miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Frábær sýning

Takk fyrir mig. Brá mér í kvöld á foreldrasýningu Grunnskólahátíðar sem fram fór í íþróttahúsinu við Strandgötu. Leiksýning með atriðum frá öllum félagsmiðstöðvum og skólum hér í Hafnarfirði. Skemmtileg hefð sem hefur vaxið og dafnað með stækkandi bæ, fleiri skólum og félagsmiðstöðvum. Stórt samvinnuverkefni eins og þetta gerir það að verkum að unglingar milli hverfa kynnast mun betur en ella og allt sem heitir getur hverfarígur þekkist vart.

Dansleikur fer fram að loknum sýningum dagsins og hefur sem slíkur gengið áfallalaust árum saman, aldrei komið upp nein vandamál eins og áfengisneysla eða slíkt nema í örfáum tilfellum. Á morgun 14. feb verður mikið fjölmenni enda ókeypis inn af tilefni 100 ára afmæli bæjarins, en nemendur ákváðu samt sem áður að greiða 100 krónur á mann og láta alla innkomuna renna til velferðarmála, sem er til fyrirmyndar. Ballið mun eins og undanfarin ár verða vel lukkað og unga fólkinu til sóma.

Hef séð allar þessar sýningar í gegnum árin. Sýningin í ár er án efa með þeim bestu. Atriði fjölbreytt, vel unnin og skemmtilega útfærð. Leikþættir, söngleikir, ævintýri og tónlist, allt frábær atriði. Sviðið flott, fín lýsing og sándið eins og best verður á kosið. Sá eiginlega mest eftir að hafa ekki gripið með mér myndavélina, þó ekki væri nema til að henda inn einni mynd hér á dagskinnuna til þess að gefa lesendum smá nasaþef af þessari frábæru sýningu – en sem sagt frábær sýning – Hvet alla foreldra og forráðamenn til þessa kíkja næst - Þakka fyrir mig, frábært kvöld.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli