Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan ég og jafnaldrar mínir, foreldrar unglinga dagsins í dag, héngum út í sjoppu og ræddum, fjarri foreldrum okkar, hin mikilvægu málefni hver var skotinn í hverri eða öll önnur þau mál sem unglingar spjalla um og tilheyra þeirri vegferð að verða fullorðin manneskja, að koma sér upp sjálfstæðum skoðunum og vonandi sem jákvæðustu sjálfsmynd.
Fyrir okkur foreldra unglinga dagsins í dag getur reynst erfitt að setja okkur inn í aðstæður unglinganna. Vegna mjög örra þjóðfélagsbreytinga þá er sérhvert æskuskeið einstakt og við sem eldri erum getum ekki notað nema að hluta til reynslu okkar eigin unglingsára við uppeldi barna okkar.
Þetta ástand skapar óöryggi meðal fullorðinna og oft fordóma gagnvart ungu fólki, æskan er ávallt að fara í hundana? En er þó ekki farin eftir öll þessi ár. Unglingum er kennt um margt sem aflaga fer eins og það sé unglinga að mynda ramma um sitt líf en ekki okkar foreldranna. Útihátíðir í gegnum árin eru dæmi um slíkt. Hinir eldri gagnrýna unglinga hvers tíma fyrir sukk og svínarí á útihátíðum í stað þess að setja „hátíðum” af þessum toga einhvern sæmandi ramma. Foreldrar fjargviðrast yfir aukinni unglingadrykkju en eiga samt sem áður viðskipti við fyrirtæki sem stuðla beint að aukinni unglingadrykkju með því að auglýsa átölulaust ólöglega áfengi þar sem börn og ungt fólk er markhópurinn? Ábyrgðin er ekki annars staðar hún er hjá okkur. Það eru við hin eldri sem látum hluti viðgangst.
Margt hefur verið skrafað um netið, tölvutæknina og unglinga. Oft í neikvæðum tón en oft sem betur fer undir jákvæðum formerkjum. Vissulega er margt í netheimum sem ekki veit á gott en það er ekkert nýtt undir sólinni hvað það varðar. Allt sem á netinu finnst á sér forsögu, þeim sem gengur illt eitt til, þeir finna sjúkleika sínum farveg í gegnum nýja tækni fremur en að sjúkleikinn sé nýr. „Farðu ekki upp í bíl með ókunnugum”, á sér því miður hliðstæður í netheimum.
Þrátt fyrir þessa annmarka sem hin nýja og heillandi tækni hefur í för með sér þá er ljóst og klukkunni verður ekki aftur snúið. Fólk sem ekki þekkir þessa heima þarf auðvitað að gera sér ferð á þessar slóðir og kynna sér þessar víðfemu lendur af eigin raun. Vandi málsins er að í þessari nýju veröld hefur verið nokkur brestur á að fólk viðhafi samskipti, sem ekki eru af sömu kurteisi og útfrá sama siðferði og ríkja í öðrum daglegum samskiptum milli fólks almennt. Í þessu ljósi ber að fagna frumkvæði Heimilis og skóla með SAFT verkefninu, sem fjallar um bætt siðferði og samskipti á netinu. Löngu tímabær umræða, gagnleg fyrir alla aldurshópa og nauðsynleg ef við ætlum að byggja upp siðað samfélag.
MSN-ið og sú tækni er í eðli sínu meinlaus. Þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi í samtímanum að vera einhverskonar „rafrænt sjoppuhangs” þess vegna þurfa foreldrar eins og áður að setja ungmennum ákveðnar rafrænar „útivistarreglur”. Margir unglingar hafa tölvur í herbergjum sínum og geta verið „úti“ eins lengi og þeim sýnist. Foreldrarölt á ekki bara að felast í göngutúr um nánasta hverfi unglinganna, röltið þarf auðvitað einnig að vera rafrænt. Hvet lesendur til þess „rölta um” og kíkja á heimasíður unglinga og fylgast með því sem þar fer fram. Dást að því sem vel er gert en benda óhikað á það sem miður fer og bæta má úr. Eyðum ekki orku í að úthúða tækninni, tökum henni fagnandi, skiptum okkur af, höfum áhrif og styrkjum góðu hliðarnar. En umfram allt, það er okkar foreldranna að setja rammana. Ef við foreldrar gerum það ekki þá gera það einhverjir aðrir, sem ekki endilega hafa velferð barna og unglinga að leiðarljósi.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli