Er að öllu jöfnu engar – skyldi maður ætla - nema í Hafnarfirði. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti, en sagan segir að almættinu hefði áskotnast hús við Austurgötu í Hafnarfirði um miðja síðustu öld. Ónefndur Guðsmaður, einn af fjölmörgum umboðsmönnum almættisins hér á jörðinni, fékk þá köllun að ánafna Guði hús sitt að sér gengnum. Þar sem þessi mikla þörf kom skyndilega upp þá var úr vöndu að ráða varðandi löggildingu erfðaskrárinnar.
Okkar maður dó ekki ráðalaus og skundaði að Bessastöðum árla sunnudagsmorguns, sennilega ögn fyrr en fyrir hefðbundin fótaferðartíma fólks, og bankaði á dyrnar. Forsetinn þáverandi sem einhverjir hafa haldið fram að hafi verið „nokkur gleðimaður” fór í eigin persónu til dyra og hitti Guðsmanninn. Það sem síðan á sér stað var andans verk í öllum skilningi, eða andanna verk því andi þeirra, sem báða höfgaði var af ólíkum meiði. Hvað með það úr varð að þjóðhöfðinginn setti nafn sitt á erfðaskránna, stipmlaði og gaf henni í krafti embættisins löggildingu og þar með nokkurskonar þinglýsingu.
Eins og fyrir okkur öllum liggur þá yfirgaf Guðsmaðurinn þetta jarðríki og þar með var almættið orðið lögformlegur eigandi húss við Austurgötuna í Hafnarfirði. Allt gekk þetta ljómandi vel fyrir sig þangað til að bæjaryfirvöld byrja að gera kröfu á að börn Guðsmannsins greiði af eiginni fasteignargjöld? Þar sem þau voru ekki lögformlegir eigendur þá neituðu börnin skiljanlega að greiða af eiginni. Gekk svo um margra ára skeið og það sem verra var, viðhaldi húsnæðisins var verulega ábótavant. Reyndar var ástandið þannig að húsið mátti muna sinn fífill fegurri.
Hafnfirsk stjórnsýsla dó ekki ráðalaus og gagnvart henni eru allir jafnir. Vandmálið var augljóst stórfeldar fasteignaskuldir, viðhaldi hússins verulega ábótavant og það sem verst var að fjölmörgum erindum og tilmælum bæjarins var ávallt sýnt fálæti. Eigandinn hafði með öllu sniðgegnið réttmætar kröfur og ábendingar virðulegra hafnfirskra embættismanna.
Það var þá ekkert annað í stöðunni en að senda greiðsluáskorun, hvert sem hún var nú send (einhverjir halda því fram að bæjarlögmaðurinn hafi af þessu tilefni verið sendur í messu) og í kjölfarið, ef ekki yrði við brugðist, efna til uppboðs og leysa til sín eignina upp í vanskil.
Menn segja að sá löggerningur, uppboðið og hafi farið fram á eigninni í fjarveru eigandans, sem hafi vakið undrun embættismanna bæjarins. Bærinn eignaðist bæði húsið og lóðina og lauk þar með veraldarvafstri almættisins í bili a.m.k. Húsið var rifið og stendur lóðin enn þann dag í dag auð. Hvers vegna veit ég ekki – kannski vilja embættismenn bæjarins leita álits og hugmynda fyrri eiganda um framtíðarnot lóðarinnar – hver veit og hver segir að þetta eigi allt saman að vera einfalt. Reglugerðarriddarar sigra alltaf að lokum – held ég, a.m.k. hérna megin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli