sunnudagur, 8. júní 2003

Skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ

Skipulagsbreytingar hjá Hafnarfjarðarbæ
Enn eina ferðina er verið að gera skipulagsbreytingar á bæjarkerfinu. Ef mig misminnir ekki þá hafa þrír síðustu meirihlutar gert einhverjar breytingar. Árangur virðist oft á tíðum vera takmarkaður eða misheppnaður, því vart væri endalaust verið að breyta nema ef væri að gamla kerfið virkaði ekki.. Ekki ætla ég að dæma um þessar nýjust hugmyndir enda ekki búin að fá heildarmyndina . Allar svona tilfæringar hafa í för með sér mikið óöryggi meðal starfsmanna.
Ég hef litla trú á ráðgjafafyrirtækjum í þessum bransa. Hver ráðleggur ráðgjöfunum eða er þetta allt upp úr einhverjum amerískum stjórnunarbókmenntun um strúktúra í bandarískum stórfyrirtækjum. Er hinn almenni bæjarstjórnarmaður vel inni í stjórnsýslunni? Veit það ekki? Hef hinsvegar eins og áður sagði efasemdir um þessi mál. Reynslu þeirra sem vinna í kerfinu ætti auðvitað að nýta betur í breytingum af þessu tagi .
STH er auðvitað með viðbúnað og mun bregðast við því sem þurfa þykir með þeim hætti er þjónar viðkomandi félagsmanni best.


2.303% álagning / vextir
Ótrúlegt en satt. Ég hef átt í lítils háttar viðskiptum við S 24 Netbankann. Eftir ágæt viðskipti um nokkra hríð þá kastaðist heldur betur í kekki. Reikningi mínum fylgir kort og mér berst rukkun fyrir endurnýjun þess, sem ég greiði ca tveimur vikum eftir sendingu rukkunarinnar. Skömmu seinna berst mér í póst bréf þar sem ég er krafin um 33 króna greiðslu vega dráttarvaxta, 515 króna "ítrekunargjald", og 245 króna útskriftargjald, eða samtals 793 krónur. Álagning á dráttarvexti sem sjálfur "NET" bankinn S 24 sendir í "SNAIL- mail" (venjulegum pósti) orðin 2.303 %. Ég get ekki staðið í viðskiptum við stofnun af þessu tagi og færði snarlega viðskiptin annað. Einhverjar 8 krónur liggja eftir á reikningum.
Forsíðugrein Hlífarmanna í nýjasta Hjálm fjallar meðal annars um sjálftöku af þessu tagi

Fín forystugrein í Hjálm, blaði Hlífar . 1. tbl 92. árg.
Íslenskir okurvextir heitir hún og þar kemur m.a. fram að vextir á Íslandi er 300 % hærri en víðast hvar í Evrópu. Þetta er fín grein hjá Hlífar fólki og orð í tíma töluð.
Frelsi til okurs, fákeppni fjármálamarkaðarins, miljarðahagnaður bankakerfisins og dapurlegt hlutskipti og varnarleysi launafólks gangvart þessum stofnunum er umfjöllunarefnið.

þriðjudagur, 3. júní 2003

Verkalýðsblogg

Jæja þá er ég búin að ákveða að breyta blogginu yfir í verkalýðsblogg. Hugmyndin er að nýta dagbókarformið undir minni fréttir og hugleiðingar. Heimasíða STH verður samt sem áður á sínum stað og mun þjóna sínu ágæta hlutverki áfram. Á næstu dögum mun bloggið því taka einhverjum breytingum. Á blogginu verða fyrst og fremst persónulegar skoðanir mínar sem formanns STH og er bloggið því ekki á ábyrgð stjórnarinnar sem slíkt.

þriðjudagur, 27. maí 2003

Þá er lokaverkefnið um sögu félagsmiðstöðva komið út á vefinn

Þá er lokaverkefnið um sögu félagsmiðstöðva komið út á vefinn. Lenti í hinum mestu brösum við að koma efninu út af vefinn. Gallinn og kostirnir eru að vefurinn er uppbyggður í mörgum ólíkum "formötum" þ.e. texta, myndum, hljóðum og kvikmyndum.
Fyrst bar það til tíðinda að vefsvæðið var of lítið. En þrátt fyrir stækkun þá vildu hljóð- og kvikmyndafælar ekki fara út á netið. Hins vegar virkaði þetta allt saman glimrandi vel utan netsins. Vandamálið lýsir sér þannig að sambandið rofnaði í miðri yfirfærslu og maður varð að starta öllu upp að nýju, sem er auðvitað afar hvimleitt. Salvör hafði lent í svipuðum vandamálum. Spurningin er hins vegar hvort þetta sé lapsus í forritinu eða hvort þetta sé brotalöm í ADSL ,símakerfinu eða i hýsingu vefja ? Það er t.d. oft betra að vinna út á netið seint á kvöldin heldur en um miðjan dag.? Til að koma verkefninu frá mér í tíma þá brá ég á það ráð að minnka myndsafnið mjög verulega, setti inn eitt lítið lag í midi-formati og náði smá kvikmyndabút út á vefinn. það má því segja að vefurinn sé sýnishorn sem gefur þó vonandi mynd af því sem hann á að standa fyrir.
Til þessa að koma vef af þessu tagi frá sér yfir á netið þá þarf maður að koma sér upp góðu hljóðvinnsluforriti og klippiforriti. Með því móti getur maður gert skjöl þannig úr garði að blessaður Dreamwever-inn springi ekki á limminu í hvert sinn sem senda þarf skjöl af þessari tegund út í netheima.

Að lokum langar mig til þess að þakka ykkur öllum ánægjuleg samskipti og góða viðkynningu og óska ykkur áframhaldandi góðarar vegferðar. Ég er ánægður með þennan kúrs og tel mig hafa lært heilmikið og ekki síst á hinu praktíska sviði.

Hvað blessað bloggið varðar, þennan hentuga einkafjölmiðil, þá ætla ég að halda því gangandi meðan ég hef nennu til. Er jafnvel að pæla í að breyta honum í blogg formanns Starfsmannafélags Hafnarfjarðar þannig að félagsmenn geti fengið upplýsingar beint og algerlega milliliðalaust "nánast í beinni".

mánudagur, 26. maí 2003

Nú er mál ekki flóknari en það að ...

Nú er mál ekki flóknari en það að mig vantar góð ráð varðandi Dreamweverinn. Ég hef átt í hinum mestu vandkvæðum með að færa út á vefinn hljóð og kvikmyndafæla t.d. Windows Media Audio V8. Sama hefur verið upp í teningnum varðandi webb album sem ekki fer yfir.
Í fyrstu taldi ég að heimasvæðið væri of lítið (10 mb) en nú er ég búin að láta stækka það upp í 40 mb sem er nokkuð meira en ég þarf undir vefinn. Vandmálið lýsir sér þannig að ADSL tengingin rofnar í miðjum klíðum og ekkert af ofangreindum fælum fer þangað sem það á að fara. Ef einhver þekkir problemið endilega senda mér línu á emailið

miðvikudagur, 21. maí 2003

Þá er maður búin að öllu nema ...

Þá er maður búin að öllu nema, nema, nema, ( eins og Stuðmenn kváðu forðum) koma þessu öllu á netið. Það reynist þrautinni þyngri þar sem að heimasvæði mitt er lítið. Ég brá því á það ráð að fá það stækkað snarlega um 30mb. Með því móti ætti þetta allt að blessast. Nú ef ekki, þá fækka ég hljóð- og myndfælum, sníð vefnum stakk eftir vexti. Það er sem sagt vefur um sögu félagsmiðstöðva sem er svona plássfrekur. Ég mun því að öllu óbreyttu smella því sem upp á vantar inn á morgun en allt ræðst þetta af snerpu starfsmanna Símans varðandi stækkun svæðisins

þriðjudagur, 20. maí 2003

Við erum lengi búinn að velta fyrir ...

Við erum lengi búinn að velta fyrir okkur kaupum á digital myndavél fyrir heimilið. Gamla Minoltan stendur reyndar fyllilega fyrir sínu laus við alla sjálfvirkni og því við engan nema mann sjálfan að sakast ef myndir heppnast illa. Við eigum aðra vél, litla Pentax fyrir abs filmur. Þrátt fyrir góða dóma ( og hátt verð) þá hefur hún ekki staðið undir væntingum. Í vinnunni (Æskulýðs- og tómstundaráði Hafnarfjarðar) er Cannon EOS vél sem nýtt er til þess að taka myndir úr starfinu og í fyrra keypti stofnunin stafræna Nikon vél 2.1 coolpix. Báðar þessar vélar hafa reynst vel og myndir úr þeim hafa ratað bæði á netið sem og í prentmiðla. Í félagsmiðstöðvum hafa digtalvélar alfarið tekið við af gömlu vélunum , enda mun ódýrara og fljótvirkara en þegar að menn nýttu filmur. Atburðir nánast komnir á netið í beinni.

Eftir mikla yfirlegu varð að ráði að fjárfesta í Olympus C5050 vél sem fannst á vefnum ZDNet Þetta er alhliða maskína sem gefur mikla möguleika og hefur það fram yfir margar vélar að hægt er að vinna með henni án sjálfvirkni, sem gerir það að verkum að ef maður vill taka myndir með sérstakri lýsingu eða áferð þá er það mjög einfalt. Mikil sjálfvirkni gerir allar myndir eins og er því ekki endilega kostur þó svo að það sé þægilegt. Góðar vélar þurfa því að bjóða upp á þessa möguleika, sem og auðvitað mikla upplausn í þeim tilfellum sem þess þarf. Fyrir þau ykkar sem áhuga hafið á ljósmyndun þá er vefurinn hér að ofan hafsjór upplýsinga og ekki síst hvar hægt er að höndla slíkar vélar á sem hagstæðustu verðum

fimmtudagur, 15. maí 2003

Fékk þessi fínu ráð

Fékk þessi fínu ráð hjá Sólveigu Friðriks varðandi hvernig maður býr til myndaalbúm í Dreamwever. Reyndist lítið mál þegar að til kastanna kom. Finn ekki samsvarandi kerfi fyrir hjóð og kvikmyndir en er búinn að bjarga því með því að gera millisíður þ.e. efnisyfirlit sem vísar síðan í viðkomandi fæla. Hvað varðar músik og kvikmyndir þá vinnst mér ekki tími til að breyta analog í digital svona 1,2, og 3, þannig að ég afritaði nokkur lög í wma format með Dylan og kvikmyndabút í wmv formati til þess að sjá hvort þetta gerir sig ekki. Það reyndist allt virka.
Ég á hins vegar afar gamla bílskúrsbandamúsík á segulbandi sem ég get fært yfir á minidisk og komið því þannig í stafrænt form og afritað inn á tölvuna en það tekur tíma og eins er með 8mm kvikmyndir sem ég hef aðgang að, þær þarf að sýna á vegg og taka upp með digitalvél og afrita frá henni yfir á tölvu. Það verður ekki gert að sinni þó svo að ég voni að ég geti komið því í framkvæmd fyrr en seinna. Allt eru þetta atriði er tengjast unglingamenningu þess tíma og sögu félagsmiðstöðva.
Er sem sagt að komast á lokasprettinn. Næsta dæmi er að staðsetja vefinn sem undirvef á heimsíðunni hjá mér, en þar ætla ég að geyma hann til að byrja með.

þriðjudagur, 13. maí 2003

Þá er pólitíska tímabilinu á þessu bloggi lokið í bili

Þá er pólitíska tímabilinu á þessu bloggi lokið í bili. Ég er búin að vera að vefa síðustu daga. Það hefur vafist nokkuð fyrir mér að setja inn myndaalbúm á vefinn. Ég hef notað Photshop til þess að setja það upp. Það gengur ágætlega en ég fæ alltaf flie- nöfnin með , dagsetningu og fleira aukastöff sem ég vill ekki hafa. Ég finn ekki þennan fídus Fireworks, Ég ætla að reyna að klóra mig áfram í þessu. Öll góð ráð í þessum efnum vel þegin.

mánudagur, 12. maí 2003

Jæja þá er búið að kjósa og allir töpuðu

Jæja þá er búið að kjósa og allir töpuðu, sem hlýtur að segja það að 100 % - in nægja alls ekki þegar stjórnmálin eru annars vegar. Gef lítið fyrir varnarsigra út og suður. Sé ekki betur en að % markmið stjórnmálaflokkanna hafi þegar að allt kemur til alls slagað vel á annað hundraðið í %. Og öll megin markmið flokkanna hvað varðar kjörfylgi (og jafnvel önnur markmið hafa því mistekist) Af þessum sökum munu stjórnmálamenn víla og díla út og suður og væntanleg ríkistjórn verður sennilega ekki í nokkru samræmi við niðurstöður og sennilega síst það sem almenningur á skilið. Fylgishrun Sjálfstæðisflokks er þó mesta tapið og ætti að öllu jöfnu að leiða til þess að menn staldri við og hvíli sig um skeið og safni kröftum. Ríflega 51% atkvæðamagn er ekki mikið og stjórnin á því sitt líf fyrst og fremst að þakka ójafnri skiptingu þingmanna fremur en prósentulegum styrk. 34 þingmenn í krafti 51,4% fylgis er afar rífleg nýting á sama hátt og 48,6% gefi einungis 29 þingmenn sem hlýtur að teljast ósanngjarnt. Fólk vill breytingar er augljóst, en hvenær hafa stjórnamálamenn gefið því gaum. Svo virðist vera að flokkar þurfi nánast að þurrkast út til að ganga sjálfviljugir frá borði. Að missa 15- 25 % af eigin kjörfylgi virðist a.m.k. ekki nægja . Hún er skrýtin tík þessi pólitík, ekki satt?

föstudagur, 9. maí 2003

Þetta undarlega lögmál próflesturs

Þetta undarlega lögmál próflesturs ( þ.e.a.s. að próflestur fari fram í sól og hita og svo hitt að þegar að prófi er lokið þá skelli á með rigningu og roki ) hefur gert það að verkum að fyrirhuguð afrek á sviði golfíþróttarinnar hafa ekki ennþá átt sér stað. Önnur afrek í tilverunni um þessar mundir eru afar óljós eins og t.d. gengi í aðferðarfræðiprófinu megindlega.

Hef eiginlega misst af kosningabaráttunni en finn stemminguna þessa síðustu daga. Ég er sjálfur þess sinnis að tími sé til kominn að gefa hinum pólitíska armi LÍÚ frí næstu árin. Hef í raun aldrei skilið að ráðmenn þessarar moldríku þjóðar, að sögn þeirra sjálfra, geti ekki séð sóma sinn í því að búa okkar minnstu meðbræðrum mannsæmandi tilveru. Sýnir að mínu mati í hnotskurn forgangsröðun í þjóðfélaginu. Gæti haldið lengi svona áfram og ef fólk hefur áhuga í þessum málum þá er 1. maí ávarp formanns STH á heimasíðu félagsins.

Nú gefst tími til að vinda sér í NKN verkefnin. Ég hef verið að vinna í vefnum um félagsmiðstöðvar. Finn hins vegar fáar fyrirmyndir af sambærilegum vef úti í hinum stóra heimi, nema helst vefi sem eru sagnfræðilegs eðlis. Verð í þessum pælingum á næstunni.

sunnudagur, 4. maí 2003

Ég er ekki frá því að golfkylfurnar mínar...

Ég er ekki frá því að golfkylfurnar mínar hafi gefið mér illt auga í dag er ég var að erindast úti í bílskúr. Ég hef ekkert sinnt þeim í vor, frekar en mörgu öðru, enda haft í mörgu öðru að snúast síðustu vikurnar. Ég er hins vegar harðákveðinn slá nokkur vel valin högg á Hvaleyrinni á þriðjudaginn eftir aðferðafræðiprófið og ná úr mér mesta prófhrollinum. Njóta vorsins og reyna að ná í restina af kosningastemmingunni. Síðan er að vinda sér í NKN verkefni á fullu og klára þau með stæl á tilsettum tíma

Bloggið hjá mér hefur fjallað hingað til að mestu leyti um tölvumál og NKN kúrsinn. Bush og Írak hafa verið á dagskrá hjá einhverjum af því tilefni langar mig að birta hér mynd er kunningi minn sendi mér. Myndin segir allt sem segja þarf um afstöðu mína í þessu máli.
Bush tvífari / hvor er orginalinn ?

laugardagur, 3. maí 2003

Nú er svo komið í þessari tækni framhaldssögu

Nú er svo komið í þessari tækni framhaldssögu að ný öflug og hljóðlát örgjörvavifta er komin á sinn stað og ekki að sökum að spyrja, allt fellur í dúna logn . Anovu -útreikningar að annað góðgæti hinnar megindlegu aðferðafræði nú unnið í mun hljóðlátara umhverfi en fyrr.

Mikið rosalega eru annars orðnar margar fínar síður og góð blogg hjá mörgum í NKN kúrsinum. Dæmi um slíkt finnst mér, af öðrum ólöstuðum; vefsíður eins og Hildar og Ingibjargar , sannkallaður listvefnaður sem maður getur lært mikið af. Fínir pennar á blogginu , oft fínn texti, lipur og skemmtilegur.

þriðjudagur, 29. apríl 2003

Nú magnast spennan

Nú magnast spennan. Surg og læti berast ennþá úr tölvunni ,heldur hávær og eftir samráði við ráðgjafa mína var það samdóma álit að sú vifta sem mest hefur fyrir hlutunum, sjálf örgjörfaviftan, sé orðin mædd. Til öryggis var mér þó fyrirskipað að koma ca einum dropa af saumvélaolíu í leguna. Enda töldu menn að viftur sem gangi eins heitar og þessi ættu það til að þorna og þá væri ekki að sökum að spyrja. Það reyndist ekki hafa nein veruleg áhrif grípa til saumavélaolíunnar og því lítið annað að gera en að versla nýa örgjörvaviftu hið fyrsta og koma henni í stað hinar örþreyttu og úrsérgengnu áður en illa fer.

miðvikudagur, 23. apríl 2003

Hef verið í miklum önnum undanfarið

Hef verið í miklum önnum undanfarið. Er í báðum aðferðarfræaðakúrsunum auk NKN kúrsins. Sem gerir það að verkum að mikið púsluspil upphefst við að koma öllu heim og saman í misserislok . Lítið má útaf bera varðandi verkefnaskil annars rekst allt á annars horn. Ég er að skila stóru verkefni í Eigindlegum , þar hef ég verið að rannsaka forsögu að stofnun Æskulýðsráðs Reykjavíkur . Stórmerkilega saga og mun lengri en ég gerði mér grein fyrir í upphafi. Í Megindlegum eru mikil verkefnaskil auk þess sem prófað er í fræðunum þ. 6. maí n.k. Margir hafa efasemdir um gildi prófa í fjarnámi og efast um tilgang þeirra. Bent er á að í Háskólanum í Bifröst eru verkefnaskil meginregla mats í fjarnámi.

Ég hef verið að útfæra nánar hugmynda mína um vef um sögu félagsmiðstöðva. Er að velta fyrir mér lay-outinu . Vefurinn er ekki sérstaklega ætlaður unglingum en er frekar fræðilegs eðlis og þarf því að bera þess merki hvað varðar útlit. Vefir ætlaðir ungu fólki eru oft ofhlaðnir ýmsum fídusum sem ekki passa fyrir eldri kynslóðina og virka jafnvel fráhrindandi. Sama á við með látlaust útlit gagnvart unglingum, ef ekkert sérstakt á sér stað fljótlega þá leitar athyglin annað. Vefur af því tagi sem ég áforma höfðar því lítið til unglinga enda sennilega jafn spennandi í þeirra augum og skólasagan. Því er stefnan sett á fremur látlaust útlit með þægilegum leturgerðum.

fimmtudagur, 17. apríl 2003

Gamla mekkanóið er komið aftur gott fólk

Gamla mekkanóið er komið aftur gott fólk. Þetta mundi ég þegar blessuð tölvan mín fór að surga meira en góðu hófi gegndi. Í fyrstu var ég smeykur um að það væri örgjörvaviftan sem væri að gefa sig og þá er ekki að spyrja að leikslokum. Örgjörvinn steikist á svipstundu og þá þarf ekki að hafa áhyggur of honum meir. Sem betur fer þá var þetta vifta sem kælir minniháttar örgjörva á móðurborðinu. Svona smáviftur er einnig á skjákortum og það er lítið mál að skipta þeim út þær kosta lítið og fást í Tölvubúðinni í Nóatúninu.

Ég er með s.k. Athalon örgjörva sem þarf mikla kælingu og gengur mjög heitur ca 55 stig og jafnvel vel upp undir 60 stig. Af þessum sökum er viftan alltaf að. Ég skipti út fyrstu viftunni þar sem að hún var svo rosalega hávær og fjárfesti í einni mun hljóðlátari . Hins vegar var hitinn alltaf samur þannig að ég fór í mekkanóleik sem fólst í því að bæta viftum inn í vélina. Viftum úr eldri maskínum. Þannig áskotnaðist mér útsogsvifta og einni sem dælir inn lofti þegar að hitastig í kassanum er orðið 25 + og að auki 2-3 minni viftum. Þessu kom ég fyrir hér og þar í kassanum og nú er málum þannig komið að sennilega eru 9 vindstig inni í kassanum. Eitthvað hefur mér tekist að lækka hitann á örgjörvanum við þessar tilfæringar en hvort það sé eitthvað sem skiptir máli læt ég liggja á milli hluta, hins vegar lærir maður töluvert í sambandi við Hardware á þessu grúski sem er í ætt við mekkónið gamla og góða. Varðandi áhættu við svona fikt þá bý ég að því að bræður mínir allir eru menntaðir í tölvubransanum og því þéttriðið öryggisnet í kringum mig ef eitthvað fer úrskeiðis í fiktinu.

mánudagur, 14. apríl 2003

Ég er búin að vera í leshring

Ég er búin að vera í leshring um tölvu- og upplýsingatækni í vetur. Fínn kúrs, gott fólk og úrvals kennarar. Umsjón með kúrsinu hafði Sólveig Jakobs þar til hún fór í leyfi um áramót. Þuríður Jóhanns hefur haft umsjón með tveimur lotum en Sigurjón Mýrdal tekur þá síðustu. Ég var að fara yfir innleggin frá mér frá því í vetur og gat ekki annað en brosað út í annað yfir ýmsu sem maður skrifaði. Og vel gæti það verið að ég væri í einhverju ósammála sjálfum mér. Það er hins vegar hið besta mál og maður uppgötvar að maður er ekki samur maður. Það er auðvitað akkúrat það besta í stöðunni því heldur væri það dapurlegt ef maður hefði ekkert breyst á þessari vegferð um hinn ágæta KHÍ því ef svo væri þá hefði maður ekkert lært og veran því til einskins, ekki satt ?

miðvikudagur, 9. apríl 2003

Nú er að vinda sér í vefnað

Nú er að vinda sér í vefnað um sögu félagsmiðstöðva. Ég hef reyndar haft áform um að koma á fót slíkum fræðsluvef um nokkra hríð, leitaði m.a. liðsinnis Sambands íslenskra sveitarfélaga í þessum efnum þar sem að vefur af þessu tagi nýtist vel í fræðslustarfi sveitarfélaganna fyrir þann fjölmenna hóp starfsmanna sem vinna á vettvangi frítímans, starfsfólk félagsmiðstöðva , kennarar og fl. Undirtektir sambandsins voru dræmar og greinlega lítil áhugi á þessum málum þar á bæ og í nokkru ósamræmi við yfirlýsta stefnu bæjarfélaganna í landinu varðandi endurmenntunarmál t.d. í síðustu kjarasamningagerð. En það er nú önnur Ella

Ég hef hins vegar verið að spjalla við fólk innan KHÍ um þessa hugmynd m.a. Karl Jeppesen og þar hafa menn sýnt málinu áhuga

Ég hef aðgang að ljósmyndum, tónlist , ýmsum skjölum og 8 mm kvikmyndum.. Þessu efni vildi ég gjarnan koma á framfæri í einni eða annarri mynd en það gæti orðið þrautinni þyngri. Myndir og skjöl eru lítið mál en erfiðust er filman. Hugmyndin er að fá lánaða 8 mm sýningarvél, varpa á vegg og taka upp með digitalvél. Þetta þarf ekki að vera flókið. hitt er öllu verra að finna format sem hentar best og tekur ekki mikið pláss og öll klippivinnan því gæði eru misjöfn. Sama á við um tónlistina hana má taka upp á minidisk.

Ég næ hins vegar ekki að koma þessu öllu í framkvæmd á einu bretti þannig að í fyrstu áætla ég að setja inn sitt lítið af hverju tengt viðfangsefninu, tengla og. fl. en bíða með flóknari atriði þar til mál skýrast varðandi samstarfsaðila.
En ég vonast samt til að koma á fót light version

fimmtudagur, 3. apríl 2003

Gerði smá tilraunir

Gerði smá tilraunir á blogginu, miðjusetti allt á vinstri vængnum og færði eldra efni neðar. Reyndi að færa dótið yfir í Dreamweverinn og laga vefinn til þar sem gekk ekki sem skyldi. Blogg.com neitaði harðlega að vista pakkann. Greip því til þess ráðs að finna html-kóða og smella þeim inn. Gekk þokkalega. Þarf endilega að læra hverning maður færir á milli.

miðvikudagur, 2. apríl 2003

Eitthvað er bloggið að klikka

Eitthvað er bloggið að klikka og 1. apríl innleggið komst ekki inn fyrr en í dag og því sennilegt að engin hafi hlaupið apríl af þeim sökum. Hélt reyndar fyrst að Blogg.com væri að grínast af tilefni dagsins. Þar sem að melding um template- vandkvæði birtust á skjánum þegar að maður ætlaði að senda innleggið frá sér. Lærdómurinn er því þessi: að þrátt fyrir frábæra tækniframfarir þá má oft lítið bera út af svo allt fari ekki í vitleysu og blessuð tæknin er ekki óskeikul frekar en önnur mannanna verk. Eitthvað myndi mannlegt atferli og hegðan breytast hjá okkur ef t.d. rafmagnið færi af í 2 -3 vikur, ekki satt? Kennir okkur kannski að ekki er hægt að taka öllu sem gefnu.

þriðjudagur, 1. apríl 2003

Í dag er hægt að kaupa þessar fistölvur

Í dag er hægt að kaupa þessar fistölvur sem maður getur handskrifað inn á með 40% afslætti hjá BT, aðeins 112.000- krónur stykkið . Mig minnir að á UT væri prísinn um 200.000-. Fín verð og gott að vera laus við lyklaborðið loksins.

Hot spring river this book? Þá hefur manni áskotnast Tools pakkinn við Offic XP pakkann. Þetta er í fjórða sinn sem ég á sambærileg viðskipti við Bill Gates og telst mér til að orðabækurnar séu a.m.k. orðnar fjórar. 11.000 kall kostar stykkið, þannig að nokkuð er af manni dregið í fjárútlátum vegna þessara kaupa.
Sú fyrsta sem ég keypti var einungis með sænsku. Núna eru tungumálin hins vegar orðin ca 40 í pakkanum. Ég nota sænsku mest enda nýti ég það mál í norrænum samskiptum. Það verðu hins vegar ekki annað sagt en að forritið verður stöðugt betra og aðgengilegra. Fyrir utan réttritunarleiðréttingar ( rauð undirstrikun ) þá eru samskonar leiðréttingar varðandi málfræðileg atriði ( græn undirstrikun ). Einnig eru ótvíræðir kostir varðandi mjög góða samheitaorðaskrá. Forritið er því ómissandi fyrir fólk sem vinnur mikið á öðru/m tungumálum en sínu eigin en ætti auðvitað að vera í grunnpakkanum. Þar er enska og hvers vegna ættu ekki önnur mál að vera þar líka?