaldborg um slíka stefnu er því fyrst og fremst spurning um viðhorf til þess ágæta starfsfólks er vinnur af dugnaði og trúmennsku hjá bæjarfélögum.

Láglaunastefna er félagslegt böl. Þess vegna segi ég húrra fyrir borgarstjórnum í Reykjavík sem hafði þor og getu, einn stjórnmálamanna, til að takast á við þann napra raunveruleika, hina grjóthörðu láglaunastefnu sem launafólk hefur búið við til fjölda ára og það þrátt fyrir “góðæri”. Það var sannarlega orðið tímabært að taka til hendinni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli