sunnudagur, 31. janúar 2010

Mínir menn - ekki þeirra dagur

Er staddur í Brighton í Englandi. Notaði tækifærið til þess að kíkja á leik hjá mínum mönnum í enska boltanum Brighton and Hove Albions oftast kallaðir "Mávarnir" á máli þarlendra.

Það verður að segjast alveg eins og er að Mávarnir náðu engu flugi á móti illa spilandi liði Millwall sem þó er í efri hluta C deildarinnar. Ein varnarmistök minna manna nægðu Millwall til sigurs eitt núll. Það eru blikur á lofti hjá mínum mönnum og fallbarátta framundan - 20. sætið er ekki góður árangur og sorglegt ef feta á í slóð Crew Alexsandra liðs Guðjóns Þórðarsonar sem féll rakleiðis í það sem einu sinni var kölluð enska 4. deildin og þar ku knattspyrna rísa hve lægst og á stundum vera fremur í ætt við túnþökuristur en hina göfugu íþrótt knattspyrnu.

mánudagur, 25. janúar 2010

Kjósa strax - búið að ræða málið ?

Hafnfirskt íbúalýðræði hefur stundum verið gert að umtalsefni hér á síðunni. En það snýst aðalega um kosningar um stækkun álvers Rio Tinto. Nýjasta útspil í þeim efnum er tillaga bæjaryfirvalda um að ganga til kosninga enn og aftur með nánast engum fyrirvara eða þann 6. mars þegar að kjósa á um Icesavemálið.

Rökin núna að það sé óþarfi að "tefja málið" lengur, það sé búið að ræða þetta málefni í þaula? Það má vel vera en hitt er öllum ljóst það er einnig búið að kjósa um málið og fella fyrirliggjandi tillögu - Það lá einnig fyrir yfirlýsing frá bæjarfélaginu í kjölfar síðustu kosninga að mig minnir að ekki yrði kosið að nýju um þetta mál? og hvað þá að gera það nánast fyrirvarlaust.

Lýðræði snýst um upplýsta umræðu og verkefni samfélagsins þessi dægrin eru ærin og þó svo að Rio Tinto liggi á þá eru mög önnur mál samfélagsins brýnni næstu mánuðina. Fyrir það fyrsta þá er afar mikilvægt að Icesavemálið fái umfjöllun og að blanda inn í þá umræðu hagsmunabaráttu Rio Tinto er ekki við hæfi.

Það er ekkert í þessu Rio Tinto máli sem krefst tafalausra kosninga og ef enn og aftur á að kjósa um stækkun álversins þá eru haustið að mínu mati tilvalið - Önnur verkefni í íslensku samfélagi eru ærinn þessi misserin og mikilvægari a.m.k. fram að þeim tíma.

miðvikudagur, 20. janúar 2010

Ný æskulýðslög

Formaður ÆRR (Æskulýðsráð ríkisins) efndi til fundar um málefni ráðsins fyrir skömmu. Var mikið þarfaþing og ekki vanþörf að fara yfir þessi mál. Sannast sagna þá erum við íslendingar eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Ástæður þess má rekja í löngu máli en slíkt verður ekki gert á þessum vettvangi a.m.k. ekki í bili. Eitt er þó algerlega víst að við þurfum lagalega umgjörð um æskulýðsmál sem m.a. byggir á faglegum sjónarmiðum.

Einn af þeim stjórnmálamönnum sem hefur látið sig þessi mál varða er Oddný Sturludóttir sem sækist eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Þeir stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem láta sig málefni æskunnar varða ættu að gefa henni gaum því þar fer ötull baráttukona. Ég átti því láni að fagna að vinna með henni ásamt öðru góðu fólki að stefnumótun á sviði æskulýðsmála en eins og þeir vita sem tilheyra þessum geira þá er löngu tímabært að koma á rammalöggjöf í þessum mikilvæga málaflokki. Tillaga um slíkt liggur fyrir og ekki síst fyrir tilstilli Oddnýjar – hvet því Samfylkingarfólk í höfuðborginni eindregið til þess að veita henni stuðning.

Sama á við um ágæta stjórnmálamenn úr öðrum flokkum. Mér dettur í hug Sóley Tómasdóttir í VG sem sækist eftir 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík. Sóley hefur mikla reynslu í þessum geira og hugmyndir sem falla vel að velferðarmálum æskunnar. Sóley er virk í starfi Félagi fagfólks í frítímaþjónustu m.m.

Málefni æskunnar eru mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þessum – hvet fólk, hvar í flokki sem það stendur, eindregið til þess að kjósa, í prófkjörum, fólk sem hefur þetta mikilvæga málefni í öndvegi.

mánudagur, 18. janúar 2010

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar

Ég hef oft leitt hugann að því hversu gífurlegar "menningarveitur" tónlistaskólarnir eru. Tónlistarskólinn i Hafnarfirði er gott dæmi um slíkt. Ég hef lengi haldið því fram að það sé sterkt samhengi milli góðs gengis hafnfirskra unglingahljómsveita og góðrar starfsemin Tónlistaskólans í Hafnarfirði. Hafnfirskum hljómsveitum hefur í gegnum árin vegnað afar vel í Músíktilraunum ÍTR og ef grannt er skoðað þá hafa all flestir tónlistarmannana grunn úr tónlistarskólanum. Ágætt aðgengi að æfingaaðstöðu og góður tónlistarskóli er því formúlan.

Nám í tónlistaskóla er því ekki eins og ýmsir halda fram, leiðinlegar píanóæfingar, perlodíur og fúkur. Námið er ekki síst fyrir flesta nemendur aðgangur að áhugamáli sem endist út ævina hvort sem fólk nýtur tónlistar sem hlustendur eða iðkendur. Góðar tómstundir og eða áhugamál er spurning um lífsgæði sem ekki verða metin til fjár. Nú og svo má ekki gleyma þeim sem leggja tónlistina fyrir sig í atvinnuskyni og auðga mannlífið og menninguna með framlagi sínu.

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar er að mínu mati afburðaskóli sem hefur á að skipa úrvals fólki. Sá sem þetta ritar hefur verið þeirra ánægju aðnjótandi á liðnum árum að sækja tónleika skólans á hinum ýmsu stigum og alltaf haft jafn gaman af hvort sem verið hafa tónleikar byrjenda eða lengra kominna. Starfsemi tónlistaskóla er alltaf mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þeim sem við nú lifum á. Við Hafnfirðingar eru heppnir að eiga einn slíkan, sannkallaða "menningarveitu".

þriðjudagur, 12. janúar 2010

Færeyjar

Færeyingar eru ekki bara gott fólk því óvíða er náttúrufegurð meiri en þar. Þess mynd tók ég snemma morguns fyrir nokkrum árum í Thorshvan.

Færeyingar eru höfðingjar heim að sækja og þegar að maður hefur komið þarna einu sinni þá er eitthvað sem togar í mann að koma aftur og aftur.

Harðbýlt land lengst úti í hafi, óblíð náttúruöflin, rík menning, fegurðin og fólkið er eitthvað samspil sem gerir Færeyjar að afar áhugaverðum stað.

Hvet fólk til þess að leita ekki langt yfir skammt þegar að ferðalög eru annars vegar - Heimsókn til frænda okkar í Færeyjum er eitthvað sem engin hefur efni á að missa af.

sunnudagur, 10. janúar 2010

Rio Tinto kannar hug Hafnfirðinga

Ég er í úrtakshóp Capacent Gallup (CG). Fékk nú nýverið spurningalista um Rio Tinto álverið í Hafnarfirði. Væri vart í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að oftast hafa spurningar verið betur útfærðar hjá CG en í þessu uppleggi. Full gildishlaðnar að mínu mati og allflestar um jákvæða hluti eins "samfélagsstuðning" Rio Tinto, um forstjórann og fleira í þessum dúr. Sumar spurningarnar eru illa fram settar sbr dæmið hér að neðan. Kannski ekki að sökum að spyrja þar sem fyrirtækið er í krafti gríðarlegs auðmagns að hefja kosningarbaráttu, þá aðra á skömmum tíma um sama málefni þ.e. stækkun álvers Rio Tinto.

Hvernig svarar maður spurning eins og þessari hér að neðan á fimm þrepa kvarða frá "mjög vel" til "mjög illa"

Hversu vel eða illa telur þú að Alcan standi sig í upplýsingagjöf til almennings um starfsemi álversins í Straumsvík?

Svarið er að mínu mati þetta: Mjög vel í því að kom á framfæri einhliða og áróðurskenndum boðskap um eigið ágæti þar sem hvergi er dregið af og hvergi til sparað. Í stuttu máli, gott í miðlun einhliða áróðurs um eigið ágæti. Er það þá góð upplýsingagjöf? Nei - en það getur verið góð miðlun (þ.e.a.s. að koma á framfæri boðskap) - undarlega spurt og afar aðferðafræðilega ónákvæmt. Ótæk spurning

Rio Tinto er í kosningaham í sparifötunum - CG sem að öllu jöfnu stendur sig vel er hér í verkefni þar sem niðurstöður verða "háðar" og ónákvæmar m.a. vegna uppbyggingar spurningalistans, sem er súrt. Setningin "samkvæmt niðurstöðum Capacent Gallup þá ... " hefur ávallt haft sterka ímynd í hugum margra - sennilega er þetta ein af þeim könnunum þar sem niðurstöður verða ekki kynntar opinberlega þannig að ekki reynir CG í þessum efnum?

fimmtudagur, 7. janúar 2010

Af pólitískum analýsum

Veit ekki hvort þessi ágæta lausavísa Páls Ólafssonar sé nokkuð verri en aðrar pólitískar analýsur þessa daganna?

Hænurnar eru mesta mein
mitt og allra á bænum,
þó er verri Ólöf ein
áttatíu hænum.

Höfundur:
Páll Ólafsson (1827-1905)

sunnudagur, 3. janúar 2010

Stutt i Heklugos

Ég held að það sé ekki langt í Heklugos sbr. myndina hér sem tekin var í gær 2. janúar frá Snjallsteinshöfða.

Ég hef tekið fjölda mynda af fjallinu í gegnum árin og minnist þess ekki að að hafa séð það svona autt að hluta til í tíð eins og núna - Það er greinilegt að snjó festir ekki í suðurhlíðum fjallsins eins og glögglega má sjá á myndinni - Held því fram að brátt hitni verulega í kolum enda fáar aðrar skýringar á snjóleysinu en undirliggjandi hiti?

þriðjudagur, 29. desember 2009

Farsælt kom(m)andi ár


Óska lesendum síðunnar gleðilegra jóla og farsældar á kom(m)andi ári (eins og vinur minn einn orðaði þessa kveðju ávallt) á sennilega vel við í ár.

fimmtudagur, 10. desember 2009

Álver í Vatnsmýrina

Leik blak með félögum mínum í HÍ. Í þeim ágæta hópi er margt skrafað að leik loknum og mörg heimsins vandamál krufin til mergjar og jafnvel leyst ef svo ber undir. Ekkert mál er svo ómerkilegt að það verðskuldi ekki umræðu þessa ágæta hóps sem gegnir heitinu Blakmenn Björgvins.

Nú bar svo við, þar sem nokkrir Hafnfirðingar eru í þessum hóp, að málefni álversins í Straumsvík komst á dagskrá. Töldu Hafnfirðingar undarlegt í meira lagi að endalaust væri kosið um sama mál, eða átti bara að kjósa þanngað til að Rio Tinto ynni sigur í íbúakosningum? Sem leiðir hugann að þessu sem kallast íbúalýðræði sem á hafnfirska vísu gengur út á það að bláfátækir einstaklingar standa í baráttu við alþjóðlegt stórfyrirtæki sem ekki unir úrslitum kosninga. Ekki veit ég hve mörg hundruð milljónir fóru í síðustu kosningabaráttu Rio Tinto "hreyfingarinnar" eða "samtakanna". Og glansauglýsingar þar sem hin fegurstu tákn íslenskrar náttúru eru nýtt sem bakgrunnur í grímulausum áróðri Rio tinto eru þegar byrjaðar að birtast og sem fyrr verður ekki spurt um peninga þegar "kosningabaráttan" er hafin.

En svona er það nú - einhverjir telja starfsemi álvera lausn morgundagsins og því fleiri og stærri sem þau eru saman komin því betra. Í því ljósi kom fram mikilvægt innlegg eða tillaga ónefnds blakfélaga inn í alla þessa álversumræðu, tillaga sem myndi að mati einhverra efla til mikilla muna atvinnuástandið í höfuðborginni og reyndar á öllu stór-Hafnarfjarðarsvæðinu ef því er að skipta.

Sem sagt hugmyndin
um að reisa 600 - 700 þúsund tonna álver í Vatnsmýrinni. Flugvöllurinn mun hvort sem er víkja fyrr eða síðar og ekki fyrirséð að verktakabransinn hafa stórfelld áformum um íbúðabyggingar á svæðinu í bráð. Þar er plássið og þar eru þessar fínu samgöngur, mætti jafnvel hugsa sér að halda einni flugbraut opinni meðfram fabrikkunum eða jafnvel á milli þeirra? þannig að menn gætu flogið inn með súrálið og burtu með óunnið álið til frekari úrvinnslu erlendis. Rafmagnið yrði áfram á tombóluprís og fengið beinlínutengt frá OR.

Lagt var til að Reykvíkingar nýttu sér s.k. íbúalýðræði í ákvörðunarferlinu sem felst fyrst og fremst í rándýrri "charming offensiv" misvirts alþjóðlegs fyrirtækis gegn fjölda venjulegs fólks sem þykir vænt um umhverfi sitt en á ekki fjármagn til þess að standa í skaki við alþjóðlegt stórfyrirtæki.

Góð lausn !- úff - mengandi stóriðja inni í miðjum bæjum og borgum! - Springfield Homers Simpsonar orðin íslenskur raunveruleiki? Er það eitthvað til að stefna að?

laugardagur, 28. nóvember 2009

Teiknimyndin um drykkfelda jólsveininn

Af vefnum 
Working on driving the world slightly insane.
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvað börn hafa gaman af teiknimyndum. Núna í aðdraganda jólanna þykir Ölgerð Egils Skallagrímsonar, m.a. í nánu og innilegu samstarfi við markaðsdeild RÚV ohf og yfirmenn þessa fyrirtækis allra landsmanna, við hæfi að bjóða börnum upp á teiknimynd.

Að vísu sama teiknimyndin sýnd ítrekað fyrir og eftir og jafnvel inni í þáttum . En teiknimyndin fjallar í stuttu máli um drykkfeldan jólasvein sem á sleða sínum er á leið til að sinna mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna. Á ferð sinni mætir hann vöruflutningabifreið sem er full af áfengi. Í stað þess að halda áfram sem leið liggur til hefðbundinna jólasveinastarfa þá snýr sveinki sér tafarlaust við og eltir áfengið með þeim hætti sem einungis langt gengnir alkahólistar myndu gera. Ekki veit ég hvað síðan á sér stað en tel einsýnt að sveinki eigi erfitt að með að sinna skyldum sínum þetta kvöld þéttkenndur eða augafullur eftir drykkju á áfenginu eftirsótta ("léttöli sem er ekki til") Þar sem þetta er auðvita teiknimynd og þær eru "ekki alvöru" þá er áfengið það ekki heldur enda stendur afar óljósum stöfum og birtist örskamma stund að sveinki sé einungis á eftir "léttöli". Þetta gera börnin sér auðvitað grein fyrir að mati Ölgerðarinnar og RÚV en það sem verra er að "léttölið" er ekki til og hefur aldrei verið framleitt! en hinn útlenski texti teiknimyndarinnar er um áfengi en það er allt í lagi þar sem börnin skilja ekki dönsku alla vega ekki þau yngstu.

Mér dettur hug sambærileg auglýsingaherferð frá sígarettufyrirtæki sem bjó til alveg einstaklega geðþekka teiknimyndapersónu, úr merki fyrirtækisins, úlfalda nokkurn sem þau kölluðu að mig minnir Joe. Blessuðum börnunum fannst mikið til mannkosta Joe koma og auðvita gátu sígrettupakkar með mynd af honum í huga barnsins ekki verið neitt annað en eitthvað jákvætt og gott. Teiknimyndaþættirnir voru sýndir í barnatímum víða í Bandaríkunum. Báru vott um sorglega lágt siðferðisplan þar sem í engu var svifist í markaðsátaki og engu skeytt um annað en að selja sem mest.

Ölgerð Egils Skallgrímasonar hefur nokkra dóma á bakinu vegna brota á réttindum barna til að vera laus við áfengisauglýsingar. Það er einungis tímaspursmál hvenær "Sjónvarp allra landsmanna" RÚV ohf lendir í þessum vafasama félagsskap. Teiknimyndir um drykkfeldan jólasvein eða um úlfaldann Joe sem liður í auglýsingaherferð sem sérstaklega snýr að börnum er fullkomin lágkúra. Viðskiptasiðferði ef siðferði skyldi kalla af þessum toga er þessum aðilum til skammar. Að Rúv ohf skuli taka þátt í þessu er með ólíkindum og algerlega ljóst að það er ekki með fulltingi 317.829 eigenda þess. Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem starfa á svona lágu plani, Skilja stjórnendur RÚV ohf ekki ábyrgð sína í samfélaginu og er ekki réttast að koma RÚV út af auglýsingamarkaði a.m.k. meðan að svo er.

þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Bréfaskóli Hannesar Hólmsteins

„Vonandi missir Samfylkingin a.m.k. 2 menn í næstu bæjarstjórnarkosningum. Þannig öðlast Hafnfirðingar von um að einveldi Lúðvíks (og Gunnars) ljúki og "lýðræði komist aftur á að nýju" í Hafnarfirði. “ segir Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir stjórnmálafræðingur formaður Fram, sjálfstæðisfélags Hafnarfjarðar á bloggi sínu.

Spurt er: Er það bara kallað lýðræði þegar að sjálfstæðisflokkurinn nær meirihluta í kosningum. Ef meirihluti Hafnfirðinga kýs annan flokk en íhaldið er það þá einveldi sem á ekkert skylt við lýðræði? Í hvaða stjórnmálafræðibókmenntum finnur maður þessum "vísindum" stað. Er það í bréfaskóla Hannesar Hólmsteins?

fimmtudagur, 12. nóvember 2009

Skynsamir unglingar í Hafnarfirði

Hafnfirskir unglingar sýndu frábært frumkvæði í gær þegar að þeir efndu til mótmæla við bæjarskrifstofur Hafnarfjarðar. Æska bæjarins er greinilega orðin langþreytt á eilífum niðurskurði til félagsmiðstöðva og sífellt verri aðstöðu til félagsmiðstöðvastarfseminnar. Þegar að rúmlega 700 ungmenni þramma í mótmælagöngu, halda fund og ræða málefnalega og skýrt um sínar aðstæður þá er það skylda bæjarstjórnar Hafnarfjarðar að taka fullt mark á slíku og ekki síst koma til móts við óskir unga fólksins.

Staðreyndin sú að æskulýðsstarfsemi í Hafnarfirði hefur átt undir högg að sækja í mörg ár og það jafnvel á tímum góðæris. Það hefur því verið eða var að a.m.k. eitt af meginhlutverkum þeirra sem unnu í málflokknum að berjast fyrir tilveru félagsmiðstöðvanna og fjárveitingum til þeirra og því miður oft við lítinn skilning og eða áhuga æðstu embættismanna og einstakra bæjarfulltrúa.

Þær tillögur sem nú liggja fyrir fylltu greinilega mælinn og margt sem olli því. Unglingarnir skynja stöðugt minnkandi þjónustu. Einstakir starfsmenn fengu óformlega að heyra um að þeirra væri ekki vænst í nýju skipulagi. Og svo hitt að fyrirhugað skipulag er arfa vitlaust og gerir ráð fyrir tæplega 25% fækkun starfa í félagsmiðstöðvum þar sem auk þess er gert ráð fyrir "að við aðgerð eins og þessa gefist tækifæri til þess að endurskoða launkjör starfsmanna félagsmiðstöðva"! Samkvæmt reynslu minni af launastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem fyrrverandi formaður Starfsmannafélags Hafnarfjaðrarbæjar þá er ekki átt við "upp á við". Grundvallaratriði í þessum skipulagsbreytingum er því að skera verulega niður og minnka þjónustu við æsku bæjarins enn og aftur og umfram annan niðurskurð hjá bæjarfélaginu.

Það er sagt að reynsla tilraunverkefnis í Áslandinu hafi gefið góða raun? og slík staðhæfing gerð að aðalatriði sem ástæða fyrir skipulagsbreytingum. Spurt er hefur einhver fagleg úttekt farið fram á því? Veit sem er að forstöðumaður Ássins er afar góður starfsmaður og ferst flest vel úr hendi algerlega óháð einhverri skipulagslegri umgjörð. Á því hvort vel hefur til tekist eða ekki er ekki annað en eitthvert einka mat embættismanna sem er fjarri því ígrundað eða faglegt, einhverjar tvær þrjár línur í einhverri greinargerð þess efnis hafa einfaldlega ekkert faglegt gildi.

Hvað sem menn kunna að segja í umræðunni m.a. í bæjarstjórn þá er margt undarlegt í þessu máli. Fyrirmynd skipulagsbreytinga er sögð koma frá Reykjavík ? og Kópavogi? Hafnarfjörður er ekki þrisvar sinnum stærri en Grafarvogurinn og skiplag mála í Kópavogi hefur ekki þótt til eftirbreytni.

Skipurit hins nýja skipulags sýnir einfaldlega að fækka á forstöðumönnum um helming og setja í stað þeirra ódýrari starfskrafta á gólfið og með því draga úr afleiðingum hins mikla niðurskurðar. Á skrifstofu ÍTH munu því væntanlega bætast við þrír skrifstofumenn og síðan er óljóst hvað verður um ágætan rekstrarstjóra ÍTH. Með þessu verður yfirbyggingin því orðin veruleg

Í þessum hugmyndum um skipulagsbreytingar er ekki stafur um fagleg málefni? En ljóst að starfseminna á að byggja á "ódýrari" starfsmönnum sem þýðir á mannamáli að ekki verða gerðar neinar teljandi kröfur um menntun. Horfið er til baka til "samræmis" við frístundheimili þar sem litlar sem engar kröfur hafa verið gerðar um fagmenntun og eiga langt í það að ná félagsmiðstöðvum. Fagfólkið þeir fáu sem verða eftir verður skrifstofumannskapur langt frá vettvangi.

Faglegur standard í félagsmiðstöðvum í Hafnarfirði verður með þeim hætti að nemar í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands geta ekki sótt vettvangsnám sitt til Hafnarfjarðar þar sem starfsmenn munu ekki uppfylla lágmarksskilyrði til þess að taka að sér nema. Þá má því miður segja að hugtakið faglegur metnaður sé fjarri í þessum skipulagslagsbreytingum sem auk þess eru sennilega unnar án nokkurs samráðs við það ágæta fagfólk sem (ennþá) vinnur hjá ÍTH.

Starfsaðferðir unglingalýðræðis hafa lengi verið við lýði í starfsemi félagsmiðstöðva í Hafnarfirði, í því starf felst hvatning til unga fólksins til virkar þátttöku, ábyrgðar og frumkvæðis í starfi og leik. Með því auka ungmennin félagslega hæfni sína sem er ákaflega góð "menntun" í nútímasamfélagi og ekki síðri en hin formlega menntun skólakerfisins. Með virkri afstöðu sinni gegn óhóflega miklum niðurskurði til félagsmiðstöðva og skerðingar á þeirri starfsemi sýnir unga fólki í verki hug sinn til þessara mála enda finna þau á eigin skinni hverning þjónustan er sífellt skorin niður. Þessu frumkvæði unga fólksins ber að fagna að taka fyllsta mark á.

Sjá ennfremur:
Unglingalýðræði
Börn, unglingar og þjóðfélagsumrót

mánudagur, 2. nóvember 2009

Ólafur landlæknir og fleira gott fólk

Hef stundum verið að velta því fyrir mér hvers vegna mér finnst engin landlæknir hafa verið síðan Ólafur Ólafsson lét af störfum? Nú eða hvers vegna frú Vigdís er alltaf forsetinn í mínum huga og sr Sigurbjörn Einarsson alltaf biskupinn?

Leiðir hugann að því að það er fólk sem gerir embætti að því sem þau verða en ekki embættin sjálf. Þetta fólk sem hér er nefnt er dæmi um fólk sem hefur vegna persónulegra eiginleika sinna og visku hafið embættin upp til vegs og virðingar. Þau hafa með störfum sínum, frumkvæði og málsvarahlutverki sínu lagt samfélaginu ómetanlegt lið.

Er sennilega óvitlaust að hafa þetta í huga á þessum síðustu og verstu þar sem við höfum og fáum örugglega dæmi um hið gangstæða. Ráðuneytisstjóri sem hverfur frá störfum með ríflegan starfslokasamning til þess að "skapa starfsfrið" fremur en að tilteknar og gildar siðferðilegar ástæður hafi verið fyrir brotthvarfinu er dæmi um hið gagnstæða. Vonandi fáum við fleiri "Ólafi, Vigdísar og Sigurbirni" til áhrifa í íslensku samfélagi.

þriðjudagur, 27. október 2009

Hve oft á eiginlega að kjósa um þetta álver?

Nú eru komnar fram óskir um nýjar kosningar um stækkun álversins í Hafnarfirði? Sem var fellt eftirminnilega fyrir ca tveimur árum. Segjum sem svo að ef aftur verður kosið og segjum að ef svo illa færi að þessari gríðarlega öflugu kosningavél Rio Tinto tækist í krafti gríðarlegra fjármuna og með auglýsingaskrumi að ná meirihluta fyrir stækkun álvers er þá ekki spurning að kjósa í þriðja sinn að beiðni okkar sem erum á móti stækkun?

Það hlýtur að vera kleyft svo fremi að náist að uppfylla skilyrði fyrir íbúakosningu? Tæknilega virðist því vera hægt að velta þessu máli áfram árum saman og fella eða samþykkja sömu tillöguna mörgu sinnum. Er þetta einhver borðtennisleikur? Þarf að samþykkja tillöguna nokkrum sinnum eða fella nokkrum sinnum, þarf hún eða vera felld eða samþykkt tvisvar eða þrisvar til þess að öðlast gildi eða á hún bara að gilda þegar hún hentar hagsmunum Río Tinto?

Hvað þá ef endalaust á kjósa um þetta sama mál, sem meirihluti bæjarbúa hefur sagt hug sinn í með formlegum hætti, finnst mönnum þá við hæfi að kjósa um þetta samhliða bæjarstjórnarkosningum? Við þau fjölmörgu sem erum í Sól í Straumi urðum vitni að kosningabarráttu stórfyrirtækis sem eyddi milljónum á milljónir ofan og efndi til "kosningabarráttu" þar sem kostað var til hundruðum milljóna, álverið bauð hverjum þeim starfsmanni sem vildi leggja barráttunni lið að gera það á fullum launum, sendu Bo í álpappír að hvert hafnfirsk heimili , gerðu fjölda glansauglýsinga og sýndu látlaust á dýrasta auglýsingatíma, héldu úti heilu flokkum manna sem hringdu á hvert hafnfriskt heimili og héldu úti persónunjósnadeild þar sem skoðanir bæjarbúa voru bókfærðar með skipulegum rafrænum hætti og kolólöglegum enda fór það svo að persónuvernd hafi afskipti af álverinu.

Þetta er grímulaus hagmunabarrátta stórfyrirtækis sem á ekkert skylt við lýðræði hvað þá þetta sem bæjarstjórn Hafnarfjarðar kallar íbúalýðræði. Í samhengi "álverskosninga" verða bæjarstjórnarkosningar eins og auka mál enda ljóst að stjórnmálaflokkarnir í bænum hafi ekki efni á viðlíka "kosningabaráttu" og Rio Tinto - Eiga næstu bæjarstjórnarkosningar í Hafnarfirði að snúast um "galvaniseraða" eða "ekki galvaniseraða" frambjóðendur og munu frjáls framlög atvinnulífsins taka mið af því? Og hvar er þá lýðræðið svo ekki sé minnst á íbúalýðræðið?

miðvikudagur, 21. október 2009

Ég er orðin milljónamæringur og loksins einn sem var skotinn

Það urðu mér mikil gleðitíðindi þegar ég í kvöld fékk tilkynningu í tölvupósti um að ég hefði unnið 1.000.000 evrur í hinu virðulega Madridar-lottói og það án þess mér vitanlega að hafa spilað.

Sem ég var að ákveða hvernig snekkju fjölskyldan skyldi koma sér upp þá mundi ég allt í einu mín fyrri samskipti á sviði ofurgróða sem voru aðallega við umkomulausar Afrískar ekkjur sem allar áttu það einnig sameignilegt að vera moldríkar en vegna einhverra hluta gátu þær ekki komið arfinum úr landi. Af milljónum Evrópubúa þá fannst þeim allmörgum tilhlýðilegt að eiga orðastað við mig um vel launuð viðvik tengt arfinum mikla. Það runnu hins vegar á mig tvær grímur og skrifaði ég í framhaldinu eftirfarandi pistil:

Fæ mikið magn af pósti frá fólki sem lent hefur í mikilli ógæfu. Yfirleitt hefjast bréfin á "My former husband general XXXXX sem var keyrður niður, fórst í flugslysi eða var handtekinn og lést í fangelsi, varð fyrir sprengjuárás, eða hvarf sporlaust og hefur ekki sést síðan.
Agaleg tíðindi sem því miður virðast engan endi ætla að hafa því nú nýverið fékk ég fregnir af einum til viðbótar sem yfirgefið hafði þessa jarðvist með byssukúlu í brjóstið.

Hinar afar sorgmæddu fjölskyldur hafa þó allflestar náð að bera harm sinn í hljóði (ef frá er talin hin afar sorglega umfjöllun um jarðvistarskipti ástvinanna í upphafi bréfanna) og tekið til við að ná hinum stórfelldu eignum hins framliðna úr hinu virðulega Nígeríska eða Gahaniska bankakerfi sem ku sýna mikla óbilgirni nema ef vera vildi að einhver góðhjartaður vesturlandabúi vildi vera svo vænn að þiggja nokkrar milljónir til að hjálpa örlítið við að koma nokkrum milljörðum úr landi .

Erindin því ekki beint ósk um hluttekningu og aðstoð í sorgarferlinu - lífið verður að halda áfram þó að einn og annar generálinn fari yfir móðuna miklu - hins vegar óþarfi að láta aurana fara líka - ætlum við að bera ábyrgð á því að ekkjan og fjölskylda hins mikla XXXXX þurfi að borða hrísgrjónavelling það sem eftir er, eins og sauðsvartur almúginn?

Nú eru góð ráð dýr. Var bent á eitt sem virkar þokkalega. Fékk mér sem sagt forritið I hate spam og viti menn sorgarsögum frá Nígeríu og Ghana hefur fækkað verulega - getur verið að þessi fjölmörgu og margþættu áföll séu bundin fáum fjölskyldum? Eða eru bara svona fáar email adressur í Afríku? Eða er einhver að plata mann? Veit það ekki?

fimmtudagur, 15. október 2009

Brennuvargarnir - frábær sýning

Brá mér í Þjóleikhúsið í gærkvöldi - erindið að sjá forsýningu á leikritinu Brennuvargarnir eftir Max Frisch. Óþægilega mikil skírskotun í samtímann þó svo að verkið hafi verið skrifað fyrir margt löngu. Frábær leik- og hljóðmynd. Afburða leikarar með Eggert Þorleifsson fremstan meðal jafningja. Fín sýning, fínn stígandi og áleitið viðfangsefni. Sem sagt gott leikhús og sýning sem á erindi við alla ekki síst á þessum síðust og verstu - hvet fólks til þess að láta þessa sýningu ekki fram hjá sér fara.

laugardagur, 10. október 2009

Af "áhangendaáráttu"

Á meðan engin segir sorry og engin gengst við ábyrgð á hruninu þá verður ekki sátt í íslensku samfélagi - Sorgleg málefnafátækt í þinginu - Halda menn með sínu liði algerlega óháð því sem á undan er gengið? - Er stjórnmálabarátta einhverskonar fótboltaleikur sem byggir á "áhangendaáráttu" fremur en almennri skynsemi?

Veit það ekki en ég skil ekki fylgistölur stjórnmálaflokka þessi dægrin sem ekki eru í neinu samræmi við "aldur og fyrri störf" viðkomandi flokka. Hin blinda ást ruglar fólki í rýminu og það jafnvel svo mikið að sómasamlegt ræstingarfólk fær það óþvegið fyrir það eitt að reyna að þrífa upp óhreinindin eftir ástmöginn.