þriðjudagur, 13. september 2005

Miklir brandarakarlar í bankakerfinu og víðar

Forsendur kjarasamninga eru brostnar samkvæmt verðbólguviðmiðum. Um það þarf ekki að deila . Viðbrögð ýmsa hagsmunaaðila við þessari staðreynd eru því miður grátbrosleg. Hagfræðingur KB banka segir að það borgi sig ekki að hækka launin, það auki bara verðbólguna? Ha... ha... ha..., þetta segir fulltrúi þeirra sem setja hvert heimsmetið á fætur öðru í vaxtaokri, fulltrúi kerfis sem þjáð er af „þjónustugjaldafíkn”.

Væri ekki sniðugt hjá þessum mannskap að líta í eigin rann og velta fyrir sér eigin ábyrgð í því að viðhalda stöðugleika í efnahagskerfinu. Gildir ekki það sama varðandi samtök atvinnulífsins og samtök verslunarinnar. Í stað þess að lækka vöruverð eins og tilefni hefur vissulega verði til þá hækka menn vöruverð. Verðbólgan per exelens hefur ekkert með íslenska láglaunapólitík að gera. Aukin verðbólga á fyrst og fremst rætur sínar í því að þeir sem þegar hafa nóg taka meira til sín en sanngjarnt er, hvort sem það er verðlag á lánsfjármagni, vöruverði eða verðmætasköpunar vinnuframlags starfsmanna.

Málið er ekkert flóknara en þetta og málflutningur af því tagi sem fulltrúar bankakerfisins og atvinnulífsins viðhafa þessa daganna er sérstaklega ósmekklegur og algerlega óviðeigandi. Það er verkalýðshreyfingin, nánast ein og sér, sem með „þjóðarsáttarsamningunum" skóp þennan stöðugleika sem ríkt hefur síðustu ár. Það ber að virða við almennt launafólk í landinu og meta að verðleikum. Annað er hroki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli