miðvikudagur, 10. ágúst 2005

Mjög spes !

Hugsaði ég með mér þegar 3- 4 snagar voru auðir sitt hvoru megin við Martin vin minn og skólafélaga i Gautaborg fyrir margt löngu. Dagurinn var mánudagur, íþróttafræðitími var að hefjast en eitthvað var stemmingin skrítin. Skýringin kom fljótlega í ljós, í gleðskap bekkjarfélaganna um helgina hafði Martin tilkynnt skólafélögunum að hann væri hommi.

Hafði misst af partýinu og því ekki inni í málum. Eitthvað hafði þetta farið skakkt í mannskapinn sem marka mátti af viðbrögðunum í búningsklefanum þennan mánudagsmorgun. Fljótlega var þó veröldin söm og allt féll í ljúfa löð. Martin sem endranær hinn hressasti og lífið gekk sinn vanagang.

Datt þetta svona í hug af tilefni „Hinsegin daga” í Reykjavík. Flott baráttuaðferð að gefa fólki kost á því að taka þátt í gleðinni með sér. Betur má ef duga skal en alltént þá er framvinda stöðug í réttindabaráttunni sem auðvitað er hið besta mál. Og sem betur fer þá hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Martin gaf yfirlýsinguna frægu árið 1982.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli