þriðjudagur, 6. desember 2005

Af vegferð

Er ekki á sömu leið og Samfylkingin í Hafnarfirði um þessar mundir þó svo að ég teljist til félagsmanna. Sérstaklega á þetta við þegar að litið er til praktíserandi launastefnu bæjarins sem ég hef verið afar óhress með. Er afar sár yfir þeirri stöðu sem upp er komin í kjaramálum og gerir bæjarfélagið að einu helsta láglaunasvæði landsins. Hef reyndar haft áhyggjur um nokkra hríð af ýmsum tiltökum manna hér í bæ á sviði kjaramála sem ég hef talið víðs fjarri þeirri félagshyggju sem ég hélt að Samfylkingin kenndi sig við. Margt af þessu hef ég fjallað efnislega um hér í dagskinnunni og fjölyrði ekkert frekar um að sinni, að öðru leyti en því að flest hefði betur verið látið algerlega ógert af hálfu bæjarins og margt var ekki gert sem hefði verið nauðsynlegt að gera af hálfu sömu aðila.

Menn verða að rölta í sömu átt og með sama markmiði til þess að kallast samherjar en á það skortir verulega þessa daganna. Hef bæði í ræðu, riti og persónulegum samtölum reynt að hafa áhrif á kúrsinn en því miður með afar takmörkuðum árangri. Oftast hafa stjórnmálamenn vísað málum umyrðalaust til launanefndar sveitarfélaga og afsalað sér öllum áhrifum í jafn mikilvægum málaflokki og hér um ræðir.
Niðurstöður eru dapurlegar sem endurspeglast í grjótharðri láglaunapólitík sem sífellt verður augljósari, launapólitík sem hinir kjörnu fulltrúar bera auðvitað ábyrgð á.

Það er því auðvitað ekkert annað í stöðunni hjá undirrituðum en að staldra við um nokkra stund, hvíla lúin bein og hugsa sinn gang í víðasta skilningi þess orðs? Verð auðvitað að velta fyrir mér hvort röltið þjóni hagsmunum þess hóps sem ég er að vinna fyrir. Þykir það nokkuð ósennilegt að svo sé þessa daganna miðað við stöðu mála.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli