laugardagur, 30. apríl 2005

Flott músík

Var í því ánægjulega hlutverki í gærkvöldi að vera dómari í Rokkhljómsveitakeppni Hafnarfjarðar og í keppni tölvutónlistarmanna sem fram fór í félagsmiðstöðinni Hrauninu.

16 hljómsveitir og 6 tölvutónlistarmenn á aldrinum 13 – 16 ára voru þátttakendur.
Í tölvutónlistinni sigraði Siggi “húfa” sem starfar undir nafninu Forsetinn. Frábær tónlistamaður sem á örugglega eftir að kveðja að í framtíðinni.
Stúlknabandið Gas station Hockers sigraði í hljómsveitarkeppninni. Gott og kraftmikið rokkband sem á framtíðina fyrir sér.

Í raun voru allir þátttakendurnir sigurvegarar og hinn stóri sigur var ekki síst hafnfirsk unglingamenning. Það er engin tilviljun að okkur hafnfirðingum gengur vel í Músiktilraunum. Við eigum fjölda efnilegra tónlistarmanna sem vonandi halda áfram sem lengst. Gott rock and roll spyr ekki um stað, stund né aldur.

Fínt kvöld og flott tónlist - þakka fyrir mig.

fimmtudagur, 28. apríl 2005

Hver á hvað ?

Datt Olof Palme í hug þegar að framsóknarþingmenn ganga nú fram fyrir skjöldu og opinbera eignir sínar. Í flestum ríkjum þykir það auðvitað ekkert nema sjálfsagt að almenningur viti um eignatengsl stjórnmálamanna við einstök fyrirtæki.

Palme og fjölskylda hans átti nokkurt hlutafé í stórverslun í miðborg Stokkhólms og samkvæmt upplýsingaskyldu þingmanna í Svíþjóð var það öllum ljóst.
Palme gekk reyndar skrefinu lengra því að í þau fjöldamörgu ár sem hann var forsætisráðherra þá fól hann starfsmannafélagi fyrirtækisins að fara með umboð þessara hlutabréfa og afsalaði sér með öllu áhrifum á þeim vettvangi. Uppskar sem vænta mátti trúverðugleika og ekki síst vinsældir.

Undarlegt að hér uppi á Íslandi séu menn að bisa við þetta ca 30 – 40 árum eftir framsýnum lýðræðisríkjum og slái sig til riddara.
Er sennilega ekki flókara mál en það að þetta hafi verið “ill nauðsyn” enda almenningur bæði undrandi og hneykslaður á því hvernig stjórnvöld hafa síðustu ár sólundað sameiginlegum eigum okkar til útvaldra fyrir spott prís, stundum kallað einkavinavæðing. Framsóknarflokkurinn með svona ”ég er ekki í liðinu” yfirlýsingu? Bíð spenntur eftir því hvernig aðrir flokkar taka á þessu og ekki síst hinn stjórnarflokkurinn.

fimmtudagur, 21. apríl 2005

Samningar, vígsla og sundkort

Samningar
Samningsaðilar hittust á þriðjudag á stuttum fundi þar sem rætt voru helstu atrið í komandi kjarasamningum . Sem vænta mátti var ekkert um formleg viðbrögð af hálfu launanefndar önnur en hefðbundin, en ákveðið var að hittast í næstu viku og hefja samningslotuna.

Vígsla
Það gerir það að verkum að fyrirhuguð vígsla hins glæsilega orlofshúss okkar STH félaga á Stykkishólmi er frestað um óákveðin tíma en stefnt að því að það verði við fyrst hentugleika.

Sundkort
Við minnum á hin afar ódýru sundkort sem félagmönnum STH stendur til boða. Það er tilvalið að efla kropp og anda í upphafi sumars. Er ekki bara ódýrt heldur líka meinhollt. Allar frekar upplýsingar fást á skrifstofu STH.

miðvikudagur, 20. apríl 2005

Heimasíða STH - biluð

Heimasíða STH er í ólagi þessa daganna. Verið er að kanna hvað veldur og vonast til að hún komist í lagi fljótlega.

sunnudagur, 17. apríl 2005

Betra en best

Brá mér í Hólminn til þess að kíkja á nýja bústaðinn okkar STH félaga. Betra en best datt mér í hug enda ekkert annað við hæfi. Stórglæsilegur bústaður á frábærum stað. Vona að flestir félagar sjái sér fært að mæta á vígsluhátíðina um mánaðarmótin. Bústaðurinn nánast alveg að verða tilbúin sem er ekki seinna vænna því hann fer í útleigu um miðjan maí. Veit að félagmenn eiga eftir að njóta dvalarinnar.

laugardagur, 9. apríl 2005

Frelsi gungunnar ?

Er sammála þeim hugmyndum sem koma fram í lagafrumvarpi um að tengja bæði farsímanúmer og IP adressum í tölvum nafni og kennitölu. Sem er fyllilega tímabært.
Er í raun verið að samræma ábyrgð og því eðlilegt að sama gildi á þessu sviði eins t.d. ritstjórnarleg ábyrgð á fjölmiðlum sem einnig gildir varðandi prentverk eins og bæklinga og dreifirit. Póstinum er t.d óheimilt að dreifa ritum eða bæklingum sem ekki eru sérstaklega merkt ábyrgðarmanni.

Frjálshyggjufélagið er alfarið á móti þessu. Ég gef ekkert fyrir rök þeirra í þessu máli enda hlýtur frelsinu að fylgja ábyrgð sem auðvitað á engan vegin við hjá þeim gungum sem í skjóli nafnleyndar stunda einelti og jafnvel eineltisherferðir, senda hótannir og jafnvel annað rugl og öllu verra. Flest allt athæfi sem varða við lög. Þetta eru athæfi sem viðkomandi myndu aldrei stunda sem ábyrgir einstaklingar í opnu samfélagi.

Réttur hvers er þá fyrir borð borinn? Er frelsi gungunnar til athafana af þessum toga það frelsi sem við sækjumst eftir? – Nei takk ómögulega segi ég – ábyrgir einstaklingar og opin umræða í lýðræðis þjóðfélagi er það eina sem skylt á við frelsi í þessum efnum. Ekki satt?

mánudagur, 4. apríl 2005

Taldi mig lesa gott gabb

All margir lesendur síðunnar hlupu apríl. Við Geir „milljónamæring” var m.a. haft samband frá fjölmiðlum. Geir er og væri manna líklegastur til að láta gott af sér leiða á þennan hátt og þess vegna margir sem trúðu skrökvinu. Bið lesendur forláts á spauginu og lofa því að plata ekki aftur nema...

Hélt hins vegar að ég hefði sjálfur hlaupið apríl, las nefnilega í Morgunblaðinu að Hafnarfjarðarbær hefði fengnið sérstaka viðurkenningu m.a. fyrir „velheppnaðar stjórnsýslubreytingar 2003”. Verðlaunaveitandinn ekki ómerkari aðili en Samband íslenskra sveitarfélaga. Fannst þetta flott gabb og mikið grín eins og Laddi segir.

Var ekki gabb, reyndist hins vegar (sem betur fer) vera bara hluti af herlegheitunum og bæjarfélaginu að sjálfsögðu óskað til hamingju með það sem virða ber og vel hefur verið gert og viðurkenning veitt fyrir. Meðal annars símenntunaráætlanir sem og hið nýja bókhaldseftirlitskerfi.

Hitt, eitt og sér að veita verðlaun fyrir stjórnsýslubreytingar 2003, sem voru og eru okkur öllum algerlega ógleymanlegar, er sama pönkið og að Starfsmannfélag Hafnarfjarðar myndi veita launanefnd sveitarfélaga sérstaka viðurkenningu fyrir „ríkan" skilning á högum láglaunafólks hjá sveitarfélögunum.

föstudagur, 1. apríl 2005

Vann rúma milljón

Mikil höfðingi er hann Geir vinur minn Bjarnason og samstarfsmaður. Drengurinn vann rúma miljón í Víkingalóttóinu og gaf strax helming þess til velferðarmála.
Veit ekki hvort það er kaupið hjá hinu opinbera sem er svo gott að menn eru aflögufærir eða hvort menn eru með stórt hjarta. Sennilega það síðarnefnda en umfram allt gott mál og til hamingju með framtakið.

þriðjudagur, 29. mars 2005

Af smokkum

Vorum sammála um það ég og þáverandi bæjarstjóri Guðmundur Árni Stefánsson að óhæft væri að selja ekki smokka í félagsmiðstöðinni. Árið var 1988 og eins ótrúlegt og það kann að virðast þá var þetta nokkuð feimnismál.

Ungir menn áttu einn þann kost að fara í apótekið, sem var eini sölustaðurinn í þá daga, roðna og blána og versla oft á tíðum, þegar að upp var staðið, alkyns annan varning en blessaðar verjurnar, allt út úr tómum vandræðagangi. Var þetta því mörgum ungum manninum hin mesta sneypuför.

Ekki mátti búa við þetta ástand lengur, vorum við sammála um , þannig að ég geri mér ferð í hið virðulega Hafnarfjarðarapótek, sem þá var og hét. Spurði eldri dömu sem þarna afgreiddi umbúðalaust um verjur. Af hæversku réttir hún mér lítinn pakka eins og hér væri um leyniskjöl að ræða.

Var auðvitað ekki kátur með þessa afgreiðslu enda í opinberum erindagjörðum. Bið hana því að sýna mér fleiri tegundir sem og hún gerði, en skimar jafnframt í kringum sig. Velti fyrir mér í rólegheitum gæðum þessar 10 – 12 tegunda sem á boðstólum voru og spyr hana í framhaldinu um verð, gæði og hvað hún telji hagstæðustu kaupin. Spurningin kom henni í opna skjöldu enda sennilega aldrei verið spurð að þessu, bendir mér síðan á tiltekna tegund, sem hún kveður mest keypta. „Fæ þá 200 stykki af þessum“ segi ég eftir nokkra umhugsun og sé að konunni bregður við, hugsar sennilega hvað ég haldi að ég sé , Casanova eða eitthvað álíka fyrirbæri.

„Tekur þú beiðni frá bæjarsjóð “ spyr ég og sé þá að afgreiðslukonunni er allri lokið. Félagsmálstofnun að kaupa smokka fyrir einhvern kvennaflagarann, hugsar hún örugglega, lýkur samt afgreiðslunni af fagmennsku en með nokkurn roða í vöngum.

Blessaðir smokkarnir fóru síðan í sölu upp í gamla Æskó. Seldust ágætlega , flestir ef ekki allir sem þá keyptu nýttu þá sem vatnsblöðrur, enda ýmis ungmenni sem ekki voru klár að hinu viðtekna notagildi smokksins, sem auðvitað kom síðar. Hitt er annað mál að ástfangnir starfsmenn sáu sér sennilega leik á borði og versluð frekar hjá okkur en að fara í apótekið.

Hitt er svo allt annað mál að í félagsmiðstöðinni Vitanum var smokkasjálfsali löngu áður en það var almennt. Ágætur starfsmaður í félagsmiðstöðinni hafði sannfært fyrirtækið um að það yrði gríðarlega sala og fyrirtækið myndi græða verulega.

Salan var lítil en gestur nokkur í fermingaveislu sem þarna var haldin, en oft var húsið leigt undir slíkt þegar að allir aðrir salir voru uppteknir, sagði þetta í fyrsta skiptið sem hann hafi verið í fermingu þar sem jafnframt voru seldir smokkar.

sunnudagur, 20. mars 2005

Okkar menn unnu

Óska strákunum í hljómsveitinni Jakobínarína til hamingju með sigurinn í Músiktilraunum. Frábær árangur hjá ungum og efnilegum tónlistarmönnum úr Áslandinu.

Við hafnfirðingar eigum fullt af góðu tónlistarfólki, okkur vantar bara meira af æfingarhúsnæði. Menningarstarfsemi þarf sitt húsnæði alveg eins og blessaðar íþróttirnar.

Góður tónlistarskóli skilar ekki bara fólki í „Melabandið”, góður tónlistarskóli er fínn grunnur fyrir poppara. Þess njótum við svo sannarlega þessa daganna (og árin) hér í Hafnarfirði, enda fullt af góðum unglingaböndum í bænum. Jakobínarína fremstir meðal jafninga – Íslandsmeistarar í rokktónlist - húrra, húrra, húrra og húrra.

miðvikudagur, 16. mars 2005

Komust mun fleirri en vildu

Hélt gagnmerkan fyrirlestur í kvöld á okkar ágæta Byggðarsafni. Þekkti alla gestina sem voru , forstöðumaður í félagsmiðstöð, aðstoðarforstöðumaður í annarri félagsmiðstöð, ritstjóri , sagnfræðingur, bæjarfulltrúi og deildarstjóri í menntamaálráðuneytinu. Allt saman sóma fólk.

Minnugur þess að sjálfir Bítlarnir fengu ekki marga á tónleika hjá sér á Hamborgar árunum, heyrði reyndar að einhvern tímann hafi þeir leikið fyrir einn gest, þá flutti ég fyrirlesturinn.

Og viti menn, eftir rúmlega klukkustundar fyrirlestur um félagsmiðstöðvarnar í hinu sögulega ljósi þá fór ríflega annar eins tími í afar fjörugar og málefnalegar umræður meðal gesta. Er því á þeirri skoðun að magn gesta sé ekki endilega mælikvarði á góðan fund. Virkni og áhugi þeirra sem mæta er lykilatriði og yfir því var ekki hægt að kvarta í þessu tilfelli nema síður sé. Segi því bara - þakka þeim sem á hlýddu.

sunnudagur, 13. mars 2005

Fín árshátíð hjá starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar

Held ég? Það er nefnileg þannig að við sem stöndum í, og höfum staðið í undirbúningi ýmiskonar viðburða og hátíðarhalda til margar ára, vitum sem er að ekki er á vísan að róa hvað fólki finnst gott eða slæmt. Mér fannst skemmtikraftar, veislustjóri sem og hljómsveit standa sig með mikilli prýði. Guðrún Gunnarsdóttir alltaf góð, enda ein af okkar allra bestu söngkonum.

Það ytra þ.e. skemmtikraftar, matur og fleira í þeim dúr er eitt og á því eru eins margar skoðanir og þátttakendur eru. Annað eru atriði eins og tæknimál, tímasetningar á dagskráatriðum , uppröðun og aðbúnaður í húsi er annað og oft hlutir sem fólk tekur ekkert eftir og hefur enga skoðun á svo fremi að allt gangi þokkalega fyrir sig og sé snyrtilega gert.

Dettur í hug ýmislegt t.d. varðandi 17. júni hátíðarhöldin í gegnum árin. Eitt sinn vorum við, að okkar mati sem þetta skipulögðum með fremur kléna dagskrá, höfðum af þessu nokkra áhyggjur, höfðum lítil fjárráð og allt stemmdi í lélegan 17. jánda .

Dagurinn rennur upp og viti menn brakandi sólskin og sumarverður eins og það gerist best. Bæjarbúar fjölmenntu á hátíðina og allir himinlifandi og allir mjög ánægðir og einhverjir töldu hér vera á ferðinni þann besta 17. júní.

Velti því fyrir mér ef að þessi sami 17- jándi hefði farið fram í slæmu veðri? Hefðum sennilega fengið orð í eyra. Velti því fyrir mér í þessum efnum hvort mat á gæðum og hvernig stemming verður sé ekki eitthvað sem fyrst og fremst mótast innra með fólki og að dagskrá sem slík sé ekki endilega lykilatriði í þeim efnum þ.e.a.s. svo fremi að hún sé þokkaleg.

Var ekki var við annað en að fólk væri þokkalega hresst með gærkvöldið - Liggur kannski í ódýru miðaverði, afar ódýrum veitingum og hressu og skemmtilegu fólki - sem bæjarstarfsmenn í Hafnarfirði vissulega eru - málið er sennilega ekkert flóknari en það?

mánudagur, 7. mars 2005

20.000 gestir

Nokkur áfangi um helgina þar sem gestir síðunnar eru orðnir 20.000. Góður miðill og fínt form, þ.e.a.s.ef fólk skrifar undir nafni og standur með þeim hætti fyrir sínum skoðunum. Því miður eru nokkur brögð á því að svo sé ekki raunin hjá ýmsum þeim er nýta sér þennan miðil. Sem er auðvitað verulegur galli á þessari stóru veröld sem Netheimar eru orðnir. Netverjavegabréf hlýtur að vera það sem koma skal.

Hef sjálfur þá reglu að breyta aldrei neinu sem komið er inn á síðuna en þó með þeirri undantekningu að stafsetningar- og málfræðivillur eru leiðréttar, þ.e.a.s ef maður sér þær. Tjáningarfrelsið er aðalatriðið og sem slíkt haft í öndvegi, hef því ekki verið að láta hina kórréttu setningarfræði eða lög um íslenska stafsetningu trufla mig neitt sérstaklega.

Mun halda þessu áfram eins lengi og ég nenni og hef eitthvað að segja. Það er afar praktískt að eiga persónulegt málgagn. Get með þeim hætti fjallað um nánast hvað mál sem er og um verkalýðsmál út frá allt örðum forsendum en ég geri sem ritstjóri og ábyrgðamaður STH síðunnar.( Starfsmannafélags Hafnarfjarðar)

Fæ yfirleitt mjög fín viðbrögð frá lesendum, með nokkrum undantekningum þó. Þó er það merkilegt að það eru yfirleitt sömu greinarnar sem fá sterk viðbrögð og þá í báðar áttir. Veit þá sem er að þar eru mikil álita mál á ferðinni - hitamál sem auðvita er nauðsynlegt að fjalla um. Þakka lesendum, ábendingar, athugasemdir og hlý orð.

þriðjudagur, 1. mars 2005

Láglaunastefnu mótmælt á alþjóðlegum vettvangi


Hélt gagnmerka ræðu s.l. sunnudag í London. Staðurinn var Speakers Corner í Hyde Park þar sem málfrelsið er algert og þeim sem það vilja býðst að segja hug sinn og afstöðu í hverju því málefni sem viðkomandi þurfa þykir, en aðeins á sunndögum.

Lenti í smá aðstöðuleysi í upphafi , en þar sem að múslimi nokkur var í málhvíld þótt mér víð hæfi að hann af umburðarlyndi sínu léði mér kassa sinn um stundar sakir þannig að ég gæti hafði mig örlítið yfir viðstadda og breitt út minn göfuga boðskap. Sá síðskeggjaði vildi ekki fyrir nokkurn mun lána mér kassann sinn í nokkrar mínútur þar sem ég væri kristin maður? Fordómar spyrja ekki um stað og stund.

Umræðuefnið, mótmæli við hina grjóthörðu láglaunastefnu Hafnarfjarðarbæjar sem kristallast í stefnu launanefndar sveitarfélaga. Stefnu þessari var harðlega mótmælt og varað við afleiðingum hennar með fjölmörgum dæmum og gildum rökum þar um. Skoraði ég á bæði launanefnd sveitarfélaga og Hafnarfjarðarbæ ( enda óljóst hver ræður ferð í stefnumótun) að láta af þessari stefnu hið fyrst og taka upp nútímalegri og jákvæðari viðhorf í þessum málum.

Ekki var ég var við annað en að fundamenn væru mér að öllu leyti sammála , allavega þeir sem íslensku skyldu, sem voru a.m.k. fimm manns. Aðrir gestir sýndu hug sinn í verk með því að staldra við og gefa ræðumanni gaum og sáu sem var að málefnið var mikilvægt og þrungið alvöru.

sunnudagur, 27. febrúar 2005

Félagsmiðstöðvar og London

Erum búin að vera síðustu daganna í London hópur frá ITH. Fórum víða og sáum bæði afar vel búnar félagmiðstöðvar og einnig aðrar sem voru nánast rekar af viljanum einum saman og af fólki sem hafði sterkar hugsjónir um velferð unglinga að leiðarljósi.

Sú merkasta er auðvitað Toynbee Hall sem er í raun elst allra félagsmiðstöðva heiminum og var stofnuð árið 1884 þegar að félagslegt óréttlæti í kjölfar iðnbyltingarinnar og ástand fátækrahverfanna með þeim hætti að mörgum sómakærum háskólamönnum og aðilum í efri stéttum hins breska samfélags ofbauð aðbúnaður lægri stétta samfélagsins. Samfélag þar sem kolanámuhesturinn var meira virði en börn í þrælaánauð kolunámanna. Úr þessu sprettur hugmyndafræði Hverfamiðstöðva sem voru í raun forverar félagsmiðstöðva fyrir ungt fólk

Starfsemin Toynbee Hall er enn í fullum gangi og nú eru málefni minnihluta hópa og innflytjenda í forgrunni og ljóst að þrátt fyrir 120 ára sögu þá er hlutverk miðstöðvarinnar ennþá í fullu gildi.

Frú Thatcher sem ríkti fyrir margt löngu setur því miður enn þann dag í mark sitt á velferðarkerfið breska sem engan vegin hefur jafnað sig á fantatökum hennar sem var gríðarlegur niðurskurður fjárframlaga til félagasamtaka og þeirra aðila sem vinna að velferðarmálum æskunnar.

Félagsmiðstöðvar og málefni hinnar ófélagsbundnu æsku lentu einfaldlega undir og öll statistk sýnir einfaldlega hve arfa vitlaust það var þar sem fjöldi vandamála síðustu ár og áratugi hefur aukist verulega, bæði eiturlyfjaneysla unglinga sem og glæpir. Unglingar margir hverjir eiga í fá hús að venda. Sérstakleg hefur þetta komið illa niður á þeim sem minna mega sín í samfélaginu og búa við hvað verstar aðstæður.

Félagsmiðstöðvar eru forvarnarstarf - og ekki alltaf hægt að reikna ágóðann með aðferðafræði háskólamenntaðara bókara - Einn unglingur sem fetar slæmu brautina í stað hinnar góðu og dyggðugu getur verið "gjaldfærður" í "nútíma" bókhaldskerfi hér og þar og hjá hinum ýmsu stofnunum samfélagsins, "kostnaður" getur hæglega orðið 10.000.000 kr.eða meira, allt eftir tilvikum?

Hvenær verður hinum raunverulega sparnaði hins fyrirbyggjandi starfs gaumur gefin - sem er ekki bara að fækka þeim einstaklingum sem ekki ná að fóta sig og þeim harmi sem það hefur í för með sér - er einnig spurning um að koma í veg fyrir gríðarleg útgjöld samfélagsins sem hljótast af þeirri ógæfu þegar að unglingur lendir á refilstigu - verður vonandi einhvern tímann metið út frá réttum forsendum og þá mun þeir sem þessu ráða sjá hve vel fé til velferðamála æskunnar nýtist í raun og veru.

föstudagur, 18. febrúar 2005

Héraðsdómur Reykjaness

Þannig hagar til að vinnustaður minn er gengt nýlegri byggingu Héraðsdóms Reykjaness við Linnetstíginn í Hafnarfirði. Tilkoma dómsins hefur breytt ýmsu, því að í stað frábærs útsýnis þá hefur annað sjónarspil tekið við.

Sem eru mannanna sorgir og gleði, allt eftir því hvernig lyktir mála hafa orðið í dómsmálum viðkomandi. Jakkafataklæddir menn staldra við fyrir utan dóminn og ræða málin í góðu tómi , aðrir er ögn háværari og einhvern tímann heyrði ég menn senda hvorum öðrum tóninn af nokkrum ákafa og hávaða.

Lögreglubílar, menn með hulin andlit og sjónvarpsmyndavélar verða hluti hverdagsins. Undirmálsmenn hírandi undir gafli á köldum vetrarmorgnum, staupandi sig áður en farið er í dómsal. Góðkunningjar lögreglunar niðurbrotnir í smók eftir dómsuppkvaðningu og á slíkum stundum oft í samtölum við ungan blaðamann DV sem virðist vaka yfir réttinum og því sem þar fer fram.

Þrátt fyrir skertan sjóndeildarhring vegna þessar byggingar Héraðsdóms þá er ég ekki nokkrum vafa um að hinn eiginlegi sjóndeildarhringur hafi víkkað til muna og sé nú að einhverju leyti mun víðari en áður var.

Um dóma les maður í blöðum og þeir snerta mann misjafnlega. Hitt er öllu áhrifaríkar og sorglegra sem er að sjá hluta þess harmleiks sem átt hefur sér stað og leitt til dómsmálsins. Þolendur og gerendur, allt er þetta fólk af holdi og blóði

Með þúsund kall í annarri hendinni og Biblíuna í hinni hendinni að aflokinni afplánun á Litla Hraun eins og Lalli Jons birtist okkur í samnefndri heimildarmynd er auðvitað bara ávísun að annan hring í dómskerfinu.

Velti fyrir mér málefnum síbrotamanna sem flestir hverjir eiga við veruleg vandamál af andlegum toga að etja og nánast undantekningarlaust eru viðkomandi einnig langt gengir vímuefnaneytendur. Velti fyrir mér hvort dómskerfið sé hinn eiginlegi vettvangur eða hvort einhverjir aðrir kostir sé bæði samfélaginu og viðkomandi einstaklingum betri - Veit það ekki - efast samt sem áður oft um hvort „Betrunarvist" sé oft á tíðum í raun betrunarvist?

fimmtudagur, 10. febrúar 2005

SUS bíó „Farenhype 9/11"

Fór í SUS ( Samband ungra Sjálfstæðismanna) bíó og hafði gaman af. Þakka SUS-urum boðið en þar á bæ eru menn óþreytandi við að breiða út boðskapinn. Og hvað svo sem manni kann að finnast um innihaldið þá verður ekki fram hjá því horft að formaður sambandsins Hafsteinn Þór Hauksson er dugmikil forystumaður sem lagt hefur á sig mikla vinnu í gegnum árin í þágu ungliðahreyfingarinnar og sem slíkur stuðlað að virkri þjóðfélagsumræðu á síðustu árum.

Myndin „Farenhype 9/11" var hins vegar nokkuð spes og er gerð sem andsvar við mynd Michaels Moore „Farenheit 9/11". Verð að segja eins og er að ef mynd Morre var áróðurskennd þá var þessi í æðri víddum hvað það varðar enda gerð skömmu fyrir bandarísku forsetakosningarnar.

Hvort Bush sneri bókinni á hvolfi í skólaheimsókninni eða ekki, eða hvort hann sat aðgerðarlaus í sjö eða fimm mínútur eftir að hann fékk fregnir um árásirnar á Tvíburaturnana, finnst mér ekkert grundvallaratriði. Að allir séu í olíusukkinu, líka demókratar og fl í þeim dúr, og að ættingjar Bin Laden hafi ekki verið fluttir frá USA fyrr en tveimur dögum eftir árasina en ekki strax á eftir og að Michael Morre sé sérstaklega vafasamur pappír, hefur enga þýðingu hvað varðar grundvallaratriði málsins.

Og þrátt fyrir trix eins undirliggjandi hjartsláttarhljóð og ýmsa dramatíska hljóðeffekta , king size skammti af þjóðernishyggju, ofur ánægju með Bush og hans algerlega óbrigðulu störf þá nær myndin aldrei neinu flugi. Myndin er klauflega unnin og afar ósannfærandi og langt yfir strikinu tímunum saman. „Rebúblikanar á bömmer" væri sennilega réttnefni.

Umræður voru nokkrar eftir myndina en sem því miður tókust ekki sem skyldi enda einokaðar af einhverjum „besserwisser" sem sagði að ekki væri hægt að ræða við vinstri sinnað fólk um stjórnmál sökum gáfna? og það skyldi ekki frelsið?? Vakti nokkur andmæli og umræður sem höfðu fyrst og fremst skemmtanagildi. Varð af hin mesta skemmtun en lítið um konkret umræður um myndina.

„Poppið var gott" sagið í frægri kvikmyndagangrýni eitt sinn. Tek heilshugar undir þau orð.

mánudagur, 7. febrúar 2005

Kengúrur, krókódílar og annað ómeti?

Kengúrur, krókódílar og annað ómeti? Myndi einhver segja en öðru nær segi ég. Fer víða starfa minna vegna, en þó ekki alla leið til Ástralíu eins og ágæta lesendur gæti verið farið að gruna þegar að hér er komið sögu.

Var hins vegar í Kaupmannahöfn sem stjórnarmaður í verkefnastjórn UiN í þeim ánægjulegu erindagjörðum að gera upp og fara yfir framkvæmd hins afar velheppnaða unglingamenningamóts Ung i Norden sem haldið var í Hurrup á Jótlandi s.l. sumar.

Brá mér eitt kvöldið á ástralskan veitingastað í miðborginni. Bragðaði þar hina áströlsku flóru, krókódíl, kengúru, emu sem er fugl af ætt strúta og flís af nautakjöti. Allt saman mikið góðgæti og ekki spurning um að ef þetta er hinn "ástralski þorramatur" þá er það verulegt ánægjuefni að blóta þann þorrann.

miðvikudagur, 2. febrúar 2005

Er mjög ánægður með Víðistaðaskóla

Flott skólasamfélag og þrátt fyrir mikið rask vegna byggingaframkvæmda í vetur þá gengur skólastarfið með ágætum, sem er auðvita með ólíkindum, en gengur samt sem áður vegna þess að skólasamfélagið leggst á eitt til að svo megi verða, með ómældri fyrirhöfn. Félagsmiðstöðin Hraunið býr við góðan kost og blómlegt félagslíf auðgar andann og bætir mannlífið hjá unglingunum.

Er alveg sérstaklega ánægður með kennara dóttur minnar hana Eddu Jónasardóttur. Edda er einstakur mannvinur og KENNARI með stórum staf sem nýtur mikillar virðingar sinna nemenda, er þeim fyrirmynd og læriföður og sýnir okkur með störfum sínum hve gríðarlega mikilvægt kennarastarfið er.

Góður kennari verður aldrei metin til fjár og þetta smáræði sem bæjarfélögin eru reiðubúin til að greiða kennurum í laun er ekki í nokkru samræmi við mikilvægi þeirra starfa sem þar fara fram..Sorgleg skammsýni og skussamennska því gott og farsælt skólastarf er undirstöðuatrið allrar framþróunar samfélagsins, þar á auðvitað ekki að spara? “Sparnaður” í þeim ranni er í raun sóun.

miðvikudagur, 26. janúar 2005

Síminn & Vegagerðin

Kvíði þeim degi verulega ef að Vegagerðin verður seld eða einkavinavædd eins og nú tíðkast. Geri nefnilega fastlega ráð fyrir því að sama verði upp á teningnum og er uppi varðandi sölu Símans, þ.e.a.s. að fyrirtækið verði selt með öllu þ.m.t. dreifingarkerfinu.

Útkoman einkvædd einokun og öll önnur fyrirtæki undir Símann sett hvað varðar aðgengi að dreifikerfinu og á þeim prísum sem hið einkavædda einokunar fyrirtæki setur upp hverju sinni, verð og sem er þóknanlegt örfáum eigendum þess.

Ef Vegagerðin verður einkavædd þá má með sömu rökum halda því fram að allt vegakerfið fylgi með á sama hátt og dreifkerfið fylgir Símanum. Öll samgöngufyrirtæki, sem og almenningur hljóta því að greiða sérstaklega fyrir afnot af vegakerfinu.

Einkarekinn einokun flytur verulegt fjármagn í vasa fárra útvaldra í stað þess að nýta ágóðann til samfélagslegra málefna eins og t.d. bygginu sjúkrahúss. Fyrirtæki eins og Síminn hefur fært samfélaginu í heild björg í bú árum saman og afrakstur sjö ára starfsemi gerir okkur kleyft að byggja veglegt og fullkomið hátækni sjúkrahús.

Er það ekki skynsamara en að selja Símann t.d.hinu ameríska fyrirtæki Tele Danmark? Missa forræði yfir dreifikerfinu, sem skapar jafnframt algerlega óviðunandi rekstraskilyrði fyrir fjölmörg fyrirtæki hérlendis sem starfa í tækni,upplýsinga- og samskiptageiranum og ekki síst mun hærra þjónustuverðs til almennings en ella.