miðvikudagur, 9. september 2009

Næsti formaður BSRB?

Í október verður haldið BSRB þing. Sem kunnugt er þá mun Ögmundur Jónasson láta af störfum sem sem formaður. Ögmundur hefur reynst afar farsæll leiðtogi og gert BSRB að virku afli í íslensku samfélagi. Í hans tíð hafa margir sigrar unnist og mörgum misundarlegum ráðagerðum stjórnvalda gegn hagsmunum opinberra starfsmanna og launamanna almennt hefur verið hrundið á bak aftur. Þvert á það sem pólitískir andstæðingar Ögmundar hafa haldið fram þá hefur hann átt náið og gott samstarf við "allra flokka fólk"innan BSRB enda forystan skipuð fólki úr öllum áttum og reyndar ekkert endilega flokksbundnu fólki. Þetta breiða samráð og samstarf er einfaldlega galdurinn á bak við farsæld formannsins og velgengni BSRB á umliðnum árum. Verkalýðsbarátta spyr ekki um flokkskírteini, hún spyr einfaldlega um hverjir eru hagsmunir launafólks og hverning eru þeir best varðir.

Nú vaknar óneitanlega sú spurning hver verður næsti formaður BSRB? Þegar að þetta er ritað er engin búin að gefa opinberlega kost á sér en heyrst hafa nöfn eins og Árna S Jónssonar formanns SFR, Garðars Hilmarssonar formanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, Elínar Bjargar Jónsdóttur formanns FOSS og Samflots bæjarstarfsmanna, Örnu Jakobínu Björnsdóttur formanns Kjalar og Snorra Magnússonar formanns Landsambands lögreglumanna.

Allt er þetta sómafólk og þau fjögur fyrstnefndu þekki ég vel í tengslum við störf mín innan BSRB um langa hríð. Öll eru þau fulltrúar stærri heilda innan BSRB og ef að líkum lætur þá mun forystumaður fjölmennasta félagsins sigra í formannskjöri en með minna en 50 % fylgi sökum mikillar dreifingar atkvæða. Ef bæjarstarfsmenn sameinast um kandidat þá vinnur sá en það verður að teljast harla ólíklegt að slíkt verði þó svo að ekkert sé útilokað í þeim efnum. Það má jafnframt velta fyrir sér hvort æskilegt sé að formaður komi úr stærstu félögunum. Ögmundur Jónasson var fulltrúi Starfsmannafélags Sjónvarpsins sem var og er mjög lítið félag þrátt fyrir sameiningum við Starfsmannafélag Ríkisútvarpsins. Í þessu mikilvæga embætti er nauðsynlegt að geta hafið sig yfir félagsheildir innan BSRB og formaður verður að vera sameiningartákn og ótvíræður fulltrúi allra félaga og félagsmanna innan BSRB.

Treysti mér ekki í að spá fyrir um lyktir en veit að verkefnið verður vandasamt, hver sem við því tekur, og ekki síst það að taka við af sterkum formanni sem naut nánast 100% trausts þing eftir þing. Mun að sjálfsögðu fylgjast með með framvindu mála.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli