þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Skólaliðar eru líka fólk

Barst hið undarlegasta bréf, verð ég að segja. “Verkferlar í eldhús og í matsal grunnskólum Hafnarfjarðar” ( þar sem SS matur er). Bréfið merkt Sláturfélagi Suðurlands sem mér vitnanlega hefur ekkert boðvald yfir starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar en var engu að síður afhent skólaliðum í tilteknum skóla hér í bæ. Í bréfinu er skólaliðum skipað út og suður í ýmis viðvik sem ekki eru á verksviði þeirra enda meira í ætt við störf matráða sem njóta annara og mun betri kjara en skólaliðar.

Ekki veit ég hvort þetta sé gert í vitorði eða í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ en ef svo er þá verður ekki annað séð en að bæjarfélagið stundi einhverskonar starfsmannalána- eða leigustarfsemi þ.e. að bæjarfélagið semji við eitthvert fyrirtæki út í bæ um að ráðstafa starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar ? Sem er auðvitað afar slæmt enda ekkert verið rætt við starfsfólk um slíkt. Ekki verður sé að þessi gríðarlegu aukastörf eigi að launa eitthvað sérstaklega nema síður sé?

Það er algerlega út úr korti að eitthvert fyrirtæki út í bæ skundi með einhverjar starfslýsingar inn í skóla bæjarins og skipi málum þvert ofan í gildandi kjarasamninga, m.a. um starfsmat, sem kveður á um tilteknar starfslýsingar skólaliða sem eru ekki í neinu samræmi við verkferla SS. Skólaliðar hafa auk þess nú þegar nóg að gera í sínum daglegu störfum og ekki eru launin til að hrópa húrra fyrir.

Í þessu máli er svo sannarlega byrjað á vitlausum enda og með hætti sem engum er samboðinn. Ef þetta starf á að vera á verksviði skólaliða þá þarf að breyta starfsheitum þeirra, hið nýja og breytta starf þarf að meta og greiða laun í samræmi við það eða þá það að ráða fólk sérstaklega sem matráða. Grundvallaratriðið er auðvitað að fjölga fólki með aukinni þjónustu.

Allt er þetta hið undarlegasta mál - velti fyrir mér hvers vegna mætir fyrirtækið ekki bara með sinn eigin mannskap sem tíðkast víðast hvar þar sem verktakar sjá um skólamáltíðir.

Ef kennarar hafa fengið bætt fyrir ýmsar breytingar í starfi og starfsumhverfi skólanna, sem er auðvitað gott mál, af hverju gildir þá ekki hið sama fyrir aðra starfsmenn skólanna - Veit það ekki en svar óskast!
Eitt er þó algerlega víst sem er að það verður að vinda ofan af þessari vitleysu og koma málum í sæmandi horf - Skólaliðar eru líka fólk.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli