miðvikudagur, 19. október 2005

Bæjarstjórinn í Latabæ

Hefur ávallt reynst okkur vel, sem að 17. júní hátíðarhöldunum í Hafnarfirði höfum staðið. Móli eins og bæjarstjórinn er oft nefndur hefur verið kynnir hjá okkur og nokkrum sinnum skemmt sem Bjössi bolla.

Eitt skipti er algerlega ógleymanlegt en það var þegar að Bjössi ásamt frænda sínum stórleikaranum Stefáni Karli, sem þá var unglingur, léku í troðfullum sal í Kaplakrika. Stebbi lék einhverskonar bakaradreng og var atriðið eftir því enda ljóst að Bjössi bolla sem bakarameistari og Stebbi sem lærlingur er bara ávísun á eitt... mikið fjör og mikil ærsl.

Sem varð því brösuglega gekk að kenna baksturinn og fyrr en varir fer hveitið að dreifast vel yfir sviðið sem og yfir fremstu raðirnar í áhorfendaskaranum. Þeir gestir sem komu dökkklæddir til hátíðar skiptu óðfluga lit og það sem verra var að sökum fjöldans var engrar undankomu auðið.

Æstust nú leikar verulega enda þar komið sögu að blessuð eggin áttu að fara í uppskriftina en sökum ágreingins þeirra frændanna um baksturinn þá tóku eggin að fljúga í ýmsar áttir um sviðið sem og í þá félaga.

Eitt eggið, sem sennilega hafði það göfuga markmið og átti sér þann draum einan að lenda í virðulegri rjómatertu hjá alvörubakara, endaði skeið sitt með því að tvístrast inn í bakhlið gítarmagnara. Sem var ekki gott. Luku þeir félagar atriðinu í nokkurri sátt, hurfu á braut en sviðið var eins og síldarplan sem átti eftir að hreinsa. Og tóku þá málin að flækjast verulega og kom þar tvennt til.

Í fyrsta lagi voru nokkrir „hvítþvegnir" gestir nokkuð óhressir með útgang sinn sem þeir réttilega röktu til skemmtiatriðis þeirra frænda og tóku ekki gleði sín fyrr en ég fyrir hönd hins opinbera lofaði hreinsun fatnaðarins þeim algerlega að kostnaðarlausu auk þess sem ég bað þá afsökunar fyrir hönd sömu aðila.

Í öðru lagi upphófst mikið karp við hljómsveitna sem var næst á svið. Gítarleikarinn, eigandi magnarans eggfyllta, harðneitaði að spila enda myndi magnarinn hitna og eyðileggjast. „The show must go on" segir einhversstaðar og með réttu þá verður það bara að vera svo og ef það er bara einn gítarmagnari í húsinu þá verða menn bara að spila í gegnum hann. Sagðist því taka ábyrgð á magnaranum.

Hófst því spilamennskan á þeim tíma sem ráð var fyrir gert og viti menn eftir fyrsta lagið mátti finna þessa yndislegu lykt leggja yfir sviðið, lyktina góðu sem við öll þekkjum svo vel, lyktin af steiktu eggi. Ekki fer öðrum sögum af magnaranum en að hann hafi þjónað eiganda sínum vel og lengi eftir þetta.

Held því að ef bæjarstjóri Latabæjar hefði náð þeirri pólitísku forfrömun að gerast bæjarstjóri okkar Hafnfirðinga þá yrði auðvitað 17. júní stemming í bæjarkerfinu allt árið, tala nú ekki um ef Stebbi væri honum til halds og trausts í embættisverkunum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli