mánudagur, 2. febrúar 2004

Mér finnast áfengisauglýsingar

Mér finnast áfengisauglýsingar
sem dynja kerfisbundið á börnum og unglingum ekki vera spurning um tjáningarfrelsi. Þetta eru þrælskipulagðar söluherferðir sem kosta stórfé og miða að því einu að auka sölu vöru sem ekki er ætluð ungu fólki?
Þessi fyrirtæki eru því í raun boðflennur í líf barna og unglinga. Þessi fyrirtæki hika ekki við að búa til lífsstíl og gjörauglýsa hann eins og hann sé viðtekin. Íslendingar eru ekki rallhálfir af bjórdrykkju fyrir framan fótboltasjónvarpið á laugardögum - það er auglýst óskhyggja áfengisframleiðenda og það er þeirra leið til þess að móta lífstíl óharðnaðra unglinga. Tjáningarfrelsinu fylgir ábyrgð - áfengisauglýsingar lúta ekki þeirri ábyrgð nema síður sé.

Ef ég ætti 500 milljónir
og mér væri í nöp við t.d. útlendinga og ég myndi kjósa að eyða öllum þessum peningum í auglýsingar og úthúða öllu þessu ágæta fólki, væri ég þá að gera það í nafni tjáningarfrelsis.
Ég er hræddur um að svo yrði ekki raunin, ég væri auðvitað kallaður rasisti og það með réttu. Ég legði fólk í einelti í krafti fjármagns og þetta fjallaði á engan hátt um tjáningarfrelsi.

Ef maður segir frelsi
þá verður maður líka að segja ábyrgð. Ef maður lifir í samfélagi þá verður maður að taka tillit til ýmissa annarra hagsmuna en sinna ýtrustu. Frelsi barna og unglinga til þess að vera laus við þessa samfélagslegu boðflennu, áfengisauglýsingar, er mun mikilvægara í mínum huga heldur en frelsi til þess að brjóta lög og freista þess að ota áfengi að börnum og unglingum. Hvar liggja hin siðferðilegu mörk - eða eru þau yfirleitt til staðar hvað varðar áfengisauglýsingar???

Engin ummæli:

Skrifa ummæli