mánudagur, 18. janúar 2010

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar

Ég hef oft leitt hugann að því hversu gífurlegar "menningarveitur" tónlistaskólarnir eru. Tónlistarskólinn i Hafnarfirði er gott dæmi um slíkt. Ég hef lengi haldið því fram að það sé sterkt samhengi milli góðs gengis hafnfirskra unglingahljómsveita og góðrar starfsemin Tónlistaskólans í Hafnarfirði. Hafnfirskum hljómsveitum hefur í gegnum árin vegnað afar vel í Músíktilraunum ÍTR og ef grannt er skoðað þá hafa all flestir tónlistarmannana grunn úr tónlistarskólanum. Ágætt aðgengi að æfingaaðstöðu og góður tónlistarskóli er því formúlan.

Nám í tónlistaskóla er því ekki eins og ýmsir halda fram, leiðinlegar píanóæfingar, perlodíur og fúkur. Námið er ekki síst fyrir flesta nemendur aðgangur að áhugamáli sem endist út ævina hvort sem fólk nýtur tónlistar sem hlustendur eða iðkendur. Góðar tómstundir og eða áhugamál er spurning um lífsgæði sem ekki verða metin til fjár. Nú og svo má ekki gleyma þeim sem leggja tónlistina fyrir sig í atvinnuskyni og auðga mannlífið og menninguna með framlagi sínu.

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar er að mínu mati afburðaskóli sem hefur á að skipa úrvals fólki. Sá sem þetta ritar hefur verið þeirra ánægju aðnjótandi á liðnum árum að sækja tónleika skólans á hinum ýmsu stigum og alltaf haft jafn gaman af hvort sem verið hafa tónleikar byrjenda eða lengra kominna. Starfsemi tónlistaskóla er alltaf mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þeim sem við nú lifum á. Við Hafnfirðingar eru heppnir að eiga einn slíkan, sannkallaða "menningarveitu".

Engin ummæli:

Skrifa ummæli