þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Vandað og gott starf til margra ára

Hef fengið nokkuð af e-mailum vegna greinarkorns sem ég skrifaði í hið ágæta blað Kópavogspóstinn og birtist í síðustu viku. Vegna óska sem ég hef fengið birti ég greinina hér.

" Vandað og gott starf til margra ára.

Í Kópavogi hefur til margra ára verið rekið gott og uppbyggilegt æskulýðsstarf. Margar félagsmiðstöðvar starfa í bænum, við þær starfar einvala lið góðara starfsmanna og vel menntaðra og reynslumikilla yfirmanna. Uppbygging málflokksins undanfarin ár hefur verið markviss og starfið gengið mjög vel, svo vel að starfsemin hefur notið verðskuldaðar viðurkenningar fyrir gott starf langt út fyrir bæjarmörkin sem og virðingar innan fagsamfélagsins fyrir fagmennsku.

Fyrir skömmu var auglýst starf verkefnastjóra æskulýðs- og tómstundamála (æskulýðs- og tómstundafulltrúi) . Um starfið sóttu 14 einstaklingar m.a. nokkrir starfandi forstöðumenn félagsmiðstöðva í Kópavogi, vel menntaðir, með langan starfsaldur innan fagsins og farsælan starfsferil. Auk þess sóttu um margir aðrir hæfir og reyndir einstaklinga á þessu sviði. Því var ljóst að valið yrði erfitt. Held að hæfustu einstaklingarnir í umsækjendahópum hefðu sætt sig við jafningjaval.


Svo fór að ekki var ráðinn neinn af starfandi forstöðumönnum félagsmiðstöðva í Kópavogi né heldur neinn af þeim öðrum utanaðkomandi sem bjuggu yfir góðri menntun og mikilli reynslu. Ráðinn var til starfans undirmaður formanns ÍTK Gunnsteins Sigurðssonar skólastjóra og bæjarfulltrúa, sem auk þess reyndist vera meðmælandi viðkomandi umsækjanda. Að vonum urðu sterk viðbrögð við þessum ráðningaráformum bæjarins og vægast sagt mikil óánægja meðal starfsmanna ÍTK sem m.a. komu fram í því að á fjórða tug þeirra sýndu hug sinni í verki og mættu á bæjarstjórnarfund þann 27. nóvember s.l. þegar að ráðningarmál þetta bara á góma.

Sá sem þetta ritar hefur um margra ára skeið haldið úti dagskinnu (bloggi)
www.arnigudmunds.net . Sem starfandi í þessum bransa og sem sérfræðingur í þessum málaflokk og ekki síður sem meðmælandi nokkurra umsækjenda um starfið þá skrifaði ég að a.m.k. tvær færslur um þetta afar sérstaka mál í dagskinnuna. Þá fyrstu með fyrirsögninni “Vekur furðu” dagsetta 22. nóvember og þá síðari “... enn má undrast” dagsetta 28.nóvember. Oft hefur það komið fyrir að í síðuna sé vitnað enda fer efni hennar víða þar hún er m.a. útbúin með sjálfvirkri fréttaveitu og mörgum sinnum hefur efni dagskinnunar verð sett í viðtalsform í dagblöðum. (sérstaklega þegar að ég gegndi formennsku í Starfsmannafélagi Hafnarfjarðar). Er mér algerlega að meinalausu enda skrifa ég ávallt undir nafni og tek fulla ábyrgð á öllu sem á dagskinnuna er ritað. Svo fór með þessa pistla, sem lentu m.a. á síðum DV, sem ekki var furða enda málið umtalað í æskulýðsbransanum og margir sem furðuðu sig á öllu þessu máli, án þess þó að rita um það opinberlega. Ráðningin sem slík auðvitað viðburður/ frétt sem ekki bara snerti Kópavog heldur líka allt fagsamfélagið.

Fékk af því fregnir að mér hefðu m.a. af þessu tilefni ekki verið vandaðar kveðjurnar í umræðum um þessi máli á bæjarstjórnarfundi þ. 27. nóv . Gerði ekkert með það í fyrstu enda ýmsu vanur. Hins vegar þegar mér fóru að berast fregnir frá ólíklegasta fólki um að, að mér hafi verið afar ómaklega vegið úr ræðustól bæjarstjórnar þá varð það úr að ég hafði samband við ágætan bæjarritara Kópavogsbæjar Páll Magnússon og falaðist eftir hljóðupptökum af fundinum, sem var auðsótt mál.

Ekki verður sagt að umræðurnar hafi verið málefnalegar og ekki þurfti ég að hlutsta lengi á upptökuna til þess að átta mig á því að starfandi formaður ITK og bæjarfulltrúi fór langt yfir strikið í umræðunum, viðhafið ærumeiðandi ummæli og vó að starfsheiðri mínum í stað þess að ræða grundvallaratriði þess máls. Ég fékk i kjölfarið lögfræðing til þess að hlýða á þetta og taldi sá að margt af þeim ummælum sem formaðurinn og bæjarfulltrúinn lét falla vörðuðu við 234. og 235. greina almennra hegningarlaga (um ærumeiðingar) sem og bæjarmálasamþykkt Kópavogs frá 19/12 1997 sbr. 28. grein.(um að bera brigsl á einstakling) Auk þess sé ákaflega óviðeigandi og ekki stórmannlegt að viðhafa ummæli um “einstakling út í bæ” á vettvangi bæjarstjórnar Kópavogs þar sem hinn sami á ekki nokkurn kost á að svara fyrir sig á þeim vettvangi.

Ég hafði í kjölfarið sambandi við Sigurrós Þorgrímsdóttur forseta bæjarstjórnar sem ber ábyrgð á framkvæmd bæjarstjórnafunda, kynnti henni málavexti og lagði eftirfarandi til:
“Ég geri að tillögu minni að þú hafir forgöngu um að loka þessu máli af þeirri virðingu sem er bæjarstjórn Kópavogs samboðin. Að mínu mati er það best gert á sama vettvangi þ.e. vettvangi bæjarstjórnar og eða með formlegri afsökun þess bæjarfulltrúa er viðhafði margþætt ummæli er öll eiga það sammerkt af hafa vegið að æru minni og starfsheiðri.”

Eftir nokkurn umhugsunarfrest fékk ég svar þar sem forseti bæjarstjórnar sér ekki ástæðu til þess að hafast neitt enda hafi ekki verið neitt athugavert við fundinn?

Það liggur því fyrir að bæjarfulltrúar í Kópavogi geta átölulaust úr ræðustól bæjarstjórnar vegið að fólki út í bæ sem þeim er ekki þóknanlegt, fólki sem á þá þann eina kost að sækja viðkomandi bæjarfulltrúa til saka fyrir dómstólum með ærnum kostnaði eins og raunin gæti orðið í þessu máli.

Þetta mál er orðið alsherjafarsi ekki bara hvernig staðið var að ráðningu í þetta mikilvæga embætti æskulýðs- og tómstundafulltrúa, ekki síður það að þeir sem leyfa sér að setja fram aðrar skoðanir en ráðandi bæjarfulltrúar eiga það á hættu að sitja undir fúkyrðaflaum einstakra bæjarfulltrúa í skjóli bæjarstjórnar Kópavogs og síðast en ekki síst, margt af því úrvalsfólki, burðarásrar í góðri starfsemi ÍTK í gegnum árin leita á önnur mið. Sorglegast af öllu er þó að horfa upp á vandað, gott og faglegt starf á sviði æskulýðsmála í Kópavogi , margra ára uppbyggingarstarf sé nánast að engu gert með einu pennastriki – Hver hefur efni á svona vitleysu?"


Svo mörg þau orð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli