Í síðasta Fjarðarpósti (12.jan 2012) ritar Margrét Össurardóttir grein um málefni Heilsdagskóla eða frístundaheimila í bæjarfélaginu . Ekki ætla ég að bregðast efnislega við skrifum Margrétar enda eru mér málavextir með öllu ókunnir. Hitt er annað mál að sem sérfræðingur í æskulýðsmálum og sem fyrrverandi æskulýðsfulltrúi í okkar ágæta bæjarfélagi þá þykir mér rétt að benda á nokkur atriði. Í greininni er haldið fram að frístundaheimili í Reykjavík hafi verið færð undir skólanna vegna þess að starfsemin hafi verið svo illa rekin af hálfu Íþrótta – og tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR). Þetta er með öllu rangt þar sem að ÍTR mælist ár eftir ár með hæstu einkunn í þjónustukönnunum á vegnum borgarinnar. ÍTR innleiddi, á þeim tíu árum er starfsemin var á þeirra vegum, fagmennsku sem ekki var fyrir hendi áður, samræmdi starfsemina í heild, gerðu faglegar kröfu til starfsmanna, stuðlaði að aukinni menntun, unnu starfsskrá (sambærilegt plagg og námskrá er í skólastarfi) m.ö.o breyttu safnheitinu frístundaheimili í hugtak. Formgerðu starfsemina og unnu að miklum endurbótum oft í miklum mótvindi. Þær nýlegu skipulagsbreytingar sem átt hafa sér stað í Reykjavík er gerðar í algerri andstöðu við fagumhverfið, öll fagfélög á sviðinu, helstu sérfræðinga landsins á þessu sviði, auk þess sem formleg umsögn HÍ Menntavísindasviðs mælti mót þessum breytingum..
En víkjum nú sögunni til Hafnarfjarðar. Í ágúst s.l. ritaði ég grein í Fjarðapóstinn, bæjarblað okkar Hafnfirðinga, undir nafninu „Hvar er fagmennskan“ (Sjá http://addigum.blogspot.com/2011/08/hvar-er-fagmennskan.html ) þar sem ég geri margþættar athugasemdir varðandi framkvæmd bæjaryfirvalda við þær annars skynsömu breytingar að færa starfsemi heilsdagsskólans undir starfsemi ÍTH. Í stórum dráttum má segja að sparnaður (tæpleg 30% ofan á allan annan niðurskurð) sem þar var viðhafður í nafni sameiningarinnar hafi verið langt út yfir öll skynsemismörk. Með öðrum orðum þá nýttu bæjaryfirvöld sameininguna sem skálkaskjól fyrir óeðlilega mikinn niðurskurð. Þetta kemur augljóslega fram í því að bæjaryfirvöld bjóða þjónustu sem þau geta ekki staðið við eða sinnt. Í þeim efnum er ekki við gott starfsfólk ÍTH að sakast sem reynir það eitt að vinna störf sín eins vel og kostur er en við afar erfiðar aðstæður. Raunverulegar fjárhagsáætlanir eru til og ekkert annað en að kom þeim í framkvæmd þ.e.a.s ef það er vilji bæjaryfirvalda að viðhafa starfsemi af þessu toga. Að færa starfsemina innan stjórnsýlsunnar hefur ekkert að segja – og leysir ekkert. Fúskvæðing er fúskvæðing sama hvar hún á sér stað – kjarni málins er einfaldlega sá að þjónusta og fagmennska kostar og verður ekki haldið úti nema þær forsendur séu fyrir hendi. Það verður ekkert af engu.
Grein þessi birtist í Fjarðarpóstinum 18. janúar 2012
Engin ummæli:
Skrifa ummæli