sunnudagur, 11. apríl 2010
Allir skipta máli
Miðvikudaginn 14.apríl næstkomandi kl. 12.00 verður haldið Málþing í Bratta, (Kennaraháskólinn) við Stakkarhlíð. Þar munu útskrifanemar flytja lokaverkefnin sín til B.A. prófs. Húsið opnar kl 11:45 og ráðstefnuna setur Trausti Jónsson Íþrótta-og tómstundaráðgjafi frá Þjónustumiðstöð Vesturbæjar.
Dagný Gunnarsdóttir – Tómstundir og unglingar með hegðunarröskun, hafa tómstundir áhrif á hegðun þeirra?
Hrafnhildur S. Sigurðardóttir – Tómstundir og stóriðja
Björg Óskarsdóttir – Áhrif Eden hugmyndfræðinnar á lífsgæði aldraðra
Agnar Trausti Júlíusson – Saga félagsmiðstöðva á Suðurnesjum
Gunnlaugur Víðir Guðmundsson – Námskeið fyrir ungt fólk án atvinnu
Eydís Bergmann Eyþórsdóttir – Tómstundir fyrir aldraða í Stykkishólmi
Jóhanna Aradóttir – Æskulýðsstarf innan Þjóðkirkjunar
Hlé kl.14.00 – 14.20
Kristín Ómarsdóttir – Götusmiðjan meðferðarúrræði fyrir unglinga
Bryngeir Arnar Bryngeirsson - Skotveiði
Helena Sif Zophoníasdóttir- Gönguleiðir.is
Heba Shahin– Mitt annað heimili: Tveir menningarheimar
Linda Birna Sigurðardóttir - Vinartengsl heyrnaskertra
Helga Þórunn Sigurðardóttir –Lög um áfengisauglýsingar - hugsanleg áhrif áfengisauglýsinga á börn og unglinga
Laufey Inga Guðmundsdóttir– Tómstundir í Árborg fyrir og í kreppu
Jóhanna Björt Guðbrandsdóttir- Hópastarf í Fjölsmiðjunni
Málþing lýkur 16:10
Allir velkomnir
laugardagur, 3. apríl 2010
Frábærar Músíktilraunir
Undanfarin ár hefur úrslitakvöldinu verið útvarpað um land allt, auk þess sem að sjónvarpið hefur tekið hátíðina upp og sýnt síðar. En helstu styrktaraðilar eru Icelandair FÍH og RÚV (Rás2).
Það er gleðilegt að RÚV útvarpi Músíktilraunum enda er þetta úrvalsútvarpsefni sem nýtur vinsælda yngstu kynslóðarinnar. Hins vegar skýtur nokkuð skökku við að þessi beina útsending sé af hálfu RÚV kostuð af þriðja aðila með endalausum áfengisauglýsingum eins og raun var s.l. laugardag 27/3. Áfengisauglýsingar eru boðflennur í tilveru barna og unglinga og sorglegt að þær séu í boði eða á ábyrgð RÚV á annars eins góðum viðburði og Músíktilraunir eru. Því miður hefur RÚV sýnt dæmalaust smekkleysi með sífeldum brotum á lögum um bann við áfengisauglýsingum og ekki síst í kringum dagskrá sem höfðar sérstaklega til barna og unglinga. Slíkt getur ekki verið markmið Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur eða Hins hússins með samstarfi við RÚV enda stefna ÍTR til fyrirmyndar eins og fram kemur í samhljóða bókun stjórnar ÍTR frá 11/12 2009 :
„Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur hvetur framleiðendur og innflytjendur bjórdrykkja og fjölmiðla til að hætta birtingu auglýsinga á slíkum drykkjum, því ljóst má vera að tilgangurinn er að auglýsa áfenga drykki jafnvel þótt í einhverjum tilvikum sé gerð tilraun til að koma lögmætum stimpli á auglýsingar með lágum áfengisprósentutölum. Auglýsingum þessum virðast mörgum hverjum ætlað að ná til ungs fólks og þær vinna gegn forvörnum í áfengismálum.“;
Því miður virðist yfirstjórn RÚV og markaðsdeild þessa opinbera fyrirtækis allra landsmanna ekki gera sér nokkra grein fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni. Með virðingarleysi sínu gagnvart lögvörðum réttindum barna og unglinga en í nánum og innilegum samskiptum við áfengisframleiðendur og hagsmuni þeirra hefur RÚV í raun fyrirgert rétti sínum til að taka þátt í eins merkilegu fyrirbæri og Músíktilraunir eru. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hvetja þá ágætu stofnum ÍTR sem og Hitt húsið til þess að efna til samstarfs við aðila sem bera hag æskunnar fyrir brjósti fremur en þá aðila sem láta ýtrustu viðskiptahagmuni ráða för, „hagsmuni“ sem auk þess eru hvorki löglega né siðlega boðlegir.
fimmtudagur, 1. apríl 2010
Forstöðumaður samfélagsmála
sunnudagur, 28. mars 2010
Skrifstofuvæðing æskulýðsmála í Hafnarfirði?

Í haust (2009) skunduð um 700 hafnfirsk ungmenni niður á Ráðhúsplan og mótmæltu einum rómi verulegum niðurskurði á fjárveitingum til starfsemi félagsmiðstöðva hér í bæ. Þetta var í senn gleðilegt og dapurlegt. Gleðilegt í þeim skilning að unglingar komi skoðunum sínum á framfæri og nýti sér lýðræðislegan rétt sinn til að tjá sig sem og réttinn til að mótmæla þegar að þeim fannst á hlut þeirra gengið. Dapurlegt að bæjaryfirvöld hafi gefið hagsmunum unga fólksins lítinn gaum með sífelldum niðurskurði fjárveitinga til félagsmiðstöðva í bænum.
Á krepputímum breytist margt. Eitt af því eru tómstundir og ekki síst tómstundir barna og unglinga. Lykilbreytur eru kostnaður . Þátttaka í dýrari tómstundatilboðum snar minnkar og þátttaka í ódýrari eða ókeypis þjónustu eykst sé slíkt í boði. Þó svo að æfingagjöld hjá íþróttafélögum séu niðurgreidd af bæjaryfirvöldum, sem er afar gott, þá er erfitt fyrir marga foreldra að fjármagna það sem til fellur aukalega s.s. búnaður, búningar, ferðakostnaður, mótsgjöld o.fl í þessum dúr allt eftir eðli starfsemi. Breytingar verða því þær, ef ekki er við brugðist, að þá finni ungviðið orku sinni annan farveg en í uppbyggilegri starfsemi. Viðkvæmasti hópurinn í þessum efnum er hin s.k ófélagsbundna æska. Því miður kennir reynslan okkur, bæði hvað varðar reynslu Finna og ekki síst ýmislegt sem átti sér stað í efnahagsdýfunni miklu hérlendis um miðjan tíunda áratug síðust aldar. Má þar nefna aukna unglingadrykkju , landasölu o.fl.
Til þess að mæta þessu ástandi þá þarf m.a. að efla starfsemi félagsmiðstöðva, styrkja fagmennsku, auka opnunartíma og auka möguleika unglinga til uppbygglegra tómstundastarfa í bæjarfélaginu. Þess vegna stingur í stúf að en á ný skulu koma fram tillögur sem fela í sér skerðingu á þjónustu við börn og unglinga í bæjarfélaginu hvort sem litið er til starfsemi eða fagmennsku. Í haust voru lagðar fram tillögur verkefnisstjóra æskulýðsmála um skipulagsbreytingar að frumkvæði íþrótta- og tómstundanefndar. Þær tillögur féllu sem kunnugt er í grýttan jarðaveg. Í kjölfarið var skipaður starfshópur sem fékk að það afmarkaða verkefni að endurvinna þegar fram komnar og afleiddar hugmyndir að virðist?
Eins og fram kemur í „nýju“ tillögunum þá segir þar berum orðum að segja eigi upp öllum forstöðumönnum félagsmiðstöðva og einungis endurráða þrjá sem yrðu þá forstöðumenn sem eftirleiðis kallast „svæðisstjórar“ yfir 2-3 félagsmiðstöðum? Í félagsmiðstöðvum sjálfum starfi eftirleiðis „verkefnastjórar“ sem ekki verði gerðar kröfur um að uppfylli nein sérstök skilyrði um menntun? Með þessu tapast a.m.k. tvennt. Í fyrsta lagi er fagfólk, menntun þeirra og dýrmæt reynsla fjarlægð af vettvangi og starfsmönnum á gólfi fækkar. Í öðru lagi er farið með menntunarkröfur til starfsmanna í félagsmiðstöðvum áratugi aftur í tímann. Í raun er því hér um verulegan niðurskurð að tefla hvort sem litið er til fjármuna eða faglegar sjónarmiða. Sem fyrr er gengið út frá því að tilraun í þessa veru í Áslandshverfi (sem engin hefur tekið út formlega) hafi gengið vel ? Með þessum tillögum er verið að flytja þrjá starfsmenn í stjórnsýslustörf á skrifstofu æskulýðsmála sem þarf ekki á slíku að halda enda þegar þrír starfsmenn þar fyrir? Félagsmiðstöðvar í Hafnarfirði verða með þessum breytingum ekki tækar til þess að taka að sér vettvangsnema í tómstunda- og félagsmálafræðum frá Háskóla Íslands. Starfsemin uppfyllir ekki lágmarkskilyrði um menntun starfsmanna til að taka að sér leiðsögn nema. Maður furðar sig á þessum tillögum og veltir jafnframt fyrir sér hvort búast megi við sambærilegum tillögum varðandi aðrar stofnanir bæjarins s.s. leik- og grunnskóla? Eiga tveir þrír leikskólar að fara undir forsjá eins leiksskólastjóra. Hvar er fagmennskan -eru börn og unglingar afgangsstæð?
Einhver skrifstofuvæðing æskulýðsmála er ekki verkefni dagsins, þau eru einfaldlega þau að auka eins og frekast er kostur starfsemi með börnum og unglingum í nærumhverfi þeirra. Hjá ITH starfa margir frábærir starfsmenn og stefna bæjaryfirvalda ætti fyrst og fremst snúast um að skapa forsendur fyrir ennþá betra starfi á vettvangi . Fyrirliggjandi skipulagstillögur hafa lítið með það að gera. Eftir stendur að rúmlega 700 ungmenni tjáðu hug sinn í verki á haustmánuðum. Í Hafnarfirði, bæ hins virka íbúalýðræðis verða menn að bregðast við slíku. "Hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnunum." (UNICEF, 2007).
Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 25.mars 2010 - www.fjardarposturinn.is
þriðjudagur, 23. mars 2010
Pravdisk fyrirsögn RÚV
Þegar að fram kemur frumvarp Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman sem skerpir lögin sem þegar hafa annars mjög skýran siðferðilega boðskap og anda, þá er fyrirsögn á heimasíðu RÚV um málið "Vill banna áfengisauglýsingar" ?
Hugsa um jólakveðju RÚV til barna og unglinga í landinu síðastliðin jól í formi síendurtekinar teiknimyndar um drykkfellda jólasveininn á sleða sínum sem gat ekki sinnt mikilvægum störfum sínum í aðdraganda jólanna þar sem hann fór að eltast við áfengisflutningabíl sem var fullur af "léttöli" sem er ekki til!
Sorglegt að yfirstjórn RÚV og þessi s.k. markaðdeild þess skynji ekki og eða skilji ábyrgð sína gangvart lögvörðum réttindum barna og unglinga í landinu.
laugardagur, 20. mars 2010
Ágæti þingmaður
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum fagna frumvarpi Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman um breytingar á 20. grein áfengislaga. Sjá nánar hér http://www.althingi.is/altext/138/s/0339.html . Þó svo að núverandi lög séu skýr og ekki síst hinn siðferðilegi boðskapur þeirra þá hefur ákæruvaldið og dómskerfið ekki tekið á þessum málum sem skyldi og það þrátt fyrir að kærur og ábendingar vegna ólöglegra áfengisauglýsinga nemi hundruðum. Dómar eru fjölmargir, dæmi um nokkra þeirra má sjá á heimasíðu Foreldrasamtaka gegn áfengisauglýsingum www.foreldrasamtok.is En betur má ef duga skal og í þeim efnum styrkir frumvarp Ögmundar Jónassonar og Þuríðar Backman sjálfsögð réttindi barna og unglinga til þess að vera laus við gengdarlausan áfengisáróður.
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum skora á alla alþingismenn hvar í flokki sem þeir standa til að veita þessu frumvarpi brautargengi. Velferð barna- og unglinga er brýnna verkefni en ýtrustu viðskiptahagsmunir áfengisframleiðenda. Æskan er okkar fjársjóður
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum
"Hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnunum." (UNICEF, 2007).
Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum
Heimasíða www.foreldrasamtok.is
Rafpóstur foreldrasamtok@foreldrasamtok.is
Foreldrar, forráðamenn og aðrir þeir sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti
SNIÐGÖNGUM AUGLÝSTAR ÁFENGISTEGUNDIR
fimmtudagur, 11. mars 2010
Áskorun til sveitarfélaga

Innlendar og erlendar rannsóknir sýna að þátttaka í skipulögðu félags- og tómstundastarfi undir handleiðslu hæfra leiðbeinenda dregur úr líkum á hvers kyns áhættuhegðun, félagslegri einangrun og skerðingu á lífsgæðum. Ávinningur af því að skerða tómstunda- og félagsstarfsemi þar sem einstaklingar eru virkir þátttakendur er því enginn. Mikill ávinningur yrði hins vegar að því að styrkja slíka starfsemi. Undirrituð benda á 24.grein Mannréttindayfirlýsingar SÞ en þar segir „Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda“.Samkvæmt lögum um öldrunarþjónustu segir í 13.grein.
„Þjónustumiðstöðvar aldraðra sem eru starfræktar af sveitarfélögum til að tryggja eldri borgurum félagsskap, næringu, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit. Þjónustumiðstöðvar geta starfað sjálfstætt eða í tengslum við aðra þjónustu sem aldraðir njóta“.
Einnig viljum við benda á að Ísland er aðili að Barnasáttmála SÞ. Samkvæmt 31. grein sáttmálans viðurkenna aðildarríkin rétt barns til að stunda tómstundir, leiki og skemmtanir sem hæfa aldri þess. Auk þessa skuldbinda aðildarríki sig til að virða og efla rétt barns til fullrar þátttöku til tómstundaiðju og stuðla að viðeigandi og jöfnum tækifærum. Við skulum ekki gleyma að hinn rétti mælikvarði á stöðu þjóðar er hversu vel hún sinnir börnum sínum. Mikilvægi tómstunda- og félagsstarfs verður ekki metið til fjár á tímum sem þessum og aldrei hefur verið meiri þörf fyrir faglega starfsemi á þessum vettvangi því skorum við á sveitarfélög landsins að standa vörð um þennan mikilvæga málaflokk.
F.h. nemenda og kennara á Tómstunda- og félagsmálafræðibraut MVS Háskóla Íslands,
Helga Þórunn Sigurðardóttir nemendafulltrúi - hths8@hi.is
Árni Guðmundsson námsbrautarstjóri - arni@hi.is
mánudagur, 8. mars 2010
Af hafnfirskum bæjarstjórnarmálum - l

Guðmundur Árni var dugmikil bæjarstjóri og afar vel virkur, ótvíræður foringi sem gerði Alþýðuflokkinn að stórveldi með opnum prófkjörum og aðkomu fjölda fólks úr grasrótinni . Guðmundur hefði hins vegar að ósekju mátt starfa lengur að bæjarmálum en í lok kjörtímabilsins 90 – 94 hvarf hann í landsmálin.
Erfið og misráðin samstarfsslit við Alþýðubandalagið 1990 höfðu mikil áhrif næstu árin og gerðu það að verkum að trúnaðarbrestur varð milli fyrrum félaga sem leiddi til þess að alskyns meirihlutar voru myndaðir með afar mismunandi árangri á tíunda áratug síðustu aldar sem endar síðan með því að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn ná meirihluta.þriðjudagur, 2. mars 2010
Í flokki lítið breyttra kvenna sigraði ..
Hef aldrei skilið það hvernig hægt er að keppa í Guðsskapnaði eins og s.k. fegurðarsamkeppnir ku ganga út á að mestu leyti. Límbönd, lýta“lækningar“ og önnur trix koma einnig sterk inn og munu ef að líkum lætur gegna sífellt mikilvægari hlutverki sem fegurðaraukandi viðbætur við orginal útgáfurnar.
En þetta eitt og sér nægir ekki í nútíma fegurðarsamkeppnum. Ef marka má umræður um keppnina Ungfrú Reykjavík sem haldin var fyrir skömmu þá er orðið verulega stutt í að dömurnar sem ku koma fram í afar erótískum undirfötum smelli sér hreinlega á súluna og taki "spor". En samkvæmt Geira í Goldfinger mun vera afar algengt að háskólastúdínur iðki þessa tegund listdans til að fjármagna nám sitt.
Einhverjum finnst “ keppnin“ komin út í ógöngur. Flosi Ólafsson heitinn, sá mikli húmoristi var fyrir löngu búin að leysa svona vandamál enda langt á undan sinni samtíð. Ef forsvarsmenn fegurðarkeppna í landinu og víðar hefðu þegið hans ráð þá væri keppnin ekki orðin táknmynd klámvæðingarinnar sem „tröllríður“ samfélaginu um þessar mundir.
Flosi taldi einfaldast í þessu skyni að nýta það sem þegar var til og lagði til að gæðingamatsreglur í Handbók hestamanna yrðu nýttar við dóma á fegurðardísum og gott ef hann tíundaði ekki einnig ítarlega verklag dómara við slíkt mat. Án þess að kasta rýrð á meistara Flosa þá yfirsást honum einn mikilvægur þáttur, skiljanlega því maðurinn skrifað pistla sína á ritvél og í samfélagi sem var nýflutt út úr torfkofum, en það var líftæknin.
Ég vil því bæta örlitlu við hinn Flosiska hugmyndaheim, betrumbæta og færa til nútímans. Viðurkenni strax að ég sæki hugmyndar mínar í torfærusportið. Haganlegast og best er að skipta keppendum fegurðarsamkeppna í eftirtalda flokka: Flokkur óbreyttra kvenna , flokkur lítið breyttra kvenna og flokkur mikið breyttra kvenna. Í staðinn fyrir titilinn ljósmyndafyrirsæta keppninnar þá yrðu veit sérstök verðlaun fyrir mest/best „Fótósjoppuðu“ stúlkuna. Að öðru leyti er best styðjast við klassískar hugmyndir meistara Flosa.
Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að okkar fegurstu meyjar séu valdar af vísindalegri nákvæmni og samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum matskerfum sbr Handbók hestamanna. Umræða af þeim toga sem nú fer fram í bloggheimum yrði þarflaus með öllu. Ungfrú Ísland óumdeilanlega fegurst íslenskar kvenna. Málið dautt - þ.e.a.s ef maður telur það verðugt að keppa í Guðsskapnaði?
miðvikudagur, 24. febrúar 2010
Krafturinn knýr
Var viðstaddur rennsli á sýningunni Krafturinn knýr sem fjallar um hin óljósu mörk milli íþrótta og lista. Var fín sýning með mörgum ólíkum atriðum sem öll áttu það sammerkt að sýna okkur listina í íþróttum eða íþróttirnar í listunum.
Getur verið að þegar menn hætta að mæla allt og meta, hver hoppar hæðst, lengst, hraðast og með eða án ýmissa fylgihluta, þá öðlist listin fyrst líf? Veit það ekki en veit það eitt að skilin eru óljós.
fimmtudagur, 4. febrúar 2010
sunnudagur, 31. janúar 2010
Mínir menn - ekki þeirra dagur
Það verður að segjast alveg eins og er að Mávarnir náðu engu flugi á móti illa spilandi liði Millwall sem þó er í efri hluta C deildarinnar. Ein varnarmistök minna manna nægðu Millwall til sigurs eitt núll. Það eru blikur á lofti hjá mínum mönnum og fallbarátta framundan - 20. sætið er ekki góður árangur og sorglegt ef feta á í slóð Crew Alexsandra liðs Guðjóns Þórðarsonar sem féll rakleiðis í það sem einu sinni var kölluð enska 4. deildin og þar ku knattspyrna rísa hve lægst og á stundum vera fremur í ætt við túnþökuristur en hina göfugu íþrótt knattspyrnu.
mánudagur, 25. janúar 2010
Kjósa strax - búið að ræða málið ?

Rökin núna að það sé óþarfi að "tefja málið" lengur, það sé búið að ræða þetta málefni í þaula? Það má vel vera en hitt er öllum ljóst það er einnig búið að kjósa um málið og fella fyrirliggjandi tillögu - Það lá einnig fyrir yfirlýsing frá bæjarfélaginu í kjölfar síðustu kosninga að mig minnir að ekki yrði kosið að nýju um þetta mál? og hvað þá að gera það nánast fyrirvarlaust.
Lýðræði snýst um upplýsta umræðu og verkefni samfélagsins þessi dægrin eru ærin og þó svo að Rio Tinto liggi á þá eru mög önnur mál samfélagsins brýnni næstu mánuðina. Fyrir það fyrsta þá er afar mikilvægt að Icesavemálið fái umfjöllun og að blanda inn í þá umræðu hagsmunabaráttu Rio Tinto er ekki við hæfi.
Það er ekkert í þessu Rio Tinto máli sem krefst tafalausra kosninga og ef enn og aftur á að kjósa um stækkun álversins þá eru haustið að mínu mati tilvalið - Önnur verkefni í íslensku samfélagi eru ærinn þessi misserin og mikilvægari a.m.k. fram að þeim tíma.
miðvikudagur, 20. janúar 2010
Ný æskulýðslög
Formaður ÆRR (Æskulýðsráð ríkisins) efndi til fundar um málefni ráðsins fyrir skömmu. Var mikið þarfaþing og ekki vanþörf að fara yfir þessi mál. Sannast sagna þá erum við íslendingar eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Ástæður þess má rekja í löngu máli en slíkt verður ekki gert á þessum vettvangi a.m.k. ekki í bili. Eitt er þó algerlega víst að við þurfum lagalega umgjörð um æskulýðsmál sem m.a. byggir á faglegum sjónarmiðum.
Einn af þeim stjórnmálamönnum sem hefur látið sig þessi mál varða er Oddný Sturludóttir sem sækist eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Þeir stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem láta sig málefni æskunnar varða ættu að gefa henni gaum því þar fer ötull baráttukona. Ég átti því láni að fagna að vinna með henni ásamt öðru góðu fólki að stefnumótun á sviði æskulýðsmála en eins og þeir vita sem tilheyra þessum geira þá er löngu tímabært að koma á rammalöggjöf í þessum mikilvæga málaflokki. Tillaga um slíkt liggur fyrir og ekki síst fyrir tilstilli Oddnýjar – hvet því Samfylkingarfólk í höfuðborginni eindregið til þess að veita henni stuðning.
Sama á við um ágæta stjórnmálamenn úr öðrum flokkum. Mér dettur í hug Sóley Tómasdóttir í VG sem sækist eftir 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík. Sóley hefur mikla reynslu í þessum geira og hugmyndir sem falla vel að velferðarmálum æskunnar. Sóley er virk í starfi Félagi fagfólks í frítímaþjónustu m.m.
Málefni æskunnar eru mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þessum – hvet fólk, hvar í flokki sem það stendur, eindregið til þess að kjósa, í prófkjörum, fólk sem hefur þetta mikilvæga málefni í öndvegi.
mánudagur, 18. janúar 2010
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar
Nám í tónlistaskóla er því ekki eins og ýmsir halda fram, leiðinlegar píanóæfingar, perlodíur og fúkur. Námið er ekki síst fyrir flesta nemendur aðgangur að áhugamáli sem endist út ævina hvort sem fólk nýtur tónlistar sem hlustendur eða iðkendur. Góðar tómstundir og eða áhugamál er spurning um lífsgæði sem ekki verða metin til fjár. Nú og svo má ekki gleyma þeim sem leggja tónlistina fyrir sig í atvinnuskyni og auðga mannlífið og menninguna með framlagi sínu.
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar er að mínu mati afburðaskóli sem hefur á að skipa úrvals fólki. Sá sem þetta ritar hefur verið þeirra ánægju aðnjótandi á liðnum árum að sækja tónleika skólans á hinum ýmsu stigum og alltaf haft jafn gaman af hvort sem verið hafa tónleikar byrjenda eða lengra kominna. Starfsemi tónlistaskóla er alltaf mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þeim sem við nú lifum á. Við Hafnfirðingar eru heppnir að eiga einn slíkan, sannkallaða "menningarveitu".
þriðjudagur, 12. janúar 2010
Færeyjar

Færeyingar eru höfðingjar heim að sækja og þegar að maður hefur komið þarna einu sinni þá er eitthvað sem togar í mann að koma aftur og aftur.
Harðbýlt land lengst úti í hafi, óblíð náttúruöflin, rík menning, fegurðin og fólkið er eitthvað samspil sem gerir Færeyjar að afar áhugaverðum stað.
Hvet fólk til þess að leita ekki langt yfir skammt þegar að ferðalög eru annars vegar - Heimsókn til frænda okkar í Færeyjum er eitthvað sem engin hefur efni á að missa af.
sunnudagur, 10. janúar 2010
Rio Tinto kannar hug Hafnfirðinga

Hvernig svarar maður spurning eins og þessari hér að neðan á fimm þrepa kvarða frá "mjög vel" til "mjög illa"
Hversu vel eða illa telur þú að Alcan standi sig í upplýsingagjöf til almennings um starfsemi álversins í Straumsvík?
Svarið er að mínu mati þetta: Mjög vel í því að kom á framfæri einhliða og áróðurskenndum boðskap um eigið ágæti þar sem hvergi er dregið af og hvergi til sparað. Í stuttu máli, gott í miðlun einhliða áróðurs um eigið ágæti. Er það þá góð upplýsingagjöf? Nei - en það getur verið góð miðlun (þ.e.a.s. að koma á framfæri boðskap) - undarlega spurt og afar aðferðafræðilega ónákvæmt. Ótæk spurning
Rio Tinto er í kosningaham í sparifötunum - CG sem að öllu jöfnu stendur sig vel er hér í verkefni þar sem niðurstöður verða "háðar" og ónákvæmar m.a. vegna uppbyggingar spurningalistans, sem er súrt. Setningin "samkvæmt niðurstöðum Capacent Gallup þá ... " hefur ávallt haft sterka ímynd í hugum margra - sennilega er þetta ein af þeim könnunum þar sem niðurstöður verða ekki kynntar opinberlega þannig að ekki reynir CG í þessum efnum?
fimmtudagur, 7. janúar 2010
Af pólitískum analýsum
Hænurnar eru mesta mein
mitt og allra á bænum,
þó er verri Ólöf ein
áttatíu hænum.
sunnudagur, 3. janúar 2010
Stutt i Heklugos

Ég hef tekið fjölda mynda af fjallinu í gegnum árin og minnist þess ekki að að hafa séð það svona autt að hluta til í tíð eins og núna - Það er greinilegt að snjó festir ekki í suðurhlíðum fjallsins eins og glögglega má sjá á myndinni - Held því fram að brátt hitni verulega í kolum enda fáar aðrar skýringar á snjóleysinu en undirliggjandi hiti?