Var staddur með mínu fólki í Húsdýragarðinum í gærkvöldi. Fín skemmtun hjá Stuðmönnum og fólk frá 3 -99 ára tók undir og söng með í hverju laginu á fætur öðru. Hljómsveit allra landsmanna hér að verki án alls vafa. Hef einu sinni verið vitni að sambærilegri uppákomu og í gærkvöldi.
Það var í Fredriksberg í Danmörku þar sem hin frábæra hljómsveit Shu-bi-dua ( Tek ekki ábyrgð á stafsetningunni) lék fyrir 40.000 manns. Þar kunnu allir lögin og textana, sungu hástöfum með og dönsuðu , nema ég, sem var eins og álfur út úr hól, kunni ekkert af þessu en fann mér til mikillar ánægju að ég var staddur mitt í dönsku þjóðarsálinni.
Í gærkvöldi var hin íslenska þjóðarsál mætt í Húsdýragarðinn og öllum ljóst að bandið verður auðvitað að flokka sem menningarverðmæti enda framlag þeirra til íslenskrar alþýðumenningar nú þegar mjög ríkulegt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli