sunnudagur, 12. júlí 2015

Er björt framtíð í æskulýðsmálum í Hafnarfirði?



Hef verið að kynna mér „tillögur“ um skipan æskulýðsmála í okkar ágæta bæjarfélagi, Hafnarfirði. M.a. skýrslu sem finna má á  vef bæjarins.  „Tillögur“ er auðvitað rangnefni þar sem að um einni og hálfri klukkustund eftir að tillögur þessar í æskulýðsmálum voru fyrst gerðar opinberar á sérstökum auka bæjarstjórnarfundi 29. júní s.l. var búið að samþykkja æskulýðshluta skipulagsbreytinga bæjarfélagsins og það án nokkurra umræðna, samráðs eða aðkomu þeirra sem í geiranum starfa, ungmennum í ungmennaráði Hafnarfjarðar og eða bæjarbúum almennt. Og þegar að þetta er skrifað er búið að segja nokkrum fjölda lykilstarfsmanna í æskulýðsmálum upp störfum. 


Þessi atburðarrás er sennilega einsdæmi og svo sannarlega ekki til eftirbreytni endu ku alsiða að kynna mál ítarlega með góðum fyrirvara auk þess sem slíkar grundvallarbreytingar kalla á tvær umræður í bæjarstjórn. Starfsmannapólitíkin er svo auðvitað kapítuli út af fyrir sig.Textinn um æskulýðsmál er afar rýr en aðleiðingar miklar, niðurskurður og uppsagnir. Ekki verður annað séð en að þessi grundvallarbreyting byggi á eftirfarandi.

Fáar línur og innihaldið eftir því
 „… Verkefni íþróttadeildar og forvarna - og tómstundadeildar verði færð undir (ekki til – innskot ÁG) fræðsluþjónustu.

Lagt er til að öll verkefni íþróttadeildar og forvarna - og tómstundadeildar utan félagsstarfs aldraðra verði færð undir fræðsluþjónustu. Tillagan er rökstudd bæði út frá faglegum og rekstrarlegum sjónarmiðum. Fram kom í greiningu að nokkuð vanti upp á samstarf og samspil á milli grunnskóla og frístundaheimila.

Stjórnendur skóla og frístundaheimila séu að skipuleggja starfið í kringum hvern annan en frístundaheimilin eru inn í húsnæði grunnskólanna. Það verður að teljast eðlilegt að verkefnin hafi sömu yfirstjórn og einn stjórnanda innan skólans sem verði skólastjóri. Þannig verði tryggt enn frekar að starfsfólk, húsnæði og aðrir fjármunir nýtist sem best."  (Capacent - Hafnarfjarðarbær - Úttekt á rekstri og stjórnskipulagi bæjarins, bls 211).

Spurning á hvern hátt þessi klausa samræmist almennu æskulýðsstarfi og markmiðum í þeirri starfsemi? Er starfsemi frístundaheimila og félagsmiðstöðva framhald eða hluti af almennu skólastarfi, ef svo er, er það ekki réttast að setja skylda starfsemi eins og t.d starfsemi skáta og félagasamtaka undir hatt skólanna? Og eða leikskólana sem eru í næsta nágrenni. Ennfremur segir:

"Skólastjórnendur sjá tækifæri í því setja rekstur frístundaheimila og félagsmiðstöðva undir skólana. Það gæti verið leið til að auka samfellu á starfinu og ná fram heildstæðari þjónustu fyrir börnin. Boðleiðir í þessum efnum geta verið fulllangar þar sem sérstakir verkefnastjórar eru yfir frístundaheimilunum á öðru sviði. Nefnt var að skólar bæjarins hafi tekið upp SMT agakerfi en það geri frístundaheimilin ekki. Þá séu tækifæri til að efla fræðsluhlutverk frístundaheimilanna." (Capacent - Hafnarfjarðarbær - Úttekt á rekstri og stjórn- skipulagi bæjarins – Greiningarhluti, bls 75)

Spurt er?
Fyrir mig sem bæjarbúa, einlægan áhugamann um velferð æskunnar og sérfræðing í æskulýðsmálum er leitt að horfa upp á þessa stjórnkerfisvitleysu sem ekki er hægt að orða með öðrum hætti en að um sannkallaða fúskvæðingu málaflokksins sé að ræða, afturhvarf um ca 35 ár. Varpa af þessu tilefni fram eftirfarandi spurningum til forseta bæjarstjórnar, formanns bæjarráðs og skýrsluhöfunda.

Ég velti í fyrsta lagi fyrir mér hvaða sérfræðingar á sviði æskulýðsmála (s.s. tómstunda- og félagsmálafræðingar / félagsuppeldisfræðingar) komu að gerð skýrslunnar/ tillagnanna? Í öðru lagi hvers vegna félagstarf aldraðra er aðskilið öðru félagsstarfi? Í þriðja lagi  þá finn ég hvergi faglegan  rökstuðning fyrir þessu breytingum sem þó er sérstaklega vísað til í skýrslunni?  Í fjórða lagi hvaða sérþekkingu hafa skólastjórar á  sviði tómstunda- og félagsmálafræða? Í fimmta lagi á agastjórnunarkerfi skólanna að marka alla tilveru barna og ungmenna og hvernig getur slík verið ástæða til grundvallarbreytinga í æskulýðsmálum bæjarfélagsins? Í sjötta lagi eiga ungmenni sem af einhverjum ástæðum tekst ekki að aðalaga sig agavaldi skólans að gjalda þess í frítíma sínum?  Í sjöunda lagi hve mikið hækka launum skólastjóra samkvæmt ákvæðum í kjarasamningum þeirra vegna þessara breytinga? Í sjöunda lagi  hvort einhver getur sagt mér hvaða „fag“  eða hlutverki fagstjóri frístundamála hefur eins og fram kemur í skipurriti varðandi verkefni æskulýðs- og íþróttafulltrúa, er ekki hepplegast að slíkur starfsmaður sjái um rekstur og stjórnun frístundamála eins og verið hefur? 

Svona mætti lengi spyrja en verður ekki gert að sinni hvað sem síðar kann að verða. Það þarf vart að fjölyrða meira um þessar tillögur, samþykkt þeirra veldur því að það virðist  engu líkara en að það sé einlægur ásetningur bæjaryfirvalda að koma sér hratt og örugglega í ruslflokk á sviði æskulýðsmála – hér er um að ræða fúsk sem hvorki vel menntað og vandað starfsfólk í málflokknum og æska bæjarins á skilið. Er björt framtíð í æskulýðsmálum í Hafnarfirði? Nei því miður, hér hefur svo sannarlega,illu heilli, myndast verulegt rými til framfara.

Árni Guðmundsson M.Ed félagsuppeldisfræðingur,
Rannsóknarstofu í Bernsku og æskulýðsfræðum
Tómstunda-og félagsmálafræðideild Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 8.júlí 2015 www.fjardarposturinn.is 


fimmtudagur, 2. júlí 2015

Þetta er því miður ekki Hafnarfjarðarbrandari

Þetta er því miður ekki Hafnarfjarðarbrandari. Capacent að missa sig í "ráðgjöfinni" samkvæmt meðfylgjandi mynd úr skýrslu um rekstur Hafnarfjarðarbæjar og enn furðulegra að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkt þessa ótrúlegu vitleysu.

Samkvæmt mínum upplýsingum var aldrei rætt einu orði við starfsmenn ÍTH (Íþrótta- og tómstundaráðs Hafnarfjarðar) um fyrirhugaðar breytingar sem komu þeim algerlega í opna skjöldu og viðkomandi fengu aldrei tækifæri til þess að tjá sig um breytingarnar. Í þeim hópi eru afburðar gott fagfólk, reynslumikið, vel menntað, virt og metnaðarfullt sem haldið hefur út góðu starfi við erfiðar aðstæður en samkvæmt þessu augljóslega lítinn skilning. Það leið ca 1,5 klukkustund frá því að fólki barst þetta fyrst til eyrna, í tengslum við auka bæjarstjórnarfundi sem haldin var s.l. mánudagsmorgun 29/6,  þar til þetta rugl var samþykkt umræðulaust og algerlega einhliða af meirhluta bæjarstjórnar.

föstudagur, 22. maí 2015

Af íslenskri framleiðni og hinu alræmda kaupgjaldi



Allar hagstæðir í íslensku samfélagi hvíla á herðum þeirra sem minnst hafa – Hugtakið framleiðni er t.d. núorðið nánast alfarið á ábyrgð þessa hóps og þá varðað þeim fordómum að íslenskt launfólk sé verkminna og eða latara en launafólk í öðrum löndum? Framleiðni ku vera lág og því ekkert ráðrúm til að hækka íslenskt kaupgjald úr verulega lágu upp í lágt.

Framleiðni er í sinni einföldustu mynd skilgreind sem fjöldi eininga af afurðum sem hægt er að vinna úr einni einingu af aðföngum og kjarni málsins er hversu mikið er hægt að fá út úr einni einingu í framleiðslu. Í þessum efnum eru laun bara einn þáttur – handónýtur gjaldmiðill,  fyrirtækjatengsl, vaxtaokur o.fl  hafa sennilega mun  meiri áhrif en „kostnaður“ af íslenskri láglaunapólitík. Í umræðunni, ekki síst hvað varðar kjaramál, er ábyrginni nánast alfarið vísað á launafólk? Að framleiða fúlleggjasallad hefur sennilega litla framleiðni í för með sér algerlega óháð vönduðu og eða rösku vinnuframlagi starfsmanna.

Framleiðnihugtakinu má á sama hátt hæglega  beita hvað varðar eininguna fjármagn eða peninga þar  sem ávöxtun þess/þeirra yrði mælikvarðinn þ.e.a.s. hversu mikilli ávöxtun skilar ein eining, t.d. ein króna, eiganda sínum. Í þeim efnum er framleiðni hérlendis verulega góð sem ætti þá að þýða að fjármagnseigendur séu mjög duglegir? Dugnaðurinn þá fólgin í viðvarandi vaxtaokri og háum arðgreiðslum?

Maður hlýtur að spyrja sig um hið „lata“ launafólk og hina dugmiklu fjármagnseigendur? Hugtakið framleiðni er til margra hluta nytsamlegt, ekki síst sem skálkaskjól í þrotlausri baráttu SA fyrir áframhaldandi grjótharðri láglaunapólitík hérlendis. Slíkt er ekki boðlegt, ekki síst í samfélagi þar sem allar hagstærðir hvíla afar lágum og óverðtryggðum launum, grunni hinnar grjóthörðu sér íslensku láglaunapólitíkur sem er fyrir margt löngu orðin að félagslegu böli í íslensku samfélagi. Mikilvægasta viðfangsefni samtímans er að vinna bug á þessari meinsemd. Slíkt er í allra þágu ekki síst SA.

föstudagur, 6. febrúar 2015

Skessuhorn - Æskan er okkar fjársjóður


Þessi grein birtist í Skessuhorni 4. febrúar 2015 - Vangaveltur um fagmennsku á sviði æskulýðsmála í Borgarnesbyggð af gefnu tilefni.

Mikilvægasta verkefni hvers samfélags er uppeldi æskunnar hverju sinni. Samfélagið er flókið og margþætt og það er engin ein stofnun sem nær utan um uppeldi æskunnar í heild og í raun óraunhæft að gera kröfur til þess að svo sé. Til þess að vel megi fara þá þarf heildrænt skipulag sem byggir á fagmennsku og þeirri bestu þekkingu sem fyrir hendi er hverju sinni. Allt sem fram fer í samfélaginu kemur fram og myndgerfis í hinum margvíslegu félagslegu athöfnum mannsins, er grundvöllur og samnefnari fyrir þroska einstaklingsins sem á sér stað í samfélagi við aðra. Samfélagið og félagslegar athafnir þess eru grundvöllur uppeldis. Mikilvægastir eru foreldrarnir og fjölskyldan síðan koma stofnanir og eða starfsemi í nær umhverfi barna og ungmenna. Það þarf þorp til þess að ala upp barn og í því ljósi byggja flest sveitarfélag umgjörð sína, umfang og stefnu.

Við Menntavísindasvið (MVS) Háskóla Íslands er starfrækt Námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræðum (NTF). Fjöldi fólks hefur lokið BA prófi frá brautinni. Aðsókn í námið er með miklum ágætum og er brautin sú eining innan MVS sem vex hve hraðast. Nýútskrifaðir tómstunda- og félagsmálfræðingar eiga að öllu jöfnu auðvelt með að fá vinnu. Starfsvettvangur tómstunda- og félagsmálafræðinga er afar fjölbreyttur, s.s. félagsmiðstöðvar, frístundaheimili, íþróttafélög, grunnskólar, leikskólar, félagssamtök, á vettvangi forvarnarmála, meðferðarstofnanir, þjónustumiðstöðvar, félagstarf aldraðra og skrifstofur íþrótta- og tómstundamála m.m. Meginfræðasvið í tómstunda- og félagsmálafræði eru tómstundafræði, sálfræði, félagsfræði, félagsuppeldisfræði, siðfræði, verkefna- og viðburðarstjórnum ,útivist og ekki síst fagmennska og vettvangsnám. Lögð er áhersla á að nemendur verði færir um að stjórna, skipuleggja, framkvæma og meta tómstundastarf.

Nýverið var auglýst laust til umsóknar starf í félagsmiðstöðinni Óðal í Borgarnesi og samkvæmt auglýsingunni var óskað eftir starfsmanni með menntun á þessu sviði enda starfið eða störfin augljóslega þess eðlis. Nú brá svo við að eini umsækjandinn sem uppfyllti menntunarkröfur fékk ekki starfið? Slíkt verður að teljast undarlegt og má í raun líkja því við að við grunnskólann í Borgarnesi væru einungis ráðnir leiðbeinendur í stað kennara þó svo að menntaðir kennarar stæðu til boða? Slíkt yrði talið dæmi um metnaðarleysi og einhverskonar fúskvæðingu skólastarfsins. Sama á auðvitað við um hvað varðar ráðningu í jafn mikilvæga starfsemi og þá sem fram fer í félagsmiðstöðvum. Samkvæmt rannsóknum þá eru starfsmenn félagsmiðstöðva þeir aðilar sem ungmenni leita einna fyrst til ef þau eru í vanda. Forvarnarstarfsemi, leitarstarf og fyrirbyggjandi starfsemi félagsmiðstöðva lýtur fag- og fræðilegum forsendum. Slíkt starf er ekki á færi félagslyndra og ágætara ungmenna á menntaskólaaldri . Það er ábyrgðarhlutur af hálfu bæjarfélagsins fela viðkomandi ungmennum starf sem viðkomandi hafa hvorki aldur, þekkingu né menntun til þess að sinna og eða axla þá miklu ábyrgð sem störfum á þessum vettvangi fylgja. Slíkt er einungis gert með fagmennsku í hvívetna hvort sem litið er til einstakra ráðninga eða skipulags málaflokksins í heild. Á slíku hefur verið nokkur brestur ekki bara hvað varðar ráðningu þá sem hér er til umfjöllunar, hún er sennilega einkennandi fyrir stefnu í málflokknum í heild og all fjarri því ágæta starfi er bæjarfélagið stóð fyrir í æskulýðsmálum af myndaskap og fagmennsku til margra ára. Á þeim grunni hefði verið skynsamlegt að byggja í stað þeirra stefnu er sennilega kristallast í þeim ráðningamálum sem hér hafa verið gerð að umtalsefni. Æskan er okkar fjársjóður og það er ábyrgð okkar sem eldri erum að búa henni eins góðar aðstæður og uppeldisskilyrði og frekast er unnt.

föstudagur, 10. október 2014

Áfengi í matvörubúðir - Nei takk

Uppeldisleg markmið samfélagsins eins og standa vörð um æskuna og búa henni uppbyggilega umgjörð og heilbrigða uppeldisforsendur eru miklu mikilvægari viðfangsefni en áfengisala er lýtur ítrustu viðskiptasjónarmiðum matvöruverslana. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.

Danir státa af þeim vafasama heiðri að eiga heimsmet í unglingadrykkju. Er einhver ástæða til þess taka upp hér á landi svipað sölufyrirkomulag og þar ríkir? Er það að ganga inn í framtíðina? Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.

Matvöruverslunin á ennþá í hinum mestu brösum með sölu á tóbaki eftir að breytingar voru gerðar á sölufyrirkomulagi þess árið 1996! fyrir 18 árum. "Árangur" algerlega óviðunandi samkvæmt áralöngum könnunum. Börn og ungmenni eigi ekki í neinum teljandi vanda við að kaupa tóbak í verslunum.  Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.

Starfsfólk verslana er að stórum hluta ungmenni. 42% ungmenna 16-17 ára sem vinna með skóla starfa í stórmörkuðum og verslunum. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.

Í greinargerðinni með  Bónusvæðingar frumvarpinu í áfengismálum eru kaflar sem nefnast "Meint neikvæð" áhrif á neytendur ef smásala á áfengi er gefin frjáls" og "áhrif á neyslu".
Með öðrum orðum þá viðurkennir greinargerðarskrifari ekki, eða veit ekki af, eða hefur ekki kynnt sér fjölmargar rannsóknir sem sýna glögglega afar neikvæðar afleiðingar af því sölufyrirkomulagi á áfengi er frumvarpið gerir ráð fyrir. Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.


Afstaða landlæknis bæði skynsöm og 100% skýr - Áfengi í matvöruverslanir NEI TAKK.

...og svona mætti lengi telja.

Áfengi er ekki matvara - Áfengismál og stefna í þeim málflokki er spurning um velferðar- og  lýðheilsusjónarmið, ekki Bónusvæðingu og ítrustu viðskiptahagsmuni.

Sjá ennfremur : 
www.foreldrasamtok.is
https://www.facebook.com/foreldrasamtok



föstudagur, 21. febrúar 2014

Þú ert rekinn!

Fólki verður á, eða eins og engilsaxar nefna slíkt gjarnan "Shit happens". Oftast er hægt að fyrirbyggja langa og leiðinlega atburðarrás með því að segja afsakið í djúpri iðrun og lofa bót og betrun. Það er oft gert í almennum samskiptum, meðal venjulegs fólks, og reynist alla jafna vel. Slíku er ekki að skipta ef  maður er ráðherra, stjórnmálamaður eða forsvarsmaður fyrirtækis. Þannig fólki verður einfaldlega ekki á og ef slíkar brigður eru bornar á viðkomandi þá er slíku samstundis vísað á bug ...eða til vara bent á annan.

Þetta hefur ekki gefist vel eins og dæmin sanna. Að kenna saklausu starfsfólki um nautakjötsleysi í nautakjötsbökum gerði sig ekki. Að verða þrí- eða fjórsaga um einhvern bankaskatt var klaufalegt, að gjör klikka á gagnaöryggi eins og Vodafon gerði er sorglegt, svo ekki sé minnst á, eins og frægt er orðið, leka á viðkvæmum gögnum úr ráðuneyti að virðist af sjálfsdáðum, sem er afleitt. Mörg önnur dæmi mætti nefna af nægu er að taka.

Ástandið  er ekki gott. Staðan einfaldlega þessi að viðkomandi munu algerlega óháð efnisatriðum neita eða vísa frá sér öllu sem kallast ábyrgð eða mistök og í engu hvika. Í þessu liggur nokkur vandi og hann þarf að leysa.

Þar sem eru þarfir þar er bísness bendir frjálshyggjan réttilega á og því réttast að nýta aðferðir þeirrar hugmyndafræði við lausn þessa aðkallandi vanda. Það er allt fyrir hendi, hér er tækifæri, eftirspurn og ekki síst djúp þörf. Það er nauðsynlegt að stofna tafarlaust hlutafélag, einhvers konar embætti, í samvinnu Ríkistjórarinnar og Samtaka atvinnulífsins , embætti "rekins" eða embætti  "axlanda ábyrgðar". Viðkomandi myndi að öllu jöfnu una hag sínum vel í fálæti t.d. í höfuðstöðvum SA en þegar að á þyrfti að halda myndi axlandinn taflaust mæta þar sem hans er þörf hverju sinni og inna af hendi starf sitt af stakri fagmennsku.

Hann hefði átt að vera í Borgarnesi, sem verkstjóri í nautabökudeildinni, grátandi og viðurkennt mestu mistök lífs síns þ.e. að hafa gleymt að setja nautakjötið út í bökurnar, biðja fólk afsökunar, hann væri bara venjulegur fjögurra barna faðir sem væri að bíða eftir lánaleiðréttingum og sér hefðu orðið á hræðileg mistök. Í kjölfarið hefði  forstjórinn svo auðvitað rekið hann því einhver verður á axla ábyrð.

"Axlandinn" hefði einnig  verið tilvalin ráðgjafi efnahags- og viðskiptanefndar varðandi bankaskattinn. Í því tilfelli hefði formaður nefndarinnar átt að segja í viðtölum strax og það mál kom upp  " Hvað segir þú, er þetta virkilega svona? ég hélt að þessi maður væri fagmaður fram í fingurgóma" og síðan mjög alvarlega  "þessi endurskoðandi er algerlega óhæfur". Í kjölfarið hefði axlandinn stigð fram iðrandi og rakið ættartengsl sín við stjórnendur viðkomandi banka og borið fyrir sig mannlegum breyskleikum eins og sívaxandi drykkjuskap samhliða miklum sambúðarvandamálum. Formaðurinn rekið viðkomandi á staðnum með tilþrifum, enda málið alvarlegt og hann því einnig séð til þess að axlandinn yrði sviptur löggildum endurskoðendaréttindum "sínum".

Hann hefði afstýrt miklu klúðri hjá Vodafon. Hlutverk hans þar hefði verið sem virðulegur en tekin "gagnaöryggisstjóri" fyrirtækisins. Hann sem slíkur hefði byrjað á því að flýja land strax eftir að gögnunum var rænt frá Vodafon, hefði samt fljótlega fundist  á ódýru hótelherbergi í Kaupmannahöfn. Athyglin fyrst um sinn yrði öll á hinum horfna tæknistjóra sem auðvitað væri sá eini sem kann á þessu skýringar. Með "hvarfinu" vinnst dýrmætur tími, tveir þrír dagar. Ný fundin og aðspurður myndi "tæknistjórinn" fara með tækiorðarommsu sem ekki væri á færi hæfustu sérfræðinga að skilja, en ljóst væri af mæli hans þar sé að finna meginskýringuna en hins vegar geti hann ekki horft fram hjá því að nýi conponeta deilirinn  olli straumhverfingu sem ekki var við ráðið og því fór sem fór. Á því bæri hann fulla ábyrgð væri miður sín, sjokkeraður og hefði skroppið til Kaupmannahafnar til þess að öðlast innri ró og átta sig á hvað hefði farið úrskeiðis. Það væri mikill misskilningur og alrangt eins og haldið hafi verið fram að hann væri á flótta. Að þessu sögðu hefði hann verið rekinn enda ljóst að gagnaöryggi var undir hans stjórn afar ábótavant. Forsvarsmenn fyrirtækisins vilja auðvitað ekki hafa svona fólk í vinnu.

En af allra bestu gagni kæmi hann núna þessa daganna sem tilvonandi fyrrverandi fulltrúi í Innanríkisráðuneytinu. "Axlandinn" myndi hringja í DV og játa lekann nafnlaust til að byrja með en strax næsta dag stíga fram og játa allt skýlaust. Lýsa yfir í örvilnan og að vonbrigði við að hafa ekki fengið aðstoðardeildastjórastöðuna í ISP merkingastaðladeild ráðuneytisins hafi verið mikil. Það hafi valdið honum andlegu ójafnvægi og sárri reiði. Til þess að valda yfirmanni ráðuneytisins sem mestum usla þá hafi hann  ákveðið, í hefndarskyni, að fyrirmynd Assange, að leka þessum upplýsingum. Hann sæi núna að mannauðsstjórn ráðneytisins væri eitt og réttlætti ekki lekann sem væri annað og öllu alvarlegra mál.  Hann vonaði að þessi mistök myndu ekki bitna á honum. Að þessu sögðu yrði hann síðan rekin með skít og skömm og málið dautt. Á þessum vanda er einnig önnur lausn sem er alls ekki við hæfi nema í algerum neyðartilfellum, en hún felst í því að einhver af þeim pólitísku tindátum sem starfa í efsta lagi ráðuneytisins tæki á sig ábyrgð á lekanum. Tindátinn yrði í framhaldinu um nokkra hríð í pólitísku skjóli, kælingu t.d. á flokkskrifstofu eða sambærilegri stofnun. Að hæfilegum tíma liðnum sprettur viðkomandi upp á ný í sambærilegum verkum í en í öðru ráðuneyti. Þetta er alls ekki gert nema í algerum neyðatilfellum enda ótvírætt veikleikamerki.

Hér hefur einungis verið minnst á örfá mál. Það nauðsynlegt, áður en af verður, að kanna markaðinn enn frekar þ.e. eftirspurnina. Hér er óplægður akur, arðsamur markaður, mikill bísness  og öll líkindi til þess að embætti "axlandana ábyrgðar" yrði deild mjög fljótlega - hver veit? Hitt er ljóst að allir fá sitt - stjórnmálamenn og stjórendur fyrirtækja óskeikulir með öllu, eins og verið hefur  og almenningur fær einhverskonar sorry og ekki síst þá undarlegur tilfinningu um að einhver sé í "raun" ábyrgur á marg- og fjölþættum "klúðrum" sem sannarlega eiga stað í stjórnsýslunni og viðskiptalífinu. Er hægt að biðja um meira?

mánudagur, 30. desember 2013

Allar íslenskar hagstærðir


Allar íslenskar hagstærðir hvíla á óverðtryggðum og afar lágum launum. Af þeim sökum er afar einfalt fyrir alla aðila aðra en launafólk að velta öllu hugsanlegu og óhugsanlegu út í verðlagið s.s ónýtri íslenskri krónu sem er í stöðugu gengisfalli, launabreytingum o.fl. Slíkt hefur verið gert og oft á tíðum afar ótæpilega. Eftir stendur kaupgjaldið sem fellur algerlega óbætt hjá garði . Af þessum sökum er lítið traust milli launafólks og Samtaka atvinnulífsins (SA) og hefur verið svo um langa hríð. SA nennir ekki lengur að eiga orðastað við launafólk í landinu eða fulltrúa þess nema í gegnum rándýrar áróðurs- og auglýsingarherferðir.

Það er vitlaust gefið, forsendur kjarasamninga byggja á ósanngirni og fullkomnu ójafnræði milli aðila. Þetta er ávísun á ævarandi átök og mun ekki breytast fyrr en forsendur kjarasamninga byggja á jafnræði milli aðila. Slíkt verður ekki gert nema með því að annað hvort afnema vísitölubindingu með öllu en ekki bara kaupgjalds eins og nú er eða vísitölubinda allar hagstæðir. Þar til slíkt verður gert er allt sem miður fer í íslenskum efnahagsmálum á kostnað launafólks og myndar þar með grundvöll hinnar grjóthörðu séríslensku láglaunastefnu.

Á slíkt er ekki bætandi. Kjarasamningar hvers meginforsendur eru þær að þeir sem litla sem enga ábyrgð bera, eða hafa sýnt, lofa bót og betrun, halda einfaldlega ekki (og hafa ekki haldið). Þetta minnir óþægilega mikið á það sem meðferðarbransinn kallar með réttu meðvirkni. Á slíku er ekki að byggja hvað varðar afkomu fólks. Það er einfaldlega vitlaust gefið og við slíkt verður ekki búið eins og verkuleikinn sannar.

Að vinda ofan af þessari vitleysu ætti að vera meginverkefni hins íslenska samfélags, ekki bara hinar afar hófstilltu forystu verkalýðshreyfingarinnar, sem að ósekju mætti vera mun beittari og agressívari í sínum aðgerðum. Verkefnið er ærið, það kemur ekkert af sjálfu sér – virk þátttaka, staðfesta og þor eru grundvallaratriði – Verkalýðshreyfingin verður ekki sterkari en fólkið, almenningur, sem hana myndar, virkni þess og áræði. Þessu óréttlæti verður einfaldlega viðhaldið svo lengi sem hagmunaaðilar komst upp með það og til þess að koma í veg fyrir slíkt þá er ekki í boði hjá launafólki að vera stikkfrí. Fyrsta skrefið er að taka þátt í atkvæðagreiðslum um kjarasamning og ekki síst láta sig þessi miklivægu mál varða með virkum hætti  – ekki satt?