föstudagur, 29. júlí 2005

Stóra plastflöskumálið

Bæði Fréttablaðið og Blaðið skúbba í dag. Ja ekki alveg enda um sömu „stórfrétt” að ræða, en auðvitað geta örlögin hagað því þannig að á vettvangi stóratburðanna séu fleiri en einn blaðamaður staddur hverju sinni

Fréttin er sú að bjórframleiðandi einn sé byrjaður að setja ölið á plastflöskur og dugandi blaðamönnum dugir ekkert minna en að kalla út sína bestu ljósmyndara sem stilla plastflöskunum vel og vendilega upp og mynda þennan tímamótaatburð í bak og fyrir enda stórfrétt bæði að innihaldi og ekki síst í dálksentímetrum. Yrði ekki hissa á því að þessi tímamóta atburður kæmist í heimspressuna

Veit sem er að það er löngu búið að finna upp plastflöskuna og hef það fram yfir viðkomandi fjölmiðlamenn að halda ró minni af þessu tilefni, blessuð plastflaskan er löngu komin, og það meira að segja til Íslands

Frétt Blaðsins er stórkostleg en það sér sérstaka ástæðu til að „kynna” þessa byltingu. Fréttablaðið hefur meiri reynslu af samskiptum við hagsmunaaðila af þessum toga og mörg stórfréttin hafnar því milliliðalaust í hinni deildinni þ.e. auglýsingadeildinni. Sennilega margur blaðamaðurinn því fegin enda vandasamt og erfitt verk að fjalla um jafn stórkostlegan atburð og hér um ræðir.

Verðið á Agúrkum er óbreytt þessa daganna en úr þeim stórtíðindum gera alvöru fjölmiðlar ekkert? Sennilega út af stóra plastflöskumálinu - Verð að segja það eins og er að ég bíð spenntur eftir fréttunum um skrúftappann sem að öllum líkindum er væntanlegur á plastflöskurnar innan skamms og þá verður aðvitað útkall ALFA með ljósmyndurum og öllu tiltæku tæknilið enda spyr maður ekki um kostnað þegar að slík stórtíðinni eru annars vegar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli