þriðjudagur, 22. nóvember 2005

Skólaliðar eru líka fólk

Barst hið undarlegasta bréf, verð ég að segja. “Verkferlar í eldhús og í matsal grunnskólum Hafnarfjarðar” ( þar sem SS matur er). Bréfið merkt Sláturfélagi Suðurlands sem mér vitnanlega hefur ekkert boðvald yfir starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar en var engu að síður afhent skólaliðum í tilteknum skóla hér í bæ. Í bréfinu er skólaliðum skipað út og suður í ýmis viðvik sem ekki eru á verksviði þeirra enda meira í ætt við störf matráða sem njóta annara og mun betri kjara en skólaliðar.

Ekki veit ég hvort þetta sé gert í vitorði eða í samvinnu við Hafnarfjarðarbæ en ef svo er þá verður ekki annað séð en að bæjarfélagið stundi einhverskonar starfsmannalána- eða leigustarfsemi þ.e. að bæjarfélagið semji við eitthvert fyrirtæki út í bæ um að ráðstafa starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar ? Sem er auðvitað afar slæmt enda ekkert verið rætt við starfsfólk um slíkt. Ekki verður sé að þessi gríðarlegu aukastörf eigi að launa eitthvað sérstaklega nema síður sé?

Það er algerlega út úr korti að eitthvert fyrirtæki út í bæ skundi með einhverjar starfslýsingar inn í skóla bæjarins og skipi málum þvert ofan í gildandi kjarasamninga, m.a. um starfsmat, sem kveður á um tilteknar starfslýsingar skólaliða sem eru ekki í neinu samræmi við verkferla SS. Skólaliðar hafa auk þess nú þegar nóg að gera í sínum daglegu störfum og ekki eru launin til að hrópa húrra fyrir.

Í þessu máli er svo sannarlega byrjað á vitlausum enda og með hætti sem engum er samboðinn. Ef þetta starf á að vera á verksviði skólaliða þá þarf að breyta starfsheitum þeirra, hið nýja og breytta starf þarf að meta og greiða laun í samræmi við það eða þá það að ráða fólk sérstaklega sem matráða. Grundvallaratriðið er auðvitað að fjölga fólki með aukinni þjónustu.

Allt er þetta hið undarlegasta mál - velti fyrir mér hvers vegna mætir fyrirtækið ekki bara með sinn eigin mannskap sem tíðkast víðast hvar þar sem verktakar sjá um skólamáltíðir.

Ef kennarar hafa fengið bætt fyrir ýmsar breytingar í starfi og starfsumhverfi skólanna, sem er auðvitað gott mál, af hverju gildir þá ekki hið sama fyrir aðra starfsmenn skólanna - Veit það ekki en svar óskast!
Eitt er þó algerlega víst sem er að það verður að vinda ofan af þessari vitleysu og koma málum í sæmandi horf - Skólaliðar eru líka fólk.

mánudagur, 21. nóvember 2005

Nú er maður fyrrverandi president

Sem er þægileg tilfinning en dulítið skrýtin samt. Er sem sagt búin að vera formaður Samtaka norrænna félagsmiðstöðva UFN s.l. 11 ár. Langur tími og oftast gefandi en auðvitað stundum erfiður og alltaf annasamur. Hef samt sem áður ávallt notið góðs af því að vera Íslendingur og því átti tillölulega auðvelt með að sætta sjónamiði þegar að þess hefur þurft , sem er nú ekki í mörgum tilfellum.
Ekki hef ég tölu á þeim fjölda ungmennamóta eða námskeiða sem samtökin hafa staðið fyrir í gegnum árin víða á Norðurlöndunum. Eðli málsins vegna hef ég sótt marga af þessum atburðum en auðviðtað ekki alla.

Fínn tími og auðvitað ákveðinn forréttindi. Í gegnum embættið kynnist ég fjöldanum öllum af góðu fólki, lært margt og farið víða. Ég hef komið á marga þá staði sem ég hefði að öllu jöfnu ekki heimsótt og á staði sem ekki liggja beinlínis í alfaraleið. Loften í Noregi er stórkostlega fallegt svæði og sama má segja um norðaustur Finnland, Sænsku Smálöndin eru falleg og sama má segja um norður Svíþjóð, Jósku heiðarnar er fallegar, Færeyjar státa af einstakri náttúrfegurð og sama má segja um norrænu höfuðborgirnar sem allar hafa sinn sérstaka sjarma.

Kveð ákaflega sáttur á aðalfundi samtakanna, sem haldinn er hér í Kaupmannahöfn, enda um tvö ár síðan ég ákvað að hætta sem formaður þessara samtaka, veit einnig sem er að MajLis Blomqvist frá Svíþjóð sem nú tekur við formennskunni af mér mun standa sig með prýði. Óska UFN velfarnaðar og hvet alla sem vettlingi geta valdið til að standa vörð um hina norrænu samvinnu og þau gildi sem þar koma fram.

Norrænt samstarf er einstakt og á sér ekki hliðstæðu í veröldinni. Það er því afar mikilvægt að gefa ungu fólki á Norðurlöndum kost á því að taka þátt í samnorrænum verkefnum eins og þeim sem UFN stendur fyrir. Það er ekki síður mikilvægt að fagfólk úr æskulýðsbransanum eigi kost á því að koma saman á námskeiðum og ráðstefnum til þess að læra og skiptast á skoðunum um allt það sem nýjast er í faginu.

miðvikudagur, 16. nóvember 2005

Ekki missa af David Hall

David Hall, prófessor við háskólann í Greenwich í Englandi, heldur erindi um rannsóknir á afleiðingum einkavæðingar á vatnsveitum. Fyrirlesturinn verður kl. 09:00 til 10:30 að Hótel Loftleiðum föstudaginn 18. nóvember nk.

David Hall er forstöðumaður deildar við háskólann í Greenwich sem hefur sérhæft sig í rannsóknum á mismunandi rekstrarformum innan almannaþjónustunnar.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Erindið verður túlkað

fimmtudagur, 10. nóvember 2005

Óeirðir í Frakklandi

...og svo halda menn að þetta séu „innflytjendurnir” sagði Joelle samstarfsmaður minn innan fulltrúaráðs evrópskra bæjarstarfsmanna EPSU, aðspurð um ástandið í Frakklandi um þessar mundir. Vorum að ræða þetta nokkrir fulltrúar eftir fund s.l. þriðjudag í EPSU, en sjálf býr Jóelle í úthverfi í norður París.

...og áfram hélt hún „ráðherra sem líkir fólki við hunda, þar sem atvinnuleysi ungs fólks er 40 %, þar sem skólar eru yfirfullir, þar sem samdráttur í félagsþjónustu er alger , þar sem möguleikar á vettvangi frítímans eru engir og allt slíkt aflagt, þar sem leigu- og íbúðarverð er hátt og þar sem ríkir almenn fátækt og ómegð.”
Í vonleysinu og „kaótíkinni” þrífst margt sem miður er en hefur akkurat ekkert með innflytjendur að gera enda flestir sem málið snertir barnfæddir Frakkar. Reiðin í öllu þessu vonleysi orðin alger og stjórnlaus.

Ein ummæli ráherra fylltu mælinn og allt varð vitlaust. Kjarni málsins snýst um afar illa stadda lágstétt í miðju góðæri, snýst um afskipta- og úrræðaleysi stjórnvalda til margra ára gangvart ungu fólki, snýst um réttlætiskennd og ekki síst snýst um misheppnaða pólitík.

Franski félagsfræðingurinn Durkheim myndi sennilega segja að óréttlætið í Frönsku samfélagi hafi verið orðið slíkt að lengra hefði ekki verið komist, ríkjandi staða því splundrast og ekkert annað að gera en að raða hlutum upp á nýtt og í samræmi við þarfir allra þegna samfélagsins en ekki bara sumra. Dæmi um slíkt voru stúdentaóeirðirnar 68 sem fyrst og fremst voru barrátta gegn ríkjandi en óréttlátum gildum samfélags þess tíma. Sama uppi á teningnum núna árið 2005 ? – Sennilega, segja margir.

sunnudagur, 6. nóvember 2005

Tvær góðar Úlpa & Sign

Það er gróska í Hafnfirsku tónlistarlíf þessa daganna, sem endranær. Mér áskotnaðist kynningareintak af nýjustu plötu Úlpu en Haraldur Sturluson vinur minn, fyrverandi starfsmaður ÍTH og trommari bandsins gaukaði að mér eintaki af nýjust skífu þeirra. Þurfti ekki að hlusta lengi til þess að gera mér grein fyrir að hér er hörku góður diskur á ferðinni. Flottir spilarar , fín lög ,gott sánd og heilsteypt skífa í alla staði. Fær örugglega frábæra dóma þegar hún kemur út.

Sign er ekki síðri skal ég segja ykkur. Heyrði í þeim á tónleikum í félagsmiðstöðinni Hrauninu um daginn þar sem þeir voru að spila lög af nýju skífunni sinni. Þeir Rafnssynir Ragnar og Egill halda merki og minningu föður síns á lofti sem frábærir tónlistarmenn. Egill er einn af okkar bestu trommurum og sama má segja um Ragnar hvað varðar gítarleikinn . Ragnar hefur þrátt fyrir ungan aldur skapað sinn eigin stíl og verður bara betri og betri.

Mæli því hiklaust með báðu þessum böndum og tel alvöru rokk and rólara vera með góða diska í höndunum þegar að þessar sveitir eru annars vegar.

þriðjudagur, 1. nóvember 2005

Er Fréttablaðið hafið yfir íslensk lög?

"Ágæti ríkissaksóknari

Í síðdegisþættinum á útvarpsstöðinni Talstöðinni föstudaginn 28. október árið 2005, þar sem fjallað var um áfengisauglýsingar, viðurkenndi fréttastjóri Fréttablaðsins Kári Jónasson með skýrum og afdráttarlausum hætti í heyrandi hljóði að blaðið birti áfengisauglýsingar.

Við sem sent höfum embætti yðar ábendingar um slík lögbrot undanfarin misseri barst þarna óvæntur liðsauki enda verður ekki annað séð en að málið teljist þar með upplýst. Fram eru komnar formlegar ábendingar um lögbrot og fyrir hendi liggur afdráttarlaus játning. Undirritaður gerir því ráð fyrir að embætti yðar grípi til viðeigandi ráðstafanna. Samkvæmt lögum eiga börn og unglingar rétt á því að vera laus við auglýsingar af þessum toga og skora ég á embættið að gera gangskör í þessum málum til þess að svo megi verða.

Virðingarfyllst

Árni Guðmundsson"