föstudagur, 3. september 2004

Með beinakex í annarri - Út í óvissuna

Fínt framtak hjá bæjarstjóra að efna til óvissuferðar meðal starfsfólks á bæjarskrifstofum í kvöld. Lyfta fólki örlítið upp yfir dagsins amstur, þakka fólki góð störf og eiga góða stund saman. Kemst því miður ekki en veit að þetta verður fínt teiti.

Leiðir hugann að ágætu samstarfi bæjarins og starfsmannafélagsins varðandi veglega árshátíð bæjarstarfsmanna.

Sem aftur á móti leiðir hugann að því hvort samskipti bæjarins og starfsmannafélagsins séu ekki með ágætum . Get vottað það hér og nú að svo er nú yfirleitt, en með því fororði að vissulega getur hvesst og vissulega er tekist á oft á tíðum.

Sem einnig leiðir hugann að því að deilur snúast um hagsmuni viðkomandi aðila. Á þessu þarf að vera gangkvæmur skilningur því annars er hætta á að menn persónugeri deilur og átök sem auðvitað kann ekki góðri lukku að stýra.

Þegar að svo er komið þá er oftast stutt í vandræði. Reynslunnar fólk forðast þennan farveg, flest hvert. Hitt kann að vera að í staðbundnum krísum ýmsum t.d. tengdum skipulagsbreytingum einstakra deilda þá hafi aðilar ekki gætt nægilega vel að þessu.

Trúnaðarmenn félagsins hafa þær skyldur að gæta hagmuna sinna umbjóðenda á viðkomandi starfsstað í samráði við félagið. Ef trúnaðarmenn eiga að gjalda starfa sinna í þágu félagsins sem einkapersónur og starfsmenn þá er auðvitað fyrst og fremst verið að vega að stoðum starfsmannafélagsins sem slíks. Allt slíkt setur samskipti félagsins og bæjarins í annað og alvarlegra samhengi

Hef átt góð og afar hreinskiptin samskipti við bæjarstjóra varðandi starfsmannamál Vissulega ekki alltaf sammála en samt sem áður einfalt að ræða málin. Oft með ágætum árangri en stundum ekki.

Að gera fólki veislu eina góða endrum og sinnum er auðvitað ekki stórmál en það sýnir auðvitað ákveðið viðhorf. Ánægður með lítið - hugsar einhver! Veit það ekki - man hins vegar tímana tvenna í þessum efnum.
Sérstaklega minnisstætt tímabilið þegar að allt svona þótti mikið bruðl, var með öllu aflagt og meira að segja sérstakar reglur settar um veitingar á fundum , bara kaffi ef fundur var 1-2 klukkutíma og kex eftir það?

Engin ummæli:

Skrifa ummæli