laugardagur, 12. september 2009

Af hafnfirskum forvörnum

Margir Hafnfirðingar muna eftir „Stöðinni“ eins og hún var hér í eina tíð. Var eins og Hallærisplanið í Reykjavík, hluti af rúntinum á stór Hafnarfjarðarsvæðinu, vinsæll meðal unglinga m.a. vegna þess að þarna var endastöð Landleiða og sjoppan var opin langt fram eftir nóttu. Oft var margt um manninn, mikil ölvun og jafnvel slagsmál. Þó svo að ástandið um miðjan níunda áratuginn hafi verið betra en fyrr á árum þá var ástandið alls ekki gott. Menn höfðu sérstaklega áhyggjur af yngstu unglingunum sem einnig bjuggu við nokkurt aðstöðuleysi í tómstundum sínum . Gömul verbúð (Æskó) á Einarsreitnum sem bærinn hafði tekið upp í gjaldþrotaskiptum var eina athvarfið. Þegar að ákveðið var að gera átak í málefnum unglinga í lok nýjunda áratugarins þá var einnig ákveðið að freista þess að sporna við neikvæðri menningu eins og vissulega var raunin á Stöðinni.

Það var ekki gert á einni nóttu og það var heldur ekki neinn einn aðili öðrum fremur sem að því stuðlaði. Það var einfaldlega gert með víðtæku samtarfi allra þeirra sem unnu að unglingamálum með einum eða öðrum hætti. Æskulýðsráð, félagsmálayfirvöld, Lögreglan, skólayfirvöld og ekki síst foreldrasamfélagið tók höndum saman og með samstilltu langtíma átaki tókst að breyta ástandinu algerlega. Foreldrasamfélagið sýndi og sannaði að með afskiptum og einföldum skilaboðum má færa ástand til hins betra. Oft er unglingum kennt um að setja sér ekki mörk sem þau vita ekki hver eru. Það er hlutverk foreldrasamfélagsins og þegar að það gerir það eins og reyndin var varðandi Stöðina forðum þá einfaldlega virkar slíkt.

Æskulýðsráð Hafnarfjarðar sinnti forvörum af miklu kappi á þessum árum (meðfram öðrum verkefnum) m.a með stofnun Götuvitans (útideildar), fræðslufundum fyrir foreldra o.fl. Félagsmálastofnun, skólarnir og Lögreglan voru virkir þáttakendur í fræðslustarfinu. Ekki síst átti þetta við í efnahagslægðinni um miðjan tíunda áratuginn en í slíku ástandi myndast óróleiki í unglingasamfélaginu eins og raunin varð þá og kom t.d. fram í mjög aukinni áfengis- (Landa) og vímuefnaneyslu unglinga.

Það var heillaspor þegar að bæjaryfirvöld ákváðu að setja á stofn sérstaka forvarnarnefnd og setti þar með þennan mikilvæga málaflokk á eina hendi. Forvarnir eru langtímaverkefni sem snúast um að samstilla viðhorf og taka í tauma löngu áður en illa fer. Því miður er það svo að oft er blásið í herlúðra á elleftur stundu með afar takmörkuðum árangri. Tiltekin atvik geta vissulega haft mikið forvarnargildi en til langframa virkar það ekki þar sem sífellt nýjar kynslóðir vaxa úr grasi auk þess sem margt ungt fólk samsamar sig ekki með viðkomandi atvikum sem verða þá frekar séð sem slys fremur en myndgerving tiltekins þjóðfélagsástands s.s. aukinnar vímuefnaneyslu.

Forvarnarstarf í Hafnarfirði hefur síðustu ár verið til fyrirmyndar og með þeim hætti að eftir hefur verið tekið . Fyrirkomulag hér í bæ hefur verið öðrum bæjarfélögum fyrirmynd hvað varðar uppbygginu í málaflokknum. Samspil rannsókna og aðgerða er meðal þess sem einkennir starfið hér í Hafnarfirði . Rannsóknir R&G ( Rannsókn og greining) sem gerðar eru á tveggja ára fresti meðal unglinga efstu bekkja grunnskóla á öllu landinu hafa verið leiðarljós. Með því að greina niðurstöður fyrir hvert skólahverfi í Hafnarfirði og vinna forvarnarstarfið út frá þeim forsendum þá hefur tekist að koma í veg fyrir þróun sem hefði geta leitt til verri vegar. Með markvissum vinnubrögðum s.s foreldrasamstarfi , æskulýðstarfi o.fl. hefur því tekist að hafa verulega áhrif til hins betra í viðkomandi hverfum milli kannana. Því miður er það oft þannig að þegar að vel gengur þá er gengið að slíku sem vísu og ekki horft til allrar þeirrar sífelldu vinnu sem visslega fer fram til þess að halda þessum málum í eins góðu horfi og raun ber vitni.

Sterk forvarnarnefnd ásamt góðum starfsmanni er grundvöllur þess að vel gangi. Forvarnarnefnd sem hefur skýrt pólitískt umboð sem embættismaður sækir framkvæmdavald sitt til er forsenda velgengi á þessu sviði. Með nefndinni er tryggt að forvarnarmál fá vægi en lendi ekki sem aukamál í einhveri annari nefnd og hverfi í skugga annarra óskyldra mála. Forvarnarfulltrúi verður „landlaus“ hvað varðar umboð og þarf að leita til margra nefnda. Skilvirkni verður minni, ákvarðanataka verður mun flóknari og síðast en ekki síst er hætta á að áralöng reynsla og þekking fari forgörðum. Forvarnastarf gegnir mikilvægu hlutverki og ekki síst á tímum eins og þessum þar sem æskan er sérstakur áhættuhópur. Að leggja niður forvarnarnefnd var misráðið og hefur auk þess óverulegan sparnað í för með sér. Eitt af verkefnum forvarnarnefndar þessi dægrin ætti að vera stefnumótun um hverning bæjaryfirvöld munu taka á auknu atvinnuleysi 16 – 20 ára ungmenna sem er sérstakur áhættuhópur umfram aðra atvinnulausa. Annað ætti að vera að búa foreldrasamfélagið undir breytta tíma í unglingaumhverfinu og svona mætti lengi telja. Verkefni eru ærin og ekki vænlegt til árangurs að leggja ára í bát.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli