Starfsmenn skólaskrifstofu
Fundaði í dag með starfsmönnum skólaskrifstofu sem ekki eru á eitt sáttir varðandi fyrirhugaðar skipulagsbreytingar á skrifstofunni. Ekki nema von þar sem nokkuð er óljóst við hvað er átt og hverjar afleiðingar boðaðar breytingar hafa. Fólkið hefur ekki fengið neinar skýringar þrátt fyrir að eftir þeim hafi verið leitað með formlegum hætti? Málið stefnir í klúður af bestu sort ef bæjaryfirvöld skýra ekki línur fljótlega.
Stjórnin fundaði síðdegis.
Ýmis mál bar á góma, svo sem komandi kjarasamningar, Fundir innan Samflotsins sem og væntanlegur stjórnarfundur BSRB, Starfsmatið bar á góma að venju og eru þær fregnir helstar að Reykjavíkurborg ætlar að greiða samkvæmt því í október.
Samfylkingin í Hafnarfirði og einkavæðingin
Skil ekki alveg hvert Samfylkingin stefnir varðandi einkavæðingu hér í bæ. Og ekki er það til neinar fyrirmyndar að hún skuli beinast gegn hópum sem hvað síst hafa það launalega.
Einkavæðing ræstinga í skólum er að skella á. Menn vita að launakostnaður er yfir 90% af kostnaðinum við ræstinguna. Með "hagstæðu" tilboði skilst mér að boðið hafi verið rúmlega 60% af kostnaði í verkið allt.
Niðurstaðan er einföld fyrirtækið þarf að fá sitt, enda ekki um góðgerðarstarfsemi að ræða. Starfsmenn munu því margir missa störf sín og miðað við einfalda reikniformúlu mun sennilega tæplega helmingur starfsmanna missa vinnuna og þeir sem eftir verða munu þurfa að leggja helmingi meira á sig en áður var fyrir sama lélega kaupið.
Mér finnst ekki viðeigandi að bæjarfélag standi með óbeinum hætti að svo víðtækum uppsögnum eins og hér verður um að ræða og það er ekki hægt að skýla sér bak við eitthvað fyrirtæki út í bæ í þeim efnum. Hafnarfjarðabær er verkkaupi og ber auðvitað sem slíkur siðferðilegar skyldur á gerðum verktakans.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli