þriðjudagur, 9. ágúst 2005

Stuðningur í verki ?

Þakka lesendum síðunnar, og öðrum þeim fjölmörgu sem sent hafa mér póst undanfarið, fyrir stuðning og hlý orð. Vissi svo sem að fólki leiðist þessi hroki og yfirgangur sem áfengisframleiðendur og salar sýna velferð barna og unglinga með því að þverbrjóta lög um áfengisauglýsingar kerfisbundið.

Veit nú sem er
að fólki þúsundum saman er misboðið því vitað er að auglýsingin ( sjá hér neðar á síðunni) sem fór af stað um daginn hefur farið mjög víða um þjóðfélagið. Fólk þúsundum saman hefur sýnt hug sinn í verki og sent vinum sínum þennan póst.

„Á maður að eiga viðskipti við fyrirtæki sem ota áfengi að börnunum manns ? “ er auðvita grundvallarspurning þegar að mál hafa fengið að þróast átölulaust út í þá vitleysu sem hér viðgengst. Þegar að svo er komið, og þegar að þar til bær yfirvöld eins og embætti ríkissaksóknara þjást af verkkvíða á háu stigi, þá hefur almenningur bara eina leið.

Leiðin er einföld og er sú að eiga ekki viðskipti við fyrirtæki sem virða ekki lögbundin réttindi barna og unglinga. Með viðskiptum styrkir maður viðkomandi fyrirtæki til frekari landvinninga á því sviði og ekki trúi ég því að það sé vilji fólks? Samhengi hlutanna er ekki flóknari en þetta og það ættu afar, ömmur , pabbar, mömmur, frænkur, frændur og allir þeir sem bera velferð æskunnar fyrir brjósti að hafa hugfast við hin ólíklegustu tækifæri - Sniðgöngum auglýstar áfengistegundir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli