fimmtudagur, 10. nóvember 2005

Óeirðir í Frakklandi

...og svo halda menn að þetta séu „innflytjendurnir” sagði Joelle samstarfsmaður minn innan fulltrúaráðs evrópskra bæjarstarfsmanna EPSU, aðspurð um ástandið í Frakklandi um þessar mundir. Vorum að ræða þetta nokkrir fulltrúar eftir fund s.l. þriðjudag í EPSU, en sjálf býr Jóelle í úthverfi í norður París.

...og áfram hélt hún „ráðherra sem líkir fólki við hunda, þar sem atvinnuleysi ungs fólks er 40 %, þar sem skólar eru yfirfullir, þar sem samdráttur í félagsþjónustu er alger , þar sem möguleikar á vettvangi frítímans eru engir og allt slíkt aflagt, þar sem leigu- og íbúðarverð er hátt og þar sem ríkir almenn fátækt og ómegð.”
Í vonleysinu og „kaótíkinni” þrífst margt sem miður er en hefur akkurat ekkert með innflytjendur að gera enda flestir sem málið snertir barnfæddir Frakkar. Reiðin í öllu þessu vonleysi orðin alger og stjórnlaus.

Ein ummæli ráherra fylltu mælinn og allt varð vitlaust. Kjarni málsins snýst um afar illa stadda lágstétt í miðju góðæri, snýst um afskipta- og úrræðaleysi stjórnvalda til margra ára gangvart ungu fólki, snýst um réttlætiskennd og ekki síst snýst um misheppnaða pólitík.

Franski félagsfræðingurinn Durkheim myndi sennilega segja að óréttlætið í Frönsku samfélagi hafi verið orðið slíkt að lengra hefði ekki verið komist, ríkjandi staða því splundrast og ekkert annað að gera en að raða hlutum upp á nýtt og í samræmi við þarfir allra þegna samfélagsins en ekki bara sumra. Dæmi um slíkt voru stúdentaóeirðirnar 68 sem fyrst og fremst voru barrátta gegn ríkjandi en óréttlátum gildum samfélags þess tíma. Sama uppi á teningnum núna árið 2005 ? – Sennilega, segja margir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli