Það verður að segjast alveg eins og er að Mávarnir náðu engu flugi á móti illa spilandi liði Millwall sem þó er í efri hluta C deildarinnar. Ein varnarmistök minna manna nægðu Millwall til sigurs eitt núll. Það eru blikur á lofti hjá mínum mönnum og fallbarátta framundan - 20. sætið er ekki góður árangur og sorglegt ef feta á í slóð Crew Alexsandra liðs Guðjóns Þórðarsonar sem féll rakleiðis í það sem einu sinni var kölluð enska 4. deildin og þar ku knattspyrna rísa hve lægst og á stundum vera fremur í ætt við túnþökuristur en hina göfugu íþrótt knattspyrnu.
sunnudagur, 31. janúar 2010
Mínir menn - ekki þeirra dagur
Það verður að segjast alveg eins og er að Mávarnir náðu engu flugi á móti illa spilandi liði Millwall sem þó er í efri hluta C deildarinnar. Ein varnarmistök minna manna nægðu Millwall til sigurs eitt núll. Það eru blikur á lofti hjá mínum mönnum og fallbarátta framundan - 20. sætið er ekki góður árangur og sorglegt ef feta á í slóð Crew Alexsandra liðs Guðjóns Þórðarsonar sem féll rakleiðis í það sem einu sinni var kölluð enska 4. deildin og þar ku knattspyrna rísa hve lægst og á stundum vera fremur í ætt við túnþökuristur en hina göfugu íþrótt knattspyrnu.
mánudagur, 25. janúar 2010
Kjósa strax - búið að ræða málið ?

Rökin núna að það sé óþarfi að "tefja málið" lengur, það sé búið að ræða þetta málefni í þaula? Það má vel vera en hitt er öllum ljóst það er einnig búið að kjósa um málið og fella fyrirliggjandi tillögu - Það lá einnig fyrir yfirlýsing frá bæjarfélaginu í kjölfar síðustu kosninga að mig minnir að ekki yrði kosið að nýju um þetta mál? og hvað þá að gera það nánast fyrirvarlaust.
Lýðræði snýst um upplýsta umræðu og verkefni samfélagsins þessi dægrin eru ærin og þó svo að Rio Tinto liggi á þá eru mög önnur mál samfélagsins brýnni næstu mánuðina. Fyrir það fyrsta þá er afar mikilvægt að Icesavemálið fái umfjöllun og að blanda inn í þá umræðu hagsmunabaráttu Rio Tinto er ekki við hæfi.
Það er ekkert í þessu Rio Tinto máli sem krefst tafalausra kosninga og ef enn og aftur á að kjósa um stækkun álversins þá eru haustið að mínu mati tilvalið - Önnur verkefni í íslensku samfélagi eru ærinn þessi misserin og mikilvægari a.m.k. fram að þeim tíma.
miðvikudagur, 20. janúar 2010
Ný æskulýðslög
Formaður ÆRR (Æskulýðsráð ríkisins) efndi til fundar um málefni ráðsins fyrir skömmu. Var mikið þarfaþing og ekki vanþörf að fara yfir þessi mál. Sannast sagna þá erum við íslendingar eftirbátar nágrannaþjóða okkar í þessum efnum. Ástæður þess má rekja í löngu máli en slíkt verður ekki gert á þessum vettvangi a.m.k. ekki í bili. Eitt er þó algerlega víst að við þurfum lagalega umgjörð um æskulýðsmál sem m.a. byggir á faglegum sjónarmiðum.
Einn af þeim stjórnmálamönnum sem hefur látið sig þessi mál varða er Oddný Sturludóttir sem sækist eftir 2. sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík. Þeir stuðningsmenn Samfylkingarinnar sem láta sig málefni æskunnar varða ættu að gefa henni gaum því þar fer ötull baráttukona. Ég átti því láni að fagna að vinna með henni ásamt öðru góðu fólki að stefnumótun á sviði æskulýðsmála en eins og þeir vita sem tilheyra þessum geira þá er löngu tímabært að koma á rammalöggjöf í þessum mikilvæga málaflokki. Tillaga um slíkt liggur fyrir og ekki síst fyrir tilstilli Oddnýjar – hvet því Samfylkingarfólk í höfuðborginni eindregið til þess að veita henni stuðning.
Sama á við um ágæta stjórnmálamenn úr öðrum flokkum. Mér dettur í hug Sóley Tómasdóttir í VG sem sækist eftir 1. sæti á lista flokksins í Reykjavík. Sóley hefur mikla reynslu í þessum geira og hugmyndir sem falla vel að velferðarmálum æskunnar. Sóley er virk í starfi Félagi fagfólks í frítímaþjónustu m.m.
Málefni æskunnar eru mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þessum – hvet fólk, hvar í flokki sem það stendur, eindregið til þess að kjósa, í prófkjörum, fólk sem hefur þetta mikilvæga málefni í öndvegi.
mánudagur, 18. janúar 2010
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar
Nám í tónlistaskóla er því ekki eins og ýmsir halda fram, leiðinlegar píanóæfingar, perlodíur og fúkur. Námið er ekki síst fyrir flesta nemendur aðgangur að áhugamáli sem endist út ævina hvort sem fólk nýtur tónlistar sem hlustendur eða iðkendur. Góðar tómstundir og eða áhugamál er spurning um lífsgæði sem ekki verða metin til fjár. Nú og svo má ekki gleyma þeim sem leggja tónlistina fyrir sig í atvinnuskyni og auðga mannlífið og menninguna með framlagi sínu.
Tónlistarskóli Hafnarfjarðar er að mínu mati afburðaskóli sem hefur á að skipa úrvals fólki. Sá sem þetta ritar hefur verið þeirra ánægju aðnjótandi á liðnum árum að sækja tónleika skólans á hinum ýmsu stigum og alltaf haft jafn gaman af hvort sem verið hafa tónleikar byrjenda eða lengra kominna. Starfsemi tónlistaskóla er alltaf mikilvæg og ekki síst á tímum eins og þeim sem við nú lifum á. Við Hafnfirðingar eru heppnir að eiga einn slíkan, sannkallaða "menningarveitu".
þriðjudagur, 12. janúar 2010
Færeyjar

Færeyingar eru höfðingjar heim að sækja og þegar að maður hefur komið þarna einu sinni þá er eitthvað sem togar í mann að koma aftur og aftur.
Harðbýlt land lengst úti í hafi, óblíð náttúruöflin, rík menning, fegurðin og fólkið er eitthvað samspil sem gerir Færeyjar að afar áhugaverðum stað.
Hvet fólk til þess að leita ekki langt yfir skammt þegar að ferðalög eru annars vegar - Heimsókn til frænda okkar í Færeyjum er eitthvað sem engin hefur efni á að missa af.
sunnudagur, 10. janúar 2010
Rio Tinto kannar hug Hafnfirðinga

Hvernig svarar maður spurning eins og þessari hér að neðan á fimm þrepa kvarða frá "mjög vel" til "mjög illa"
Hversu vel eða illa telur þú að Alcan standi sig í upplýsingagjöf til almennings um starfsemi álversins í Straumsvík?
Svarið er að mínu mati þetta: Mjög vel í því að kom á framfæri einhliða og áróðurskenndum boðskap um eigið ágæti þar sem hvergi er dregið af og hvergi til sparað. Í stuttu máli, gott í miðlun einhliða áróðurs um eigið ágæti. Er það þá góð upplýsingagjöf? Nei - en það getur verið góð miðlun (þ.e.a.s. að koma á framfæri boðskap) - undarlega spurt og afar aðferðafræðilega ónákvæmt. Ótæk spurning
Rio Tinto er í kosningaham í sparifötunum - CG sem að öllu jöfnu stendur sig vel er hér í verkefni þar sem niðurstöður verða "háðar" og ónákvæmar m.a. vegna uppbyggingar spurningalistans, sem er súrt. Setningin "samkvæmt niðurstöðum Capacent Gallup þá ... " hefur ávallt haft sterka ímynd í hugum margra - sennilega er þetta ein af þeim könnunum þar sem niðurstöður verða ekki kynntar opinberlega þannig að ekki reynir CG í þessum efnum?
fimmtudagur, 7. janúar 2010
Af pólitískum analýsum
Hænurnar eru mesta mein
mitt og allra á bænum,
þó er verri Ólöf ein
áttatíu hænum.
sunnudagur, 3. janúar 2010
Stutt i Heklugos

Ég hef tekið fjölda mynda af fjallinu í gegnum árin og minnist þess ekki að að hafa séð það svona autt að hluta til í tíð eins og núna - Það er greinilegt að snjó festir ekki í suðurhlíðum fjallsins eins og glögglega má sjá á myndinni - Held því fram að brátt hitni verulega í kolum enda fáar aðrar skýringar á snjóleysinu en undirliggjandi hiti?