Þannig hagar til að vinnustaður minn er gengt nýlegri byggingu Héraðsdóms Reykjaness við Linnetstíginn í Hafnarfirði. Tilkoma dómsins hefur breytt ýmsu, því að í stað frábærs útsýnis þá hefur annað sjónarspil tekið við.
Sem eru mannanna sorgir og gleði, allt eftir því hvernig lyktir mála hafa orðið í dómsmálum viðkomandi. Jakkafataklæddir menn staldra við fyrir utan dóminn og ræða málin í góðu tómi , aðrir er ögn háværari og einhvern tímann heyrði ég menn senda hvorum öðrum tóninn af nokkrum ákafa og hávaða.
Lögreglubílar, menn með hulin andlit og sjónvarpsmyndavélar verða hluti hverdagsins. Undirmálsmenn hírandi undir gafli á köldum vetrarmorgnum, staupandi sig áður en farið er í dómsal. Góðkunningjar lögreglunar niðurbrotnir í smók eftir dómsuppkvaðningu og á slíkum stundum oft í samtölum við ungan blaðamann DV sem virðist vaka yfir réttinum og því sem þar fer fram.
Þrátt fyrir skertan sjóndeildarhring vegna þessar byggingar Héraðsdóms þá er ég ekki nokkrum vafa um að hinn eiginlegi sjóndeildarhringur hafi víkkað til muna og sé nú að einhverju leyti mun víðari en áður var.
Um dóma les maður í blöðum og þeir snerta mann misjafnlega. Hitt er öllu áhrifaríkar og sorglegra sem er að sjá hluta þess harmleiks sem átt hefur sér stað og leitt til dómsmálsins. Þolendur og gerendur, allt er þetta fólk af holdi og blóði
Með þúsund kall í annarri hendinni og Biblíuna í hinni hendinni að aflokinni afplánun á Litla Hraun eins og Lalli Jons birtist okkur í samnefndri heimildarmynd er auðvitað bara ávísun að annan hring í dómskerfinu.
Velti fyrir mér málefnum síbrotamanna sem flestir hverjir eiga við veruleg vandamál af andlegum toga að etja og nánast undantekningarlaust eru viðkomandi einnig langt gengir vímuefnaneytendur. Velti fyrir mér hvort dómskerfið sé hinn eiginlegi vettvangur eða hvort einhverjir aðrir kostir sé bæði samfélaginu og viðkomandi einstaklingum betri - Veit það ekki - efast samt sem áður oft um hvort „Betrunarvist" sé oft á tíðum í raun betrunarvist?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli